Heim ÝmislegtGoogle Er verra að hafa of mikið val?

Er verra að hafa of mikið val?

eftir Jón Ólafsson

Eftir að hafa notað iOS, Android og núna Windows snjallsíma þá hef ég velt fyrir mér hvort eitthvað sé til sem má kalla “of mikið úrval” eða “of mikið af valkostum”. Sem kerfisstjóri veit ég allavega að með því að minnka heimildir/valkosti notenda þá minnkar viðhaldþörf og áreiti frá notendum.

Ég vill meina og ætla að reyna að færa fyrir því rök, að of mikið val og of mikill sveiganleiki sé ekki gott fyrir “venjulega notendur”.

 

Hvað er venjulegur notandi?

Oft er notendum skipt í tvo flokka: venjulegir notendur og síðan sérfræðingar (Power Users)

Sérfræðingar eru þeir sem vinna við að selja snjallsíma, hafa fengið kennslu, oft ritarar á tæknimiðlum, mögulega tölvumenn sem eru búnir að grúska mikið á tæknimiðlum og læra margt með fikti. Ég vill meina að þessir notendur séu minnihluti og efa að eiginlegir Power Users séu nema 5-10% af notendum. Bæði byggi ég þetta á tilfinningu minni ásamt því að ég hef verið kerfisstjóri í mörg ár og vill heimfæra eðli tölvunotenda yfir í snjallsímanotendur, sambærileg lögmál?

Venjulegir notendur er með venjulegan síma eða feature-síma, notendur sem endurnýja símann sinn og fá sér þá snjallsíma, bara fólk sem vantar snjallsíma en fiktar ekkert of mikið. Nákvæmlega ekkert að því en mögulega vita þeir varla hvað snjallsími er áður en í verslun er komið og kaupa bara það sem sölumaður eða tæknitröllið í fjölskyldunni mælir með. Venjulegir notendur kunna eða læra oftast sjálfir að nota helstu kosti snjallsímans, setja upp öpp og geta leyst flest vandamál sem koma upp.

 

Hver er aðalkostur Android

Ef þú spyrð Power Users hver sé aðal kostur Android þá er svarið yfirleitt sveiganleiki og möguleiki notenda að hlaða hvaða stýrikerfi sem er inn á símann. Það er hægt að breyta virkni Android nær endalaust og þú sérð innlenda sem erlenda tæknimiðla dyggja þetta ofaní lesendur aftur og aftur. Einstaka miðlar ganga svo langt að prófa snjallsíma eftir að búið er að root´a þá. Viðmót símanns var líklega svo leiðinlegt/erfitt/þungt að þeir þurftu að root´a símann til þess að gera tækið þolanlegt og einkunn tækis endurspeglar þá líklega upplifun eftir root en ekki það sem venjulegir notendur upplifa. Þetta er æði merkilegt þar sem venjulegir notendur koma aldrei til með að root´a síma og vita ekki einu sinni hvað það er.

Venjulegir notendur myndu líklega svara þannig að þeir vilja bara síma sem

  • kemst á netið
  • getur tekið tölvupóst í símann
  • kemst á facebook
  • kemst á Instagram
  • getur mögulega hringt og sent sms

 

 

Er mikill sveiganleiki Android vandamál fyrir notendur?

Vandamál er líklega of sterkt orð, sérstaklega ef litið er á velgengi Android síðustu árin en það er samt athyglivert að bera Android saman við iPhone (iOS) og Windows Phone (WP).

Ég vill meina að of mikið val (fyrir venjulega notendur) geti valdið.

  1. Minnki framleiðni
  2. Minna notagildi
  3. Lakari upplifun

Þetta eru sömu lögmál og á vinnutölvum, um leið og kerfisstjórar hættu t.d. að láta alla notendur hafa admin réttindi á tölvu þá jukust afköst starfsmanna því þeir gátu ekki skemmt neitt….  Reyni að orða þetta mjúklega en mikill meiri hluti af verkefnum tölvumanna í dag er einfaldlega að laga til eftir fikt starfsmanna.

 

Er margir valkostir vandamál fyrir notendur?

Í dag getur notandi farið í hvaða símabúð sem er og valið úr breiðu úrvali Android síma. Meira að segja er hægt að kaupa síma sem kemur með Android útgáfu 2.3 sem kom út fyrir þremur árum og því löngu orðið úrelt.

Til að átta mig á því hversu “einfalt” valið er fyrir venjulega notendur þá skoðaði ég símtæki sem Síminn, Vodafone og Nova eru að selja. Get ekki annað sagt en að úrvalið er gríðarlega gott en samtals taldi ég 30 týpur af Android símum.

LG :
G2 – Optimus L7 II –  Optimus L5 II – Optimus L3 II – Optimus G – Optimus L5 – Optimus L4 II – Nexus 4
Sony:
Xperia Z Ultra – Xperia Z1 – Xperia Z – Xperia J – Xperia V – Xperia Tipo – Xperia Go
Samsung:
Galaxy Note III – Galaxy Mega – Galaxy S4 mini – Galaxy S4 Active – Galaxy Young – Galaxy Ace II – Galaxy Ace III – Galaxy SIII – Galaxy Fame – Galaxy S4 – Galaxy SII plus – Galaxy Xcover II – Galaxy SIII mini – Galaxy Note II
HTC One

Er einfalt fyrir venjulega notendur að velja úr þessum tækjum eða endar það alltaf á ráðleggingum seljanda?

 

Hvað er svona flókið við Android?

Fyrir Power-User ekkert… en gefum okkur að venjulegur notandi hafi getað valið sér síma úr þessum 30 sem í boði eru, hann sækir fullt af forritum og setur upp.

Forritin raða sér í stafrófsröð í forritalista, sumir Android símar eru reyndar með uppáhaldslista yfir mest notuðu öpp. Mjög líklega endar notandi með marga heimaskjái en ef ég man rétt þá styður Android sjö heimaskjái sem forrit dreyfast um. Besta er að í hverjum af þessum heimaskjá getur notandi gert möppur með forritum og yfirleitt getur notandi dregið möppuna eða öppinn yfir á þann heimaskjá sem hann vill.

Neðst í öllum þessum heimaskjáum er “dokka” sem gefur notenda aðgang í að hringja, senda skilaboð eða komast í öll forrit (í stafrófsröð) en ekki í uppáhalds forrit. Það er möguleiki að breyta þessari dokku en ekki einfalt að útskýra því það er misjafnt milli Android útgáfa og fer eftir því hversu mikið síminn er sérsniðinn að framleiðanda.

Eitt enn sem eykur á flækjustigið er að notandi getur endað með margar flýtivísanir í sama appið…

Gefum okkur að þú fáir ljósmynd í pósti og viljir deila henni þá eru möguleikar á útliti endalausir og breytilegir milli Android útgáfu. Útlit og virkni er æði breytileg milli framleiðanda líka og heldur áfram að breytast eftir því sem notandi setur upp fleiri öpp því þau bæta við eða breyta samvirkni möguleikum.

Annað sem ég hef rekið mig á er mismunandi stafagerð (Fonts) á milli Android síma sem er gríðarlega pirrandi.

Notandi fær aðgang að endalausum möguleika af stillingum sem því miður virðast stundum stangast á við aðrar stillingar en hann hefur allavega nóg af þeim.

Hægt að setja upp mismunandi launcher´a

Notendur geta skipt út síma appinu

Þetta er alls ekki tæmandi upptalning en hver og einn þessara möguleika sem ég hef talið upp kemur með sínum sér stillingum sem eru mismunandi milli appa sem og stýrikerfa.

Einnig er hægt að root´a símtæki og skipta þannig algerlega um stýrikerfi og eru líklega til þúsundir af Android útgáfum sem notendur geta valið um. Þær eiga það sameiginlegt að vera smíðaðar í bílskúr hjá einhverjum Power-User og bæta við enn fleiri möguleikum og breyttri virkni.

 

Getur verið að aukið val minnki ánægju notenda?

Mér finnst svolítið fjarstæðukennt að halda því fram að auknir valkostir minnki ánægju notenda en það hafa verið gerðar rannsóknir sem halda þessu fram. Ein þekktasta rannsóknin kallast “Jam Jar Study” og er frá 1995 en þar kemur fram að fjórföldun á valkostum minnkaði sölu á vöru um 85%.

 

paradox-of-choice

 

Hér má sjá TED youtube frá höfundi Jam Jar Study sem heitir Art of choosing sem er mjög athyglivert að skoða og dregur einnig fram mun milli einstaklinga eftir þjóðerni.

 

 

 

Bókin The Paradox of Choice tekur einnig mjög ýtarlega á þessu máli en hún leiðir að þeirri niðurstöðu að þeim mun fleiri valkostur, þeim mun meiri eftirsjá. Þeim mun fleiri valmöguleikar þeim mun líklegri er viðskiptavinur til að sjá eftir ákvörðun sinni og er líklegri til að vera ósáttur við val sitt.

Ég átta mig á því að það er ekki bein tenging milli sultuframleiðslu og sölu og síðan snjallsíma upplifunar en mér finnst þetta samt eiga við. Gott dæmi er að iOS og WP skora yfirleitt langbest þegar kemur að einkunnagjöf notenda á viðkomandi síma. Sú upplifun og einkunn er oft í engu samræmi við einkunnargjöf tæknitímarita sem enn og aftur kemur að muni milli venjulegra notenda og power-users.

WP og iOS eiga það sameiginlegt að það er eitt síma app, einn launcher, ein tegund af stillingum o.s.frv….  Þetta breytist ekkert frá ódýrustu símunum og uppí dýru flagskipin.

 

Hverju má venjulegur notandi eiga von á?

Android er frábært stýrikerfi eins og ég hef oft sagt og stærsti kostur þess er sveiganleiki og hversu mikið er hægt að sérsníða það. En eins og ég reyni að benda á hér þá er það líka  helsti ókostur við kerfið. Þetta er ókostur því ég er viss um að það er ekki mikill skildleiki með þessum 30 tækjum sem til sölu eru hér á landi. Vitanlega eru svokölluð Core-Apps svipuð en önnur sérvirkni er misjöfn milli tækja og höfuðverkur að fastsetja. Ég er með marga Android notendur í póstþjónustu hjá mér og það getur verið erfitt að hjálpa fólki með Android í gegnum síma. Fyrst þarf ég að vita hvaða framleiðandi þetta er, hvaða útgáfa er á tækinu og hvort það sé uppfært til þess að hafa séns á að hjálpa.

Windows Phone er mitt kerfi í dag eftir að hafa verið á iOS og nú síðast Android. Umhverfi og upplifun er eins í öllum WP símum, hvort sem það er low-end Lumia 520 eða High-end Lumia 1020. Þetta þýðir að sá sem á WP síma og vill uppfæra í nýjan getur gengið að því vísu að hann kann á kerfið og öll virkni er fastformuð. Sama á við um tölvumenn sem eru að hjálpa notendum, allt fastformað og einfalt.

Sama er uppá tenningnum hjá Apple en sem dæmi þá virkar nýja iOS7 á öll iPhone síma niður í iPhone 4 sem kom út 2010. Þetta þýðir að allir Apple notendur (iPhone 4 – 4s – 5 – 5s – 5c) eru með sambærilega upplifun og einfalt er að hjálpa notendum.

 

Minnkar aukið val ánægju?

Fyrir power user segi ég nei, síður en svo en fyrir venjulega notendur þá getur breytileiki Android tækja verið til vandræða þar sem notendur þurfa alltaf að læra á nýtt kerfi aftur og aftur.

 

Byggt að einhverju leiti á þessari færslu

Myndir og stuðningsefni hér og hér

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira