Heim Föstudagsviðtalið Gunnar Stígur Reynisson

Gunnar Stígur Reynisson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 71 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Gunnar Stígur Reynisson, er 33 ára gamall og er Hornfirðingur í húð og ár. Borinn og barnfæddur þar þó ég eigi ættir að rekja um allt land, meðal annars í Mýrdalinn, Langanesið, Keflavíkur og svo til Þýskalands.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa sem prestur í Bjarnanesprestakalli í hálfri stöðu og hef verið það síðan 2012. Á móti starfa ég sem skjalavörður á Hornafjarðarsöfnum. Þar á undan var ég í Reykjavík og bjó þar í rúm 10 ár meðan ég var í námi og vinnu en var svo heppinn að geta snúið aftur og þjónað mínu fólki.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá presti?

Ég held að ég geti nú sagt að venjulegur dagur er vart til hjá prestum. Fastur vinnutími er eitthvað sem við þekkjum ekki og maður veit aldrei hvernig dagurinn verður þegar vaknað er. En oftast byrjar dagurinn á Hornafjarðarsöfnum þar sem grúskað er í gömlum skjölum og myndum. Þegar þeirri vinnu lýkur þá einkennist dagurinn af predikunarskrifum, fermingarfræðslu, fundum, svara tölvupóstum og/eða viðtölum. Stundum þarf að fara í sveitirnar en ég er með starfssvæði allt að Skaftafelli. Um helgar eru það svo hinar og þessar athafnir sem þarf að sinna.

 

Lífsmottó?

„Það er ekki mitt að dæma.“ Ég hef reynt að komast hjá því að vera með fordóma eða dæma aðra því þegar allt kemur til alls þá er það ekki mitt, það er annar sem sér um það verk.

 

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Í dag er ég að vinna með þrjár tegundir af tölvum: heimilistölva, fartölva og spjaldtölva. Allar þessar tölvur er með Win8.1. Ég er harður Windows-maður og kann mjög vel við stýrikerfið enda einfalt og þægilegt. Mér finnst það koma einkar vel út í Surface spjaldtölvunni en það sem vantar og hægt er að ræða endalaust um eru smáforrit (öpp).

 

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Ég er með Nokia Lumia 925. Öflugur sími sem ég kann mjög vel við.

 

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Ég held að það fyrsta sem hægt er að nefna er Windows stýrikerfið sem er alveg gríðarlega einfalt og ég held að það sé gott stýrikerfi fyrir þá sem aldrei hafa snert snjallsíma. Svo er það Office pakkinn. Það er gott að vera með hann í símanum og það er góð trygging að ef ég gleymi predikun þegar komið er í sveitina þá gæti ég náð í hana af Onedrive og lesið beint af símanum, en sem betur fer hefur það ekki enn gerst. Svo er myndvélin bæði kostur og galli. Það koma góðar myndir en vélin er lengi í gang úr hvíldarstöðu. Hef reyndar heyrt að það sé til bóta. Harðir diskurinn í símanum er svo helst til of lítill og svo er auðvitað hægt að tala um þennan skort á smáforritum en ég ætla ekki að gera það.

 

 

Í hvað notar þú símann mest?

Hringja, tölvupóstur, Facebook, Twitter, myndavélin, 6tag (instagram) og svo var það líka 6snap (Snapchat) en þeir hjá Snapchat voru svo góðir að gefa þá jólagjöf að loka reikningnum mínum um jólin þar sem ég var að nota hið óopinbera Snapchat-forrit.

 

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Ég hef alltaf átt Nokia síma og hafa þeir reynst mér mjög vel. Það er kannski þess vegna sem ég er enn með tæki frá þeim. Fyrsti síminn var Nokia 3210, svo var það Nokia 6510 og næstur í röðinni var 6120. Ég var þess svo heiðurs aðnjótandi að eignast cult símann Nokia N9 sem var með Meego stýrikerfinu og er minn uppáhaldssími enda fallegasta og einfaldasta stýrikerfi sem til hefur verið.

 

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Ég myndi uppfæra yfir í Lumia 930. Ég hef ekki pláss fyrir of stóra síma í mínum vasa og svo er 930 bara svo fallegur sími.

 

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég er ekkert svakalegt tæknidýr en hef saman gaman að lesa stundum um nýjustu græjurnar. Ég flakka því á milli The Verge, Windows Central og lappari.com.

 

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér þessum smáforritaskorti hjá Windows og þá sérstaklega frá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum. Það er lítið hægt að gera þegar einkafyrirtæki ákveða að búa ekki til forrit handa öllum stýrikerfum. En mér finnst það mikil mismunun og í raun alvarlegt mál þegar stofnanir á vegum ríkisins eða fyrirtæki í eigu sveitarfélaga ákveða að útiloka þriðja stærsta stýrikerfið með því að búa ekki til forrit fyrir það vegna þess hve fáir nota stýrikerfið. Ekki verið að vera að tala um einhver brot úr prósentum af heildartölu stýrikerfa heldur er um að ræða um eða yfir 10% sem nota Windows. Hér er ég að tala stofnanir eins og Lögregluna, Ríkisútvarpið, Strætó og hugsanlega fleiri. Svo er ánægjulegt og gott að vita að Neyðarlínan 112 hafi látið útbúa forrit fyrir Windows. Svo er þetta alltaf spurning með hænuna og eggið. Ef fleiri fyrirtæki myndu framleiða forrit fyrir Windows stýrikerfið myndi þá Windows símum fjölga? En hér er aðeins um vangaveltur að ræða og því óþarfi að velta sér mikið uppúr þessu. Annars óska ég bara fólki gleðilegs nýs árs og vona að nýtt ár verið öllum gleðilegt og happadrjúgt.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira