Heim Ýmislegt Haustráðstefna Advania

Haustráðstefna Advania

eftir Gestapenni
Gestur G. Gestsson framkvæmdastjóri Advania setti ráðstefnuna

Gestur G. Gestsson framkvæmdastjóri Advania setti ráðstefnuna

Lappari skellti sér á haustráðstefnu Advania föstudaginn 12. September og er ekki hægt að segja annað en þetta hafi verið ein glæsilegasta ráðstefna sem haldin hefur verið á þessu sviði á Íslandi. Ráðstefnan hófst á ávarpi Gests G. Gestssonar framkvæmdastjóra Advania þar sem hann lagði áherslu á hversu mikill munur væri á þessum tveimur kynslóðum sem starfa í þekkingariðnaðinum á íslandi í dag, eða eins og hann nefndi þær; Dallas kynslóðin annars vegar og South Park kynslóðin hins vegar.

Næstur á svið var svo Magnús Scheving, frumkvöðull og stofnandi Latabæjar, sem eins og svo oft áður byrjaði á því að ganga á höndum inn á sviðið og gera nokkrar léttar þolfimiæfingar. Magnús talaði svo einnig um þennan mun á yngra og eldra starfsfólki sem Gestur talaði um í sínu ávarpi, það sem þeir voru báðir sammála um var hversu mikill hraði einkennir yngri kynnslóðina í öllu, hlutirnir þurfa að ganga hratt og örugglega fyrir sig og hún hefur engan áhuga á að eyða öllum deginum í að svara tölvupósti, það verður að vera eitthvað að gerast annars fer þeim að leiðast og þau leita annað. Gestur talaði um margt af jákvæðu hlutunum við þetta, og reyndar Magnús líka, en Magnús ræddi líka aðeins um neikvæðu hliðarnar eins og að yngra fólkinu vantaði alla yfirsýn, það væri svo fókus að á lítinn part í einu að það sæi ekki alveg heildar myndina. Hann talaði til dæmis um að yngri kynslóðin hefði gott af því að hægja aðeins á sér og fylgjast með þeim eldri, læra að sjá heildarmyndina.
Magnús talaði líka um mikilvægi þess að fyrirtæki næðu að “eigna” sér meira en bara logo, heldur einnig form, hljóð og hreyfingar til að styrkja ímyndina í hugum neytenda og nefndi til dæmis hreyfingar og hljóð íþróttaálfsins.

Eftir þessar upphafsræður tóku svo við röð styttri fyrirlestra í þremur sölum sem fjölluðu um hin mismunandi við þekkingariðnaðarins, og báru yfirskriftirnar Öryggi og tækni, stjórnun og reynsla og loks nýsköpun.

Jim Grubb frá Cisco talaði um "internet of everything"

Jim Grubb frá Cisco talaði um “internet of everything”

Eftir hádegishlé tóku svo við tvær aðrar lykilræður annarsvegar frá Google og hinsvegar Cisco. Jesper Ritsmer Stormholt frá Google talaði fyrst og fremst um þær lausnir sem Google bíður upp á fyrir fyrirtæki til að nota í sinni starfsemi á meðan Jim Grubb frá Cisco talaði um þau aukningu sem ætti eftir að eiga sér stað í því að nettengja ótrúlegustu tæki og safna upplýsingum um allt mögulegt til að nýta í daglegu lífi, eða það sem er kallað “internet of things” eða jafnvel þegar það er tekið skrefinu lengra og talað um “internet of everything” og í því samhengi sagði hann að í dag ætti ennþá eftir að “nettengja” 99% þeirra tækja sem munu vera tengd við netið í framtíðinni.

Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri og stofnandi Plain Vanilla Games

Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri og stofnandi Plain Vanilla Games

Loka lykilræða ráðstefnunnar var frá Þorsteinni B. Friðrikssyni framkvæmdastjóra Plain Vanilla þar sem hann sagði mjög svo skemmtilega frá því hvernig það gekk að fjármagna þetta ævintýri og fleiri sögur frá ferlinu að komast á þann stað sem þeir eru á í dag. Hann talaði sérstaklega um hversu erfitt væri að fá fjármagn og hversu hræddir íslenskir fjárfestar væru við að fjárfesta í fyrirtækjum sem höfðu einhverntímann mistekist áður, annað en til dæmis í Bandaríkjunum. Þorsteinn fór líka aðeins yfir hversu hratt fyrirtækið hefur stækkað og hversu nauðsynlegt það er fyrir fyrirtæki í þessum iðnaði að geta stækkað hratt í upphafi, og kom þar aftur inn á mikilvægi þess að geta fengið fjármagn.

Það kom skemmtilega á óvart hvað snjallsíma forritið og fyrirtækið Uber virðist vera vinsælt hjá ræðuhöldurum á haustráðstefnu Advania og var nefnt í fjölmörgum ræðum og fyrirlestrum. Gestur, forstjóri Advania nefni það sem dæmi um einfalda hugmynd sem væri að gjörbylta ákveðnum iðnaði og Þorsteinn hjá Plain vanilla talaðu um hvað það myndi gera fyrir Íslenskan efnahag ef svona fyrirtæki yrði til á Íslandi.

Af styttri og sérhæfðari fyrirlestrunum sem ég sótti fannst mér standa uppúr hversu mikil áhersla var lögð á að starfsmenn, allavega þeir yngri, vilja vinna í teymi frekar en einir, og hversu mikilvægt er að þeir hafi ákveðið sjálfræði til að skipuleggja sína vinnu og vinnu teymisins. Mikið var rætt um Scrum og aðrar agile vinnuaðferðir sem og mikilvægi þess að starfsmenn hafi þau verkfæri sem henti þeim best, og þeir vilja nota, til að vinna sína vinnu.
Einnig kom fram að stór hluti starfsmanna sinna einkaerendum á vinnutíma, en stærri hluti sinnir vinnu tengdum málum í einkatíma og þar af leiðandi hversu nauðsynlegt það væri að gera starfsmönnum kleyft að nota sömu tækin bæði í vinnu og einkalífi, eins og til dæmis snjallsíma og spjaldtölvur. Samsung, Apple og Citrix kynntu öll sýnar lausnir á þessu vandamáli hafa þau öll hvert sína nálgun. Citrix sýndi sína lausn sem snýst um að keyra sérstök öpp sem hafa sínar eigin öryggislausnir og eru til fyrir öll algengustu snjalltækja stýrikerfin, Android, iOS og Windows phone. Samsung lausnin fyrir Android tæki snérist svo um að vera í rauninni með tvö tæki á sama tæki, algjörlga aðskilin umhverfi fyrir vinnu annars vegar og svo einkalífið á meðan Apple vill reyna að gera hlutina eins einfalda og þægilega fyrir notandann með því að hafa sama viðmót en bjóða upp á sérstakar stillingar fyrir hvert app, sem kerfisstjórar geta sett upp, eins og “per app VPN” stillingar.

Annar fróðlegur fyrirlestur var frá fyrirtækinu Gemalto sem framleiðir greiðslukort, vegabréf og margt fleira í þeim dúr. Þar fór Eskil Krag yfir þær framfarir sem hafa átt sér stað í snertilausum greiðslulausnum og hvað við megum eiga von á að sjá í þeim efnum á næstunni, og við munum líklegast sjá mikla aukningu á möguleikum til að greiða með snertilausum greiðslukortum og snjallsímum á Íslandi á næstum mánuðum.

Skemmtilegasti fyrirlesari ráðstefnunnar var samt að öllum öðrum ólöstuðum John O Callaghan frá EMC. Hann fjallaði um hið gríðarlega magn af gögnum sem verður til á hverjum degi og hvernig væri best að geyma þau, og var duglegur að taka fram að fyrirtækið sem hann vinnur fyrir væri að elska öll þessi gögn sem þarf að geyma. Það sem gerði fyrirlesturinn einstaklega skemmtilegan var hvað hann setti allt í afslappaðan búning og var óhræddur við að gera grín að sér, vinnu veitanda sínum eða viðskiptavinum. Hápunktur fyrirlestursins var þá klárlega í lokin þegar þessi geðþekki Írski herramaður tók sig til og söng eitt vers úr hinu margfræga Wiskey in the jar.

Öll umgjörð ráðstefnunar var hin glæsilegasta í Hörpu

Öll umgjörð ráðstefnunar var hin glæsilegasta í Hörpu

Ef það væri eitthvað sem maður ætti að nefna sem mætti bæta, þá væri það líklegast að sumir meira spennandi fyrirlestrarnir hefðu mátt vera lengri, en það er auðvitað erfitt með svona mikið úrval fyrirlestra. Einnig mætti fjölga fyrirlestrum sem höfða meira til þeirra sem starfa við hugbúnaðarþróun og rekstur eins og forritara, kerfisstjóra og fleiri. Stærstur hluti fyrirlestrana voru annað hvort sniðnir að stjórnendum eða voru hreinræktaðar vörukynningar. En heilt á litið var þetta frábær ráðstefna sem Advania stóð fyrir, kaffiveitingar og hádegismatur voru alveg til fyrirmyndar og eiga allir sem komu að því að skipuleggja og stýra ráðstefnunni hrós skilið.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira