Heim UmfjöllunUmfjöllun annað Amazfit GTR 2 snjallúr

Amazfit GTR 2 snjallúr

eftir Jón Ólafsson

Amazfit GTR2 er úr nýrri kynnslóð snjallúra frá Amazfit og leysir af hólmi t.d. T-Rex úrið sem við fjölluðum um fyrir ekkert svo löngu síðan.

Við hér á Lappari.com vorum svo heppin að fá eintak lánað frá Tölvutek. Þetta er því enn eitt tækifæri fyrir kyrrsetumanninn að hlunka sér á fætur og prófa gripinn.

Hér má sjá afpökkun á Amazfit GTR2

Það verður að segjast að T-Rex úrið fór framúr mínum væntingum og var ég því spenntur að prófa betur og sjá hvort og hvað væri betra við þessa nýju kynnslóð snjallúra. Á pappírum lítur Amazfit GTR2 mjög vel út og greinilegt að Amazfit hafa bætt töluvert í varðandi kosti sem og rafhlöðuendingu sem er að mínu mati oft akkerishæll þessara snjallúra. Rafhlöðuending og appið sem fylgir með hefur yfirleitt allt með að gera hvort ég noti það eða hvort það endar í skúffunni með öllum hinum snjalltækjunum sem ég hef gefist upp á?

Þetta kemur í pakkanum
Amazfit GTR2 snjallúr.
USB hleðslusökkull sem festist með segli við úrið.
Leiðarvísir.

Uppsetning
Á kassanum og í leiðarvísi er vísað í snjallsíma app frá Amazfit sem heitir einfaldlega Zepp. Uppsetning á Amazfit GTR2 er svipað einföld og áður en notandi úrsins einfaldlega skannar kóða sem kemur á úrinu með Zepp appinu í snjallsímanum sínum. Þá sækir úrið nýjustu hugbúnaðaruppfærslu sem í boði er fyrir úrið og á meðan skráir notandi inn helstu stærðir svo sem hæð, aldur, þyngd og fyrri störf en eftir það var úrið tilbúið til notkunar.

Helstu upplýsingar
Þyngd 39gr
1.39″ Amoled skjár
14 daga rafhlaða // rúmlega 38 dagar ef bara í klukkuham.
Vatnshelt að 50M // 5 ATM
Svefnmælir frá styttri lúrum í REM svefn
Mælir vegalengd
Skrefamælir
Áætlar brenndar Kaloríur
Hjartsláttarmælir (Optical)
Súrefnismettun.
Hröðunarmælir
Snjall tilkynningar og t.d. hægt að hafna símtölum beint í úri
Activity tracker með 90 mismunandi stillingum
Skilaboð, símtöl og viðburða áminning.

Dagleg notkun og hleðsla
Ég notaði Amazfit GTR2 í rúmlega þrjár vikur og er mjög ánægður með tækið en bestu meðmælin eru að rafhlaðan entist mjög vel þrátt fyrir mikla notkun og fikt hjá mér ásamt því að úrið svipar meira til hefðbundins úrs samanborið við T-Rex úrið, sem er vel.

Eins og ég hef áður sagt þá er ég ekki frá því að svona snjallúr hvetji mig til að hreyfa mig meira en áður. Ég setti mér markmið um skrefafjölda á dag og hætti ég ekki fyrr en ég var verðlaunaður fyrir að markmiðinu hafi verið náð. Það er hægt að leika sér með þessi markmið fram og til baka hvort sem það er skrefafjöldi eða kaloríu fjöldi sem ég vil brenna og ættu allir að geta sett sér raunhæf markmið.

Amazfit GTR2 er mjög létt á hendi eða aðeins 39gr sem er nálægt helmingi léttara en T-Rex úrið var. Úrið er það létt að ég hreinlega gleymdi sem dögum skipti að ég væri með snjallúr á mér, en þannig vil ég að lífstílstæki virki.

Helsti ókostur úrsins fyrir mig persónulega er að ólin mætti vera stærri, ég er reyndar með nokkuð stórar hendur og þurfti að hafa úrið í ystu stillingu til að koma því þæginlega á mig. Það kom þó ekki að sök því ég gat valið úr góðu úrvali armóla af vefsíðu Tölvuteks.

Samstilling
Amazfit GTR2 er alltaf tengt við snjallsímann og samstillir því gögn jafnóðum við appið í símanum. Þetta er eðlilega nauðsynlegt til að fá tilkynningar og annað í úrið.

Appið er til fyrir Android og iOS og virkar svipað á báðum.

Svefnviðmót
Þetta er virkni sem ég hef ávallt mikinn áhuga á. Ég er tölvukall sem er á vaktinni 24/7 og get því liðið fyrir óreglulegan svefn.

Amazfit fylgist með hvenær ég fer að sofa og hvenær ég vakna og hver gæði svefnsins eru. Þar sem ég var með púlsmælingu ávallt virka þá var tölfræðin nokkuð ítarleg og góð.

Ég prófaði að gera tilraunir með kaffidrykkju á kvöldin en ég hef alltaf haldið því fram að ég sofi djúpt og vel, hvort sem að ég drekki kaffi rétt fyrir svefninni eða ekki. Ég reyndar sofna ávallt strax en Amazfit GTR2 sannaði fyrir mér að gæði svefnsins eru ekki jafnmikil ef drukkið er kaffi eftir kvöldmat…. því miður.

Niðurstaða
Ég hef tuðað slatta fyrir nafninu Amazfit sem er æði “Kínalegt” ef svo má segja en það venst. Amazfit GTR2 er klárlega eitt af þeim tækjum sem ég hef prófað fyrir Lappari.com og mun sakna þegar ég skila því.

Sem fyrr, ef borið er saman við önnur snjallúr með sambærilegum kostum þá eru Amazfit úrin ódýrt í samanburði. Úrið er orðið ansi stílhreint, það er sterkbyggt, með góðri rafhlöðuendingu og ásamt fullt af skynjurum sem fylgjast með notenda í rauntíma. Amazfit GTR2 samstillist við gott snjallsíma app þar sem notandinn getur stillt úrið eftir sínu höfði. Þar er einnig góður og einfaldur aðgangur að upplýsingum um t.d. gæði svefns, hreyfingar o.s.frv.

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira