iPhone 6 plus

eftir Gestapenni

Lappari fékk einn iPhone 6 plus frá snillingunum í Macland til að prófa í nokkra daga og ætla ég að reyna að segja frá því í nokkrum orðum. Við byrjuðum að sjálfsögðu á að taka símann úr kassanum, og hérna má lesa aðeins um fyrstu kynni af honum ef áhugi er fyrir því.
iPhone 6 plus flokkast klárlega sem phablet, og er fyrsti stóri síminn frá Apple en skjárinn á honum er heilar 5,5”. Samhliða honum kom svo líka iPhone 6 sem er með 4,7” skjá sem er líka töluvert stærri en 4” skjárinn á iPhone 5 línunni, þótt hann virki frekar smár við hliðiná stóra bróður. Síminn er augljóslega svar við þeim gagnrýnisröddum sem hafa hljómað um að Apple sé að dragast aftur úr þar sem bæði Android og Windows símum með svona stóra skjái hefur fjölgað mikið síðustu misseri, og hafa notið töluverðra vinsælda.

iPhone 6 plus og iPhone 5s

iPhone 6 plus við hlið iPhone 5s

 

Hönnun og vélbúnaður

Innfeldir takkar

Takkarnir eru aðeins meira innfeldir en á eldri símum

Hönnun símans sker sig aðeins úr frá síðustu útgáfum af iPhone þar sem hann hefur rúnnaðar brúnir en ekki skarpar brúnir og kassalaga útlit líkt og iPhone 4 og 5 línurnar. Að öðru leiti er síminn mjög svipaður eldri útgáfum iPhone, með sömu takka og tengi. Smávægilega breytingar hafa verið gerðar á tökkunum þannig að þeir eru aðeins meira innfeldir og hafa mýkri línur en á eldri tækjum. Þeir eru allir á sama stað og og eldri tækjum nema power takkinn, sem búið er að færa niður á efri part hægri hliðar símans, eins og á mörgum símum í þessum stærðarflokki.

Myndavélin á iPhone 6 plus stendur svo aðeins útfyrir bakhlið símans, en það er í fyrsta skipti sem myndavél á iPhone gerir það, en við förum nánar út í það síðar í umfjöllunni. Heilt á litið virkar síminn mjög sterklegur og vel byggður, en maður gerir sér fyllilega grein fyrir því þegar maður heldur á honum að hann er stór og frekar þunnur, þannig að ef maður ætlar sér að beygja hann, þá bognar hann.

Takkar á 6 plus og 5s

Smávægilegar breytingar á tökkunum á iPhone 6 plus og iPhone 5 og allar línur mýkri

Hér eru helstu stærðir:

  • Hæð: 158.1mm
  • Breidd: 77.8mm
  • Þykkt: 7.1mm
  • Þyngd: 172g
  • Skjástærð: 5.5”
  • Upplausn: 1920 x 1080 401 ppi
  • 64 bita A8 örgjörvi með M8 hreyfiskynjara

 

Tengimöguleikar

Tengi

Tengi á símanum, 3.5mm tengi fyrir heyrnatól/handfrjálsan búnað og lightning tengið.

iPhone 6 plus styður að sjálfsögðu 4G, 3G og eldri kerfi, þó eru nokkur mismunandi módel sem styðja misjafnar tíðnir fyrir 4G og þarf að hafa það sérstaklega í huga ef sími er keyptur í bandaríkjunum. Síminn er svo einnig með þráðlausu neti og styður 802.11 a/b/g/n/ac og bluetooth 4.0. Viðbót frá eldir iPhone símum er svo NFC en það virkar reyndar einungis með Apple pay (snertilausar greiðslur), en enginn kortaútgefandi á íslandi er byrjaður að styðja apple pay svo við græðum lítið á því eins og er. Það má þó alveg gera ráð fyrir að það verði opnað fyrir notkun á NFC í öðrum tilgangi í framtíðar uppfærslum eins og hefur gerst með Touch-Id fingrafaralesarann.

Tengi á símanum sjálfum eru svo 3.5mm tengi fyrir heyrnatól/handfrjálsan búnað og lightning tengið sem er notað til gagnaflutninga og að hlaða símann.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Lyklaborðið er sama lyklaborð og á öðrum iOS tækjum nema þegar síminn snýr lárétt er aukaplássið sem stóri skjárinn gefur notað til að bæta við nokkrum auka flýtihnöppum. iOS lyklaborðið þykir vera afbragðsgott og verður það eiginlega bara ennþá betra þegar það er komið á svona stórann skjá. Ekki nóg með að takkarnir stækki, eykst bilið á milli þeirra örlítið líka, sem veldur því að maður ýtir ennþá sjaldnar á vitlausan takka. Svo er auðvitað hægt að skipta út lyklaborðinu fyrir önnur lyklaborð frá og með iOS 8.

Rafhlöðuendingin er mjög góð, ég tel mig hafa fiktað og notað símann mjög mikið á meðan ég var með hann í prufu en hann var alltaf í kringum 50% þegar ég fór að sofa á kvöldin eftir að hafa verið á fótum í um það bil  16-18 klukkutíma.
Rafhlaðan er 2915mAh og er uppgefin rafhlöðuending frá Apple eftirfarandi:
Í biðstöðu: Allt að 16 dagar (384 klst.)
Tal tími: Allt að 24 klst. á 3G
Netnotkun: Allt að 12 klst. á 3G, 4G og þráðlausu neti.
HD myndbandsspilun: Allt að 14 klst.
Tónlistarspilun: Allt að 80 klst.

Samkvæmt prófunum GSM Arena er raunveruleg ending nær því að vera eftirfarandi:
Tal tími: Um það bil 23 klst og 49 mín.
Netnotkun: 9 klst og 5 mín.
Myndbandsspilun: 11 klst og 15 mín.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn a iPhone 6 plus er 5.5 tommur og með 1920 sinnum 1080 díla upplausn sem gefur honum þéttleika uppá 401 díl á tommu(ppi) sem er reyndar aðeins minna en á sambærilegum símum. Skjárinn er samt ótrútlega bjartur og litirnir voru aðeins líflegri en í iPad mini retina sem ég notaði til samanburðar og hann kom ótrúlega vel út í grafík krefjandi leikjum og myndbandsspilun.
Hátalarinn er fínn, aðeins betri hljómur en í iPhone 5s sem ég notaði til samanburðar en náði þó ekki sömu dýpt og iPad hátalari, sem er svosem eðlilegt miðað við stærð.

Myndavél á bakhlið

Myndavélin stendur örlítið útfyrir bakhlið símans

Myndavélin er í einu orði sagt frábær. Svakalega skemmtileg þar sem lýsing var í minni kantinum og hristivörnin töluvert betri en í fyrri símum, enda sérstakar fljótandi linsur sem auka hristivörnina. Þessar linsur eru einnig ástæðan fyrir því að linsan stendur örlítið útfyrir símann.
Myndavélin er 8MP og með f/2.2 ljósopi sem er það sama og er á iPhone 5s. Það þýðir samt engan vegin að þetta sé sama myndavél þar sem hristivörnin gefur bæði færi á betri myndum í myrkri og sjálfvirkur fókus hef verið bættur til muna og á að vera tvisvar sinnum fljótari að finna fókus en á eldir símum.
Aðrir kostir myndavélarinnar eru svo meðal annars panorama myndir og háhraða myndataka sem styður annarsvegar 60 ramma á sekúndu fyrir 1080p myndbönd og 240 ramma á sekúndu fyrir 720p myndbönd.

 

Margmiðlun og leikir

Ég prófaði að spila töluvert af myndböndum í símanum og fór hann að sjálfsögðu létt með það og í rauninni ekki mikið meira um það að segja. Einnig prófaði ég nokkra leiki og þar á meðal Asphalt 8: Airborne og vá! Ég er nú ekki mikill tölvuleikjaspilari en hef spilað og séð þá nokkra og þetta er hiklaust flottasti leikur sem ég hef séð á snjallsíma. Grafíkin ótrúlega flott og magnað að sjá hluti eins og lýsingu, reyk og ryk svona vel gert í snjallsímaleik þannig að þetta er klárlega þrusu sími fyrir þá sem hafa gaman af leikjum.

 

Hugbúnaður og samvirkni

iPhone kemur eins og áður með fullt af innbyggðum hugbúnaði fyrir allt það helsta sem nauðsynlegt er í snjallsíma eins og vefvafra, tölvupóst forriti og svo framvegis en í stað þess að telja þau öll upp er hægt að kynna sér þau betur hér. Við skulum frekar eyða orðunum í að tala um hvað er öruvísi í iPhone 6 plus miðað við eldri og minni síma. Í plus er búið að bæta við láréttu viðmóti á þessi helstu forrit til þess að nýta skjáinn betur. Í mörgum tilfellum svipar það mjög til þess sem gerist þegar iPad er snúið á hliðina en þó er greinilegt að búið er að laga hluti til svo að skjárinn nýtist sem best. Þau forrit sem mér fannst þetta þægilegast í voru þessu samskiptaforrit, tölvupósturinn, facebook messenger og þessháttar, þar sem maður fékk listann af þráðum eða samtölum til hliðar og svo var dagatalið líka mjög þægilegt.
Tvær viðbætur við iOS 8 eru svo að nú snýst heimaskjárinn líka á hlið þegar símanum er snúið en það hefur ekki gerst á iPhone hingað til, þó það hafi verið þannig á iPad lengi og að ef maður smellir tvisvar lauslega á heimatakkan þá hoppar efri hluti skjásins niður á miðjan skjá til þess að auðveldara sé að ná í hluti án þess að teygja fingurinn langt uppá skjáinn.

Eina sem ég sakna við hann frá eldri símum er Nike+iPod appið sem notast með Nike+ hlaupaskynjara sem hægt að setja í suma Nike hlaupa skó eins og ég nefndi fyrstu kynni yfirferðinni.

 

 

Niðurstaða

Niðurstaðan er kannski sú að Apple er kannski ekki að gera eitthvað nýtt en þeir eru að svara ákveðnu kalli um stærri síma. Ég hélt persónulega að hann myndi ekki seljast neitt sérstaklega en svo hefur hann selst töluvert betur en allir gerðu ráð fyrir. Ég segi ennþá fyrir mitt leiti að hann sé aðeins of stór, en það er allt í lagi, ég get alltaf fengið mér iPhone 6, það er fullt af fólki sem finnst hann ekki of stór og er einmitt að leita að svona síma. Ef þú ert að spá í að versla eitt stykki (eða fleiri!) mæli ég hiklaust með því að reyna að komast í tæri við eitt stykki og fá að handleika gripin, það er alltaf besta leiðin til að pófa eitthvað nýtt og staðreyndin er sú að þetta er töluvert stökk fyrir þá sem eru vanir að vera með iPhone 5, eða jafnvel iPhone 4. Þannig að ef þér finnst stærðin fín og ert að leita þér að síma með stórum skjá og stórri rafhlöðu þá mæli ég hiklaust með iPhone 6 plus.

iPhone 6 plus fer ágætlega í hendi en einhverjum gæti þótt hann of stór

iPhone 6 plus fer ágætlega í hendi en einhverjum gæti þótt hann of stór

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira