LG G2 Mini

eftir Þórarinn Hjálmarsson

Nýlega birtum við umfjöllun okkar um G2 símann frá LG. Nú hafa meistararnir hjá Emobi komið á okkur minni og uppfærðri útgáfu af þeim sama síma eða LG G2 Mini.

 

 

Líkt og nafnið gefur til kynna er hér um minni útgáfu af símanum að ræða en glöggvum okkur aðeins á breytingunum:

Lg G2 LG G2 Mini
Stærð 138,5×70,9×8,9 129,6x66x9,8
Þyngd 143gr 121gr
Skjár True HD-IPS + LCD capacitive touchscreen, 16M colors IPS LCD capacitive touchscreen, 16M colors
Stærð skjás 1080×1920 px, 5,2“ 540x960px, 4,7“
Minni 16/32gr, 2gb ram 8gb, 1gb ram
Myndavél 13 MP, 4160×3120 px 8 MP, 3264x2448px
Örgjörvi Quad-core 2.26 GHz Krait 400 Quad-core 1.2 GHz Cortex-A7

 

Eins og sést á spekkunum þá er hér bæði minni sími að forminu til en jafnframt lakari sími þegar rýnt er í tölurnar.

Sést það einnig í verðinu en LG G2 er um 20.000 króna dýrari sími heldur en LG G2 Mini.

 

Hér má sjá LG G2 Mini afpökkun

 

Hönnun og vélbúnaður

LG G2 Mini er nettur sími í hendi þrátt fyrir að vera með 4,7“ skjá. Hinsvegar venst illa að hnapparnir fyrir hljóðstyrk og að kraft hnappurinn“power“ séu staðsettir á baki símans.

Framhliðin lítur vel út en allir stýrihnappar eru í skjánum sjálfum, back takkinn, menu takkinn og svo upplýsingahnappurinn. Bakhliðin er plast og er það skiljanlegt fyrir svo ódýran síma en reyndin er að flestir nýjir símar, jafnvel flaggskips símar eru farnir að hafa þessa plastáferð.

 

Síminn virkar sprækur við hina almennu notkun á símanum en þegar farið er að spila leiki eða jafnvel þyngri forrit þá kemur stöku hikst í símann. Þó hikstið sé þreytandi oft þegar þung keyrsla er í gangi þá er það eitthvað sem almennur notandi ætti ekki að verða mikið var við.

Þó kemur fram undarleg hegðun á símann þegar talað er í símann. Þegar farið er í að leggja á þá virðist síminn oft ekki meðtaka snertinguna og hefur oft þurft að reyna nokkrum sinnum áður en lagt hefur verið á. Í stöku tilfellum hefur þurft að læsa símanum og vekja aftur til þess eins að geta lokið símtali.

Stærðir:

  • Hæð: 129,6mm
  • Þykkt: 9,8mm
  • Breidd: 66mm
  • Þyngd: 121gr

Síminn kemur með 8gb minni ólíkt LG G2 þar sem hann kom í tveimur útgáfum, 16 eða 32 gb. Hinsvegar er Mini kominn með MicroSD, eitthvað sem bent var á að vantaði í umfjöllun okkar um G2, og styður það allt að 32gb auka kort.

 

Tengimöguleikar

LG G2 Mini kemur með Micro USB tengi (USB 2.0) neðst á símtæki þannig að einfalt er að tengja símann við tölvu til að sækja eða setja á hann efni. Þetta er kostur þar sem notendur geta notað allar Micro USB snúrur sem þeir eiga fyrir, það er ekkert sérstakt tengi eða millistykki sem þarf. Þetta tengi er sameiginlegt með “öllum” snjallsímum.

Efst á síma er einnig 3.5 mm heyrnartólstengi en einnig er Bluetooth tengi (Bluetooth 4,0 A2DP).

G2 Mini er með þráðlausu neti eins og við er að búast sem styður 802.11 b/g/n ásamt NFC kubbi og innrauðu porti.

LG G2 Mini styður 4G að fullu og býður upp á LTE 800/900/1800/2100/2600.

 

 

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlöðuendingin kom skemmtilega á óvart, síminn sportar Li-ion 2440 mAh rafhlöðu og var auðveldlega hægt að ná fullum vinnudegi og rúmlega það út úr símanum þrátt fyrir að vera tengdur við helstu samfélagsmiðlana, 3 tölvupóstföng tengd við hann ásamt hinni hefðbundnu notkun (nokkur símtöl á dag ásamt stöku sms). Síminn var ávalt með tengt á Wi-Fi þótt hann væri ekki sítengdur við slíkt kerfi og ekki taldist þörf á að minnka birtu í skjá eða slökkva á GPS virkni símans.

 

 

Standard lyklaborðið á símanum kom að sjálfsögðu með íslenskum sérstöfum frá upphafi, hinsvegar reyndist það lyklaborð alls ekki vel. Þó voru gerðar tilraunir til þess að líka vel við það. Þegar haldið var inni hnöppum til að birta auka-valmynd líkt og til að kalla fram bókstafinn „á“ þá virtist skjárinn eiga í vandræðum með að staðsetja fingurinn yfir bókstafnum, þess vegna dró maður frekar fingurinn í þá stefnu sem fara átti á lyklaborðinu án þess þó að vera með fingurinn beint yfir bókstafnum til að velja hann. Mjög undarlegur böggur þar á ferð og tengist líklega skjánum og upplausninni á honum.

Sem betur fer er Android það opið kerfi að eftir nokkra daga að tilraunum til að líka við lyklaborðið var Swiftkey komið á símann og pirringur sem tengdist lyklaborði var horfinn.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á LG G2 Mini kom skemmtilega á óvart. Þægilegt var að horfa á hann og vafra um á honum. Þrátt fyrir að skjárinn sé 4,7“ þá er upplausnin ekki sú besta á honum eða 540x960px og er punktaþéttleikinn 234ppi.

Þrátt fyrir lága upplausn þá truflar það ekki hinn almenna notanda og verður hann lítið var við það.  Skjárinn er bjartur og fínn, stundum óþarflega bjartur.

Þrátt fyrir að takkarnir á bakinu hafi truflað mig að einhverju leiti þegar ég talaði í símann þá reyndust gæði símtala fín, bæði í gegnum hátalara (handfrjálst) en líka þegar talað var beint í símann. Takkarnir á bakinu trufluðu þó mikið þegar reynt var að hækka eða lækka í hljóðstyrk símtals og þurfti oft á tíðum að snúa símanum í miðju símtali til þess að stilla hljóðstyrkinn.

 

Myndavél

Myndavélin á G2 Mini er 8MP og tekur í hæstu stillingu myndir í 3264×2448 og upptökumöguleika í 1080p myndbönd í 30 römmum á sekúndu. Myndavélin tekur vel við sér og er snögg að taka myndir, í raun fín í “point & shoot” myndir.

7

Myndavélin býður upp á nokkrar stillingar fyrir myndartöku: Normal, Panorama, Continous shoot, HDR, Sport, Beuty Spot og Time catch.

 

Margmiðlun og leikir

Myndbanda spilarinn í símanum kom skemmtilega á óvart. Prófað var að setja inn myndskeið á símann sem pökkuð voru með hinum mismunandi þjöppunum og réð síminn við allt sem á hann var lagt.

Líkt og gefur að skilja þá kemur síminn með Android stýrikerfinu og þar af leiðandi aðgangur að Google Play forrita versluninni. Prófaðir voru all nokkrir leikir og réð síminn við þá alla léttilega, þó hikstaði hann stöku sinnum í stærri og grafískt flóknari leikjum sem finna má á Google Play.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Líkt og áður hefur komið fram sportar síminn Android stýrikerfinu frá Google, nánar tiltekið 4.4.2 öðru nafni KitKat. Líkt og með aðra síma sem keyra á Android þá hefur framleiðandinn sett sinn svip á stýrikerfið í formi útlitslegra breytinga sem og úrvali af forritum sem koma með símanum.

Þegar kemur að útlitinu þá er fátt sem truflar að frátöldu lyklaborðinu eins og áður hefur verið komið að.

Eitt af því sem LG hefur lagt af mörkum þegar kemur að öryggi í símanum er svokallað “Knock code”. Þetta vísar til þess að í stað þeirra hefðbundnu skjálæsinga sem koma með Android hefur LG bætt við möguleikanum að einfaldlega smella á skjáinn á ákveðna hluta skjásins í þeirri röð sem eigandinn ákveður til þess að aflæsa honum.

 

 

Þessi útfærsla á læsingu kom skemmtilega á óvart sökum sérstaklega þegar horft er til tímasparnaðar (sem telur nokkrar sekúndur í mesta lagi). Hinsvegar hentar þessi gerð læsinga ekki fyrir allar skjástærðir. Stærð G2 Mini er í því stærsta ef það á að aflæsa honum með einungis einni hendi.

Lítið fór fyrir öðrum forritum frá LG í símanum, sem er jákvætt. Oft á tíðum hefur áhersla framleiðanda verið óþarflega mikil í að fá menn til að stofna allskonar aðganga í símunum og nýta þær þjónustur sem þeir sjálfir hafa lagt kostnað í að þróa. Er það símanum til framdráttar hve lítið fór fyrir þessum tilburðum hjá LG.

 

 

Niðurstaða

Heilt yfir reyndist síminn mjög vel sem mid-range Android sími. Þrátt fyrir að hnappar á bakinu hafi truflað meðan á prufunum stóð þá hefur reynst erfitt að venjast því aftur að hafa hljóðstyrks og orku hnapp á hlið síma aftur. Þrátt fyrir að þessi staðsetning sé ekki það sem ég myndi kjósa þá má sjá hversu fljótt hægt er að aðlagast þegar formið hefur verið brotið.

Rafhlöðuending á þessum síma var til fyrirmyndar og réð hann léttilega við fullan vinnudag í mikilli keyrslu og ríflega það. Takmarkanir í símtækinu komu sjaldan fram en þegar þær gerðu vart við sig þá var um þunga keyrslu að ræða og höfundur meðvitaður um að hér sé ekki verið að ræða flaggskips síma.

Ef hugsunin er að vera með öfluga myndavél í vasanum þá eru öflugri valkostir á markaðinum heldur en þessi sími. Myndavélin hentar vel til samfélagsmiðla dreifinga.

Heilt yfir er hér um að ræða fínan mid-range síma sem ætti að henta vel fyrir þá sem gera ekki miklar kröfur á snjallsímann sinn.

 

Myndir

Mynd af rafhlöðuendingu fengin frá GSMArena

Hringmynd af LG G2 Mini fengin frá GSMArena

Aðrar myndir eru teknar úr myndaleit Google og biðjum við afsökunar á því, minniskort með myndum af símanum tapaðist og verður þessi umfjöllun því uppfærð þegar við höfum myndað tækið aftur.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira