Heim UmfjöllunUmfjöllun Snjallsímar Sony Xperia Z3 Compact

Sony Xperia Z3 Compact

eftir Haraldur Helgi

Lappari hefur áður prófað Sony Xperia Z1 og Xperia Z2 og hlökkuðum við mikið til að prófa hvernig Xperia Z3 Compact kæmi út í prófunum þegar emobi höfðu samband við okkur. Sony Xperia Z3 Compact er eins og nafnið gefur til kynna minni útgáfa af Xperia Z3 en venjan er að svona minni útgáfur eru mun aflminni en stóri bróðir en það á þó ekki við með Xperia Z3 Compact. Á pappírum er hann svipaður og Xperia Z3 fyrir utan nokkur atriði eins og t.d. minna vinnsluminni og minni skjár.

Þetta er nokkuð áhugaverður sími því símar hafa verið að stækka og stækka meðan minni (venjulegir 4-5“) símar hafa verið að fá mun lakari vélbúnað. Sony virðist með þessu símtæki vilja höfða til þeirra sem vilja ekki stóru símana en vilja samt öflugan og góðan vélbúnað. Sjáum hvernig þetta gengur.

 

Hér má sjá afpökkunarmyndbandið okkar

 

 

Hönnun og vélbúnaður

Á heildina litið er vélbúnaður símans góður  en hann er með Snapdragon 801 kubbasett, fjórkjarna Krait 400 örgjörva sem keyrir á 2.5 GHz og er með 2GB af vinnsluminni. Það er ekkert slor að vera með 2 GB af vinnsluminni en stóri bróðir er þó með 3 GB.

Síminn keyrir á Android 4.4.4 sem í daglegu tali er kallað KitKat. Og samkvæmt framleiðanda er stefnt að því að hann fái uppfærslu í 5.0, Lollipop mjög fljótlega. Síminn er aðeins 129gr að þyngd og er því á svipuðu róli og iPhone 4s. Ekki nóg með að hann sé í svipaðri þyngd heldur þykir okkur hann svipa til iPhone 4 í útliti, glerhjúpur utan um hann og svo er hvíti liturinn ekki að hjálpa til.

Símtækið er með power-, hækka/lækka- og myndavélatakka á hægri hlið tækisins og á vinstri hlið er tengi fyrir doccu/stand sem þarf að kaupa aukalega (var ekki prófað).

 

x3c_5

 

Utan um símtækið er einskonar glerhjúpur sem gefur vandað og sterklegt útlit en það virðist vera ansi erfitt að rispa símtækið. Hann svipar töluvert til Xperia Z2 að útliti og það er alls ekki slæmur kostur enda fallegt og vandað tæki.

 

x3c_9

 

Hinsvegar finnst okkur galli hversu sleip bakhlið símans er og rennur hann mjög auðveldlega til á sléttum fleti þó að hallalaus sé. Vitanlega er einfalt að skella honum í tösku eða hlíf og þá er þetta  svokallaða vandamál ekki lengur til staðar.

 

 

Tengimöguleikar

Síminn er með þessa hefðbundnu tengimöguleika, USB tengi, bluetooth, WiFi, 3G, 4G, DLNA tæknina sem og möguleika á WiFi hotspot. Xperia Z3 compact er með IP68 vottun sem segir að hann sé ryk- og vatnsvarinn en það þýðir að hann geti verið í um 10 metra dýpi í 30 mínúndur án þess að skemmast við það.

 

x3c_8

 

Þar sem hann er vatnsheldur þá eru öll tengi nema 3.5mm heyrnartólstengið á bakvið vatnsvarin lok. Þau eru vitanlega nauðsynleg til að halda tækinu vatnsheldu en tefja fyrir þegar tækið er hlaðið eða tengt við tölvu. Á vinstri hlið undir tveimur vatnsheldum lokum eru USB tengi, hólf undir SIM kortið og rauf fyrir microSD kort.  Símtækið styður 128 GB minniskort sem er frábær viðbót við þessi 16 GB sem í símanum eru.

 

 

Rafhlaða og lyklaborð

Við erum mjög ánægðir með rafhlöðuendinguna í Xperia Z3 Compact en samkvæmt Sony er hún svona :

  • Tal yfir 2G: 12 tímar
  • Tal yfir 3G: 14 tímar
  • Biðtími: 880 – 920 tímar (2G/3G)
  • Tónlistarafspilun: 110 tímar

Við gerðum heiðarlegar tilraunir til að klára heila hleðslu á einum degi og gekk það brösulega, miðað við venjulega notkun er óþarfi að hlaða símann nema kannski á 2 daga fresti.  Lyklaborðið er hið hefðbundna Android lyklaborð með flýtiritun og SwiftKey sem ég hef reyndar aldrei náð að venja mig við þó svo að ég sé yfirleitt með Android síma.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Xperia Z3 Compact er mjög góður og skýr, kemur litum vel frá sér og sérstaklega svörtum lit, sem er ekki algengt í farsímum í dag að mínu mati nema einstaka vörumerkjum eins og t.d. sumum Lumia símtækjum.

Upplausnin er 1280 x 720 (720p með 319 ppi) sem er töluvert skref niður frá stóra bróðir sem er með 1080p skjá. Það má samt ekki gleyma því að þetta er minni skjár og virðist sem 720p sé miklu meira en nóg á 4.6“ skjá. Sony notar IPS LCD skjá sem notar tækni frá Sony sem heitir Triluminus og X-Reality sem á að gefa eðlilegri liti og bæta contrastinn til muna.

Heilt yfir þá erum við mjög ánægðir með skjáinn og virkaði hann vel í öllum okkar prófunum með einni undantekningu, hann er ekki góður úti í björtu veðri eða sólskini. Það gott stereo hljóð úr hátölurunum þó svo að talgæði símtala mættu vera betri.

 

Sjálfumyndavélin (e. selfiecamera eða front facing camera) ofan við skjá símans er 2.2MP og virkar alveg ágætlega þó hún sé helst til gróf og nær ónothæf við léleg birtuskilyrði. Aðal myndavélin á bakhlið símanns er 20.7 MP eða 5248 х 3936 með autofocus, LED flassi og er í grunnin sú sama og í Xperia Z3. Vélin í stóra bróðir er þó með aðeins betri linsu.

 

x3c_2

 

Myndavélin býður uppá margskonar viðbætur eins og panorama myndatöku, HDR og svo miklu meira. Mikið af viðbótum sem eru gagnlegar en geta auðveldlega flækst fyrir venjulegum notendum sem vilja bara smella krúttlegri mynd af kisunni sinni. Myndavélatakki er með tvöfaldri virkni, halda smá inni til að focusa og síðan alla leið til að smella af mynd. Almennt má segja að myndavélin hafi staðið undir væntingum fyrir utan þá staðreynd að myndir við léleg birtiskilyrði voru flestar ekki góðar og því miður oftast nær ónothæfar.

Video hluti þessa síma er reyndar mjög svo magnaður en hann tekur upp í formattinu 2160p@30fps,1080p@60fps, 720p@120fps, HDR og 4K. En við það að taka upp í 4K er ansi hætt við að síminn fylli uppí innra minni sitt auk þess sem hann hitnar alveg óheyrilega.

 

Hér má sjá myndband sem tekið var upp á vaxtarræktarmóti en þessi upptaka er í 4K

 

 

 

Margmiðlun og leikir

Síminn virkar vel í leikjum og við almenna margmiðlun. Innra minni símans er aðeins 16GB en eins og fyrr segir er hægt að bæta við það með microSD allt að 128GB sem verður að teljast ansi gott og í raun nauðsyn ef taka á upp í 4K.

 

x3c_7

 

 

Hugbúnaður og samvirkni

Sjálft notendaviðmót í Xperia Z3 Compact er ekki mikið breytt frá stock Android en okkur líkar það mun betur en krúsídúlluviðmót eins og t.d. TouchWiz. Allt flakk um símtækið er frekar einfalt og gott að skilja. Þetta reyndar gerir Sony viðmótið einfalt og kannski leiðinlegt, það hefur allavega litla sérstöðu frá öðrum viðmótum og varð ég fljótt leiður á viðmótinu enda allt gert til að lágmarka krúsidúllur og stæla sem þvælast fyrir notendum.

Símanum fylgir þessi hefðbundna súpa af allskonar gúmmelaði frá Android sem Sony eru búnir að smyrja utaná. Sumt er hægt að fjarlægja en flest ekki sem er miður því mikið að því sem Sony lætur fylgja með eru þjónustur sem gagnast okkur ekki eða vekja ekki áhuga okkar.

 

x3c_6

 

Það er þó eitt sem þarf að koma fram að ég er notandi á Office 365 og samkeyri þvi Exchange póstinn minn við símann. Þá vil ég sjá póst, dagatalið mitt og tengiliðina. Einhver leiðindi voru í „Exchange active sync“ því pósturinn var það eina sem kom inn en tengiliðirnir og dagatalið ekki – sem er skrítið. Ég skoðaði talsvert leiðir til að laga þetta, meðal annars að gera „reset factory settings“ en ákvað að hætta því, þetta ætti að vera eitthvað sem kæmi inn ef boðið væri uppá það.

 

 

Niðurstaða

Sony Experia Z3 Compact er fallegur sími sem fer ágætlega í hendi. Það eru þó ýmsir hnökrar á hönnun hans eins og sleip bakhlið og lok yfir tengjum sem nota þarf reglulega. Lokin eru málamiðlun vegna þess að hann er vatnsheldur en hefta samt notagildi og upplifun sökum þess.

Síminn er hraðvirkur og virkar fumlaust í öllum aðgerðum í stýrikerfinu og þeim helstu leikjum sem við prófuðum. Skjárinn á honum er mjög góður og myndavélin ætti að gleðja flesta.

Sony Xperia Z3 Compact líklega besti litli Android síminn á markaðnum í dag.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira