Heim UmfjöllunUmfjöllun annað RHA T20i heyrnartól

RHA T20i heyrnartól

eftir Jón Ólafsson

Undir lok síðasta árs hafði breskur framleiðandi sem heitir RHA samband við mig. Þeir vildu leyfa mér að prófa heyrnartól fyrir Lappari.com sem ég þáði vitanlega. Þó að ég sé nett hljóðnörd og hafi gaman af græjum almennt, þá þekkti ég ekki mikið til RHA. Þeir hafa ekki verið fáanlegir á Íslandi fyrr en IcePhone hóf endursölu á RHA í desember.

 

Hér má sjá heyrnartólin á heimasíðu IcePhone og það er ekki úr vegi að benda á að T20i eru með 20% afslætti eins og er.

 

Hér má sjá afpökkunarmynd á RHA T20i og einnig MA750 sem við munum fjalla um fljótlega

 

Hvað er RHA T20i og hvað er í kassanum?

RHA T20i eru snúrutengd heyrnartól sem fara inn í eyra notenda (in-ear), þau eru með 3,5 mm tengi og passa því í flest tæki.

 

 

Í kassanum eru heyrnartólin, glæsilegt leður´ish veski, mismunandi stærðir og gerðir af eyrnatöppum. Það eru síðan fjórir auka (samtals sex) hljóðfilterar, ásamt leiðarvísi með upplýsingum um tækið.

Það fylgja með 10 pör af misstórum eyrnatöppum og þar af tvenn sem eru úr minnissvampi (memory foam). Það ættu því allir að finna par sem passar þeim vel.

 

Hönnun og notkun

Þetta eru ekki venjuleg heyrnartól, það er greinilegt bæði á pakkningum og hvernig snúran, heyrnartólin og annað er viðkomu. Allt mjög vandað að finna og sjá, þeir allavega negldu þann partinn vel.

Fyrsta upplifun er því mjög traustvekjandi og lofar góðu.

 

 

Heyrnartólin sem eru hljóðeinangrandi (noise isolation) eru stílhrein, nýtískuleg og líta vel út, þau virðast vera sterkleg. Þó að þau séu kannski að vissu leiti nokkuð hefðbundin, þá má alveg færa rök fyrir því að útlitið sé nokkuð framúrstefnulegt eða jafnvel óhefðbundið að vissu leiti. Snúran kemur á bakvið og yfir eyrun en það er einhverskonar vír í snúrunni þar og því nokkuð einfalt að beygja snúruna og sníða þannig að hún passi vel að eyranu. Þetta gerir það að verkum að heyrnartólin sitja stöðug á eyrunum og gerðu það jafnvel þegar ég var með þau að rugla eitthvað í ræktinni.Þetta  eru samt ekki ræktarheyrnartól en vel nothæf sem slík.

Sjálf heyrnartólin eru í stáli (stainless steel) og því mjög sterkleg.

 

 

T20i eru með stýringu fyrir hljóð á snúrunni ásamt hljóðnema fyrir símtöl og einnig til að setja á pásu eða til að hefja afspilun og hækka eða lækka. Þetta er góð viðbót en staðsetningin á stjórntækjum á snúrunni er samt furðuleg. Stýringin er alltof ofarlega fyrir minn smekk og gerðu notkun erfiðari.

Það er einnig eitt nokkuð sérstakt við þau, sem ég hef ekki séð lengi á heyrnartólum en það eru þessir útskiptanlegu hljómfilterar sem fylgja með þeim, en meira um þá hér að neðan.

 

Helstu kostir

  • Kapall: 1.35m
  • Hljóðstyrkur: 90dB
  • Tíðni: 16-40.000Hz
  • Viðnám: 16 ohms
  • Þyngd: 41g
  • Tengi: 3.5mm, gull húðað

 

 

Hljómburður

Ég hef oft sagt að það sé erfitt að leggja dóm á heyrnartól eða hljómflutningstæki yfir höfuð og sú skoðun mín hefur ekkert breyst. Ég vil meina að upplifun og væntingar til hljóms séu ávallt persónuleg upplifun og mögulega er þín upplifun kannski ekki nákvæmlega sú sama og mín.

Ég hlakkaði einmit töluvert til að skrifa um hvernig RHA T20i hljóma því í upphafi ollu þau mér vonbrigðum, loksins gæti ég sleppt innri Indriða lausum. Mér fannst vera hálfgerður dolluhljómur, hljómuðu frekar flatir og afllitlir. Eftir smá yfirlestur á erlendum miðlum þá sá ég að nokkrir voru sammála þessu en sögðu að með því að tilkeyra þau aðeins þá myndi allt breytast. Þetta er svo sem ekki óþekkt í t.d. hátölurum. Ég man þegar ég keypti mér stóra Dali hátalara í stofuna. Þá var ráðlagt í leiðarvísi að vefja þá í sæng og spila á 60% styrk í 18-24 klst. Ég hafði bara ekki séð þetta með heyrnartól og átti alls ekki von á þessu með svona lítil heyrnartól sem fara inn í eyrað.

 

 

Ég prófaði því að taka þau af mér, lét þau ganga í um 30 mínútur og viti menn, hljómurinn varð allt annar. Kominn þéttur og balanceraður bassi, skýr miðja og kristaltær hátíðni (diskantur).

Ég átti í vandræðum með að bjaga hljóminn í þeim. Ég var alltaf kominn að þolmörkum mínum áður en heyrnartólin klikkuðu. RHA T20i halda góðum hljómi við háan hljómstyrk, kannski helst að hátíðnin hafi orðið óskýrari (loðin) en það er kannski aldurinn…. veit ekki.

Þetta eru mjög vel balanceruð heyrnartól og leyfist mér að segja það? Þau hljóma mun betur en Sennheiser in-ear tólin mín sem hafa engu að síður verið í uppáhaldi hjá mér síðust mánuði og ár. Ég er alæta á tónlist og í mjög stuttu máli þá olli RHA T20i mér hvergi vonbrigðum. Einstaka rapplag kafnaði í bassa en það var ekki algengt samt.

Helsti kosturinn er samt hversu mikið jafnvægi mér finnst á hljómnum úr þeim heilt yfir tónstigið. Það er mjög temmilegur en þéttur bassi með öflugri miðju og kristaltærri hátíðni (diskant) sem nutu sín einstaklega vel í lifandi tónlist.

T20i einangra umhverfishljóð ágætlega frá og heyrði ég svo til ekkert af þeim þegar ég var búinn að hækka lítillega.

 

Hljómfilterar.

 

Þessir hljómfilterar (booster´ar?) ollu mér smá hugarangri, voru þeir þarna sem afsökun fyrir eitthvað sem vantar eða bara hrein viðbót?

 

Hljómfilterinn sem er í heyrnartólunum úr pakkanum kallast einfaldlega Reference eða viðmiðun. Hann fer ágætlega með flestar tegundir af tónlist og ég notaði hann nær eingöngu. Hann hentar mér einfaldlega best og fannst mér lög hljómar “réttast” með honum. Þeir sem vilja meiri hátíðni eða ýktari bassa geta hughreyst sig við að hafa valmöguleika.

 

 

 

 

 

Niðurstaða

Eins og fyrr segir þá eru T20i á tilboði þegar þetta er skrifað og 31.990 krónur samkvæmt heimasíðu IcePhone. Það eru nokkrir valmöguleikar þegar heyrnartól á þessu verðbili sem RHA T20i kosta eru skoðuð.

Ég er núna búinn að nota heyrnartólin í um mánuð og mín skoðun er einföld. Ef þú ert að leita að hágæða heyrnartólum þá verður þú að skoða RHA T20i ef þú hefur ekki gert það enn. Ég er einfaldlega í skýjunum með T20i, gef þeim fyrstu tíuna sem ég hef gefið hér á Lappari.com og get því hiklaust mælt með þeim af heilum huga.

 

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira