Heim Föstudagsviðtalið Föstudagsviðtalið – Magnús Viðar Skúlason

Föstudagsviðtalið – Magnús Viðar Skúlason

eftir Jón Ólafsson

Nú er komið að viðtali númer 20….  Þetta er partur af viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

Sá sem við spjöllum við núna er Magnús Viðar sem er vefstjóri og alhliða sérfræðingur hjá Hátækni….  Það er gaman (og reyndar erfitt líka) að fylgjast með Magnúsi á Facebook en hann er einn af þessum sem nauðsynlegt er að fylgjast vel með enda ávallt með puttann á púlsinum þegar kemur að nýjungum og lausnum í snjallsímageiranum. Ég bætti við erfitt hér að ofan því hann fær alltaf send nýjustu tækinn beint frá Nokia löngu áður en þau koma í sölu og það er mjög erfitt að fylgjast með því, allir sem mig þekkja vita að ég er nýjungagjarn og með straxveiki af háu stigi.

Ég hef nokkuð oft leitað til Magnúsar með allskonar fyrirspurnir og virðist hann vera óendanlega þolinmóður fyrir þessu kvabbi í mér. Ég leyfi mér að segja að hann veit allt sem maður getur mögulega þurft að vita um snjallsíma enda fylgist hann vel með því sem er í gangi og alger dellukall. Magnús er eðlimálsins vegna er harður Windows Phone maður sem þekkir stýrikerfið út og inn ásamt því að hafa góða reynslu af öðrum stýrikerfum og því mjög gott að leita til hans ef manni vantar upplýsingar. Hann er líka mjög duglegur að deila með notendum (t.d. á Facebook) ýmsum upplýsingum sem nytsamlegar eru.

 

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Magnús Viðar Skúlason og er borinn og barnfæddur Reykvíkingur.

 

Við hvað starfar þú?

Síðastliðin 11 ár hef ég starfað hjá Hátækni og sinni nú störfum vefstjóra og sérfræðinga í Nokia-lausnum. Í hjáverkum er ég einnig ritstjóri Tæknibloggsins, www.taeknibloggid.is

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Þessa stundina er ég með tvo síma, annarsvegar Nokia Lumia 1020 sem ég er búinn að vera með síðan um miðjan ágúst (sem telst nokkuð langt í mínu tilfelli) og svo hef ég verið að prófa Nokia Lumia 1520 og sjá hvernig hann er að virka í íslensku fjarskiptaumhverfi.

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Ef ég horfi á Nokia Lumia 1020 þá er þetta mögulega einn besti sími sem ég hef nokkurn tímann notað. Ekki nóg með að hann sé að keyra á Windows Phone 8 með öllum þeim kostum sem því fylgir heldur er hann einnig með þessari svakalegur myndavél sem ég kynntist mjög vel þegar ég var með Nokia 808 PureView í fyrra. Síðan ef ég horfi á Nokia Lumia 1520 þá er það vissulega viðbrigði að vera með 6 tommu síma en það sem maður er að fá með þessum síma; FullHD-skjár, 2GB vinnsluminni og fjórkjarna 2,2 GHz-örgjörvi er alveg ótrúlegt, hvort sem maður er í basic-hlutum eins og að vinna með tölvupóst eða fara á Netið eða keyra öfluga tölvuleiki í símanum, þá er það upplifun að gera þetta allt í gegnum svona öflugan skjá.

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Helst myndi ég vilja vera með síma sem er með rafhlöðu sem ég þyrfti ekki að hlaða nema einu sinni í viku eða virkaði þannig að hann væri stöðugt að hlaða sig, annaðhvort í gegnum sólarljós eða hvaða birtuuppruna sem er. Það að vera með þráðlausa hleðslu í símanum fer langt með þetta en persónulega myndi ég bara vilja gleyma því að þurfa að hugsa um rafhlöðuna.

 

Nýtist síminn við vinnu? Mögulega ómissandi?

Í mínu tilfelli er nýtist síminn ótvírætt í minni enda er maður að starfa í þessum bransa. Ég nota tölvupóstinn mjög mikið í símanum og fer t.d. mun meira á Facebook og Twitter í símanum heldur en í borðtölvunni. Þetta er ómissandi samskiptatól, engin spurning og þessi þróun, sem t.d. Nokia spáði fyrir um í kringum aldamótin, að símtækið væri það sem fólk myndi frekar eftir að taka með sér þegar það færi út frekar en veskið sitt eða húslyklana var algjörlega spot on.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Jólin 1997 fékk ég í jólagjöf frá foreldrum mínum minn fyrsta GSM-síma sem hét Ericsson GA 628. Ég var mikill Ericsson-maður til að byrja með og var með nokkra slíka áður en ég fór yfir í Nokia 6110 árið 1999.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Tjah, það er erfitt fyrir mann að svara þessari spurningu þar sem ég er yfirleitt með í höndunum þá síma sem mig langar að hafa hverju sinni. Ef ég mætti velja þá myndi ég vilja að taka smá snúning á síma sem Nokia gerði frumútgáfu einu sinni sem heitir Nokia Morph. Þessi sími fór aldrei í framleiðslu en það voru gerð nokkur eintök af honum í tilraunaskyni. Þetta er m.a. síminn sem var grunnurinn að ofursímanum í kvikmyndinni Paranoia sem var í bíó núna í haust.

 

Hvaða tæknisíðum fylgist þú reglulega með?

Af erlendum síðum þá les ég The Verge daglega sem og ég kíki reglulega á BGR.com, Wired og svo við og við koma áhugaverðar tæknigreinar hjá stærri fjölmiðlum vestanhafs eins og New York Times og CNN. Hér heima þá er það að sjálfsögðu Tæknibloggið og svo Lappari.com, fátt annað sem er að gerast í tækniskrifum hér á Íslandi sem mér finnst verulega slæmt miðað við hvað við erum tækniþyrst hérna á Íslandi.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

#SwitchToLumia

 

 

Hér er síðan skjáskotið frá Magnúsi

wp_ss_20131106_0001

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira