Heim UmfjöllunUmfjöllun annað Plantronics BackBeat FIT

Plantronics BackBeat FIT

eftir Jón Ólafsson

Vinir okkar hjá Nýherja buðu okkur að prófa ný Bluetooth hernartól frá Plantronics. Ég er ekki viss um að allir þekki Plantronics nafnið en það er engu að síður orðið nokkuð rótgróið á markaðnum enda hafa þeir verið lengi að og yfirleitt fengið ágætis viðtökur.

Hér er hægt að sjá upplýsingar frá Plantronics um Backbeat Fit heyrnartólin sem fást hér á íslandi í vefverslun Nýherja,  listaverð hjá Nýherja er 24.900 kr. m/vsk.

 

Hér má sjá afpökkunarmynd frá okkur

 

Hvað er þetta og hvað er í kassanum?

Plantronics BackBeat Fit er sem sagt Bluetooth 3.0 heyrnartól sem spilar tónlist af öllum Bluetooth tækjum, hvort sem það eru símar, spjald- eða venjulegar tölvur ásamt því að hægt er að svara símtölum og nota þau eins og handfrjálsan búnað. Þau eru aðeins 24 gr. og hönnuð með notkun við hreyfingu í huga enda smella þau inn í eyra og eru með stuðningsspöng (Lanyard) sem fer yfir eyru og aftur fyrir haus.

Það er rafhlaða í heyrnartólunum sem er uppgefinn fyrir allt að 8 tíma endingu, heyrnartólin eru með micro USB tengi sem gerir það að verkum að einfalt er að hlaða græjuna með venjulegu símahleðslutæki eða með USB snúru tengda við tölvu eins og hægt er að gera með alla helstu farsíma í dag.

Í kassanum eru heyrnartólin, veski sem einfalt er að festa á upphandlegg, USB hleðslusnúra ásamt straumbreyti og leiðarvísi með upplýsingum um tækið og uppsetningu. Ég þurfti að nota þessar leiðbeiningar til að læra á takkana á heyrnartólunum en eftir smá æfingu voru þau einföld í notkun.

 

Hönnun

Heyrnartólin eru stílhrein, nýtískuleg og líta vel út, þau virðast vera sterkleg. Það má samt alveg segja að útlitið er nokkuð framúrstefnulegt og sérstaklega vegna litavals hjá Plantronics.

Ég er ávallt smá tíma að koma þeim fyrir í eyrunum en þegar það er komið þá tolla þau mjög vel á sínum stað og sama á við um þá sem ég bað um að prófa fyrir mig. BackBeat Fit eru úr mjúku plasti sem er svita- og vatnsvarið og því eru þau hönnuð fyrir þá sem vilja tónlist í eyrun þegar verið er að djöflast eitthvað í líkamsrækt.

 

backbeat_1

 

Heyrnartólin eru með tökkum á hvorri hlið sem gera notenda kleyft að stýra bæði tónlist og til að svara símtölum. Vinstra megin er Play/Pásu takki en einnig er hægt að tvísmella á hann til að skipta yfir á næsta lag. Efst á vinstra heyrnartóli er einnig takki til að hækka og lækka.

Á hægri heyrnartóli er takki til að stjórna símtölum (svara og skella á) og einnig er þar takki til að kveikja/slökkva á heyrnartólunum.

 

Uppsetning

Það þarf svo sem lítið að skrifa um þetta þar sem uppsetning var mjög einföld og reyndar dagleg notkun einnig. Á hægri hlið er takki til að para heyrnartólin við Bluetooth tæki en pörun er mjög einföld og tók aðeins um 10 sekúndur við fyrstu pörun og síðan um sekúndu eftir það.

 

backbeat_3

 

Eftir pörun þá má reikna með að þau dragi um 10 metra frá því tæki sem það er tengt við og það hefur innbyggt minni sem man eftir átta síðustu tækjum sem parað hefur verið við.

 

Hljómburður

Ég hef oft prófað Plantronics heyrnartól og á ég tvö eintök sjálfur, annað er frekar ódýrt (in-air) og hin er miðlugsdýr heyrnartól sem eru sérhönnuð í tölvuleiki. Ég verð því miður að segja að það hefur alltaf verið eitthvað pirrað mig við hljóminn úr Plantronics heyrnartólum. Þó svo að mér finnast þeir vera með skýra og nákvæma miðju og tweeter þá hefur bassahljómur yfirleitt verið frekar grunnur og ónákvæmur.

Ef ég miða við önnur Bluetooth heyrnartól sem ég hef prófað þá eru Plantronics Backbeat Fit samt nokkuð góð og sér í lagi ef borið er saman við önnur tól sem hönnuð eru fyrir þá sem stunda og nota þau við hreyfingu og útiveru.

 

backbeat_2

 

Bassinn er reyndar svipað grunnur og í öðrum Plantronics heyrnartólum og hljómur almennt frekar flatur. Þrátt fyrir þetta var ég nokkuð ánægður með heildarútkomu þar sem notagildi og hönnun heilluðu mig og bættu upp fyrir það sem mig fannst vanta við hljóminn.

Hljómstyrkur var ágætur og án allrar bjögunar og réðu þau ágætlega við allar gerðir tónlistar sem ég prófaði.

 

 

Niðurstaða

Flestir sem leita sér að heyrnartólum sem nota á við útiveru eða hreyfingu er líklega ekki að leita að heyrnartólum sem hafa einstakann hljómburð. Flestir eru að skoða hvort tækið sé sterklegt, létt, vatns- og svitahelt ásamt því að hafa góða rafhlöðuendingu. Þetta þarf líka að hafa í huga þegar kaflinn um hljómburð er lesinn hér að ofann.

Ég er búinn að nota heyrnartólin í um mánuð og verð að segja að ég sé í skýunum með þau og get hiklaust mælt með þeim heilshugar.

 

Það má síðan bæta við að heyrnartólin sem Lapparinn er með í prófunum tóku 10 KM hring í Reykjavíkur marathoninu og er mér sagt að þau hafi tollað mjög vel allann tímann og reynst frábærlega…. ekki hélstu að ég hafi hlaupið sjálfur?

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira