Við fjöllum reglulega um UniFi vörur hér á Lappari.com en hægt og sígandi hafa þeir komið út með vörur sem hafa náð að heilla okkur meira og meira.
UniFI Protect G4 Doorbell er snjalldyrabjalla með myndavél sem margir hafa beðið eftir. Eins og stundum áður þá misnotaði ég aðstöðu mína lítillega og fékk eina lánaða hjá netkerfi.is til að prófa betur.
Hvað er þetta?
UniFi dyrabjallan svipar í raun til Nest Hello og Ring dyrabjallna að mörgu leiti nema með einni mikilvægri undantekningu. Hún þarf ekki skýjatengingu til að virka og því ekkert mánaðargjald sem greiða fyrir hýsingu myndefnis.
Myndavélin er þráðlaus, er með 5MP sensor og 1600×1200 upplausn @ 30fps. Hún er með PIR skynjara (hreyfiskynjara) og nemur því hreyfingu samstundis.
Hún er veðurvarin, með skjá sem hægt er að setja texta á, t.d. “skildu pakkann eftir” o.s.frv. Hún er með ljósi sem kviknar þegar hún skynjar hreyfingu ásamt því að vera með hátalara og hljóðnema og því hægt að tala beint við þann sem hringir dyrabjöllunni.
Fyrir hvern er hún?
Það er hægt að tengja hana beint við gömlu góðu dyrabjölluna sem er í flestum húsum, með þeirra athugasemd að mjög líklega þarf að stækka bjölluspenni til að straumfæða dyrabjölluna. Það á reyndar við með allar snjallbjöllur sem þurfa yfirleitt 16-24V.
Hér má sjá myndband sem sýnir hvernig dyrabjallan er tengd.
Það er hægt að virkja RTSP straum beint af vélinni sem hægt er að horfa á og/eða taka upp í mörg upptökukerfi í dag.
Ég leyfi mér samt að fullyrða að þessi dyrabjalla er ekki hugsuð sem stand-alone tæki. Hún smellur beint inn í UniFI Protect öryggiskerfið frá UniFi og þar er hún bara eins og hver önnur G4 myndavél…. bara með fullt af auka krúsídúllum.
Þeir sem eru með Protect myndavélakerfi (UDM-Pro, CK Gen2, UNVR) fá upptökur og tilkynningar þegar hreyfing er numin ásamt þessu venjulega. Til viðbótar kemur tilkynning á snjallsíma sem eru með UniFI Protect appið og tengdir við kerfið. G4 vélarnar eru einnig með fídus sem kallast Smart Detect en þær ná að greina hreyfingu á fólki frá annari hreyfingu sem minnkar flæði tilkynninga töluvert mikið.
Ef smellt er á dyrabjölluna þá er hægt í UniFI Protect appinu að sjá hver er að hringja bjöllunni, tala við viðkomandi o.s.frv.
Kostir samanborið við önnur kerfi?
Með þeim fyrirvara að við höfum ekki prófað allar snjalldyrabjöllur þá höfum við prófað og sett upp ansi margar. Helsti kosturinn er að streymi og upptökur úr dyrabjöllunni (sem og öðrum UniFI myndavélum) fer öll fram á staðarnetinu, sem sagt ekki yfir internetið og vistast á búnað innanhús.
Ég var að skipta út Nest Hello dyrabjöllu hjá mér sem ég elskaði í upphafi en svo aðeins minna eftir að Goggle keypti Nest. Fyrir það fyrsta þá treysti ég Google passlega mikið fyrir stanslausu streymi af planinu hjá mér, þar sem ferðir heimilisfólks gætu verið nokkuð vel skráðar.
Annað er að ég hef tekið eftir því að þegar mikið álag er á internetinu (t.d. á Covid tímum) þá minnkaði Google hraðann/gæðin í Nest Hello án þess að biðja mig leyfis eða gefa mér færi á að svara. Sama gerist eða gæti gerst hjá öðrum sem nota kerfi sem stóla á skýið að öllu leyti.
Fyrir mína parta finnst mér mjög mikilvægt að upptökur úr öryggismyndavélum heimilisins séu hýstar innanhúss og fari ekki yfir internet nema að ég ákveði það sjálfur.
Ég veit að margir leysa þetta með því að nota myndavélar með minniskortum en ég persónulega skilgreini ekki minniskort í myndavélum sem öruggan geymslumáta. Minniskort geta verið viðkvæm fyrir raka eða hitabreytingum, þau hafa styttri líftíma (færri write cycle) en venjulegir harðdiskar.
Helsti kosturinn er að myndvélin smellpassaði inn í UniFI Protect kerfið mitt og bætir við það skemmtilegri snjallvirkni sem kom mér skemmtilega á óvart en meira um það síðar.
Hér má sjá myndband frá Crosstalk Solutions þar sem farið er nánar í kosti, uppsetningu og notkun.