Heim ÝmislegtGoogle Tapar Google á Motorola sölunni?

Tapar Google á Motorola sölunni?

eftir Jón Ólafsson

Uppfærsla neðst

 

Þeir sem fylgjast eitthvað með tæknifréttum vita nú þegar að Google hefur selt farsímaframleiðandan Motorola til Lenovo fyrir 2.91 milljarða dollara eftir að hafa átt og rekið félagið í tæplega 3 ár.

Það voru margir sem reiknuðu með því að Google myndi taka þennan rótgróna ameríska símaframleiðanda og hefja þá upp úr þeim vandræðum sem þeir voru komnir í en annað kom á daginn. Aðrir héldu því fram að Nexus framleiðslu yrði jafnvel hætt eða færð undir merki Motorola meðan enn aðrir héldu því fram að þessi kaup væru bara til að eignast einkaleyfi Motorola þó svo að Google hafi neitað því.

Hver svo sem ástæðan var þá hefur leitarvélarrisinn nú losað sig við félagið eftir að hafa tapað milljörðum dollara á því….. eða hvað?

 

motorolalenovo

 

Google keypti fyrirtækið á 12.5 milljarða dollara og hefur til viðbótar þurft að dæla fjármagni inn í félagið vegna tapreksturs. Fyrirtækið hefur einnig farið vel yfir reksturinn og skorið niður í framleiðslu og söluskrifstofum en haldið eða aukið við þróunarlið, sem sagt eytt tíma og peningum í innra skipulag og þróun á nýjum tækjum til þess að snúa rekstri til hins betra.
Auglýsingarisinn hefur ítrekað tilkynnt um væntan taprekstur og um meiri innspýtingu af fjármagni og er talið að heildarfjárfesting Goggle vegna Motorola sé komið vel yfir 13 milljarða dollara.

Ný símtæki eins og Moto X og Moto G hafa þrátt fyrir töluverða sérstöðu og miklar auglýsingar valdið sárum vonbrigðum enda viðtökur verið frekar dræmar.

Google eru samt þekktir fyrir góðar fjárfestingar (að mestu leiti) en fljótt á litið má segja að tölvupóstrisinn hafi klúðrað þessu hressilega og tapað töluverðum fjárhæðum. Motorola var keypt eins og fyrr segir á 12.5 milljarða dollara (rúmlega 13) og þó svo að Google hafi selt Motorola Home til Arris Group fyrir 2.35 milljarða dollara og núna fyrirtækið sjálft til Lenovo, má þá segja að Google hafi tapað rúmlega 8 milljörðum dollurum?

Málið er ekki alveg svo einfalt þar sem Google heldur eftir um 24.000 einkaleyfum sem þeir nota til að styrkja við Android stýrikerfið og þá framleiðendur sem nota það. Þessu ætlun auglýsingarisans er ekkert leyndarmál og hafa menn vitað þetta frá upphafi en sumir velta fyrir sér hvort Google hafi ofmetið virði þessara einkaleyfa.

Eru einkaleyfin sem Google eignaðist við kaupin á Motorola í raun og veru 8 milljarða dollara virði? Þetta er spurning sem er líklega of snemmt að svara núna en það eru þó komin nokkur dæmi sem benda til þess að svo sé ekki og ætla ég að nefna tvö dæmi sem ollu Motorola/Google miklum vonbrigðum.

 

iPhone

Með kaupunum á Motorola eignaðist Google nú einkaleyfi sem taka meðal annars á hluta af GSM staðlinum og með þessum einkaleyfi reyndu Google með lögsókn að láta dómara banna sölu á iPhone í Bandaríkjunum. Þessu máli var vísað frá dómi og auglýsingarisin þurfti að undirgangast rannsókn og síðan samkomulega við bandaríska FTC um að þeir myndu ekki nota þessi einkaleyfi til að þess að láta banna sölu á öðru tæki aftur.
Leitarvélarrisinn mætti vitanlega sækja réttar síns og biðja um hóflegar greiðslur vegna notkunar en ekki leita eftir samskonar sölubanni aftur. Hægt er að lesa meira um þetta mál og skoða dómsgögn hér.

 

XBox og Windows 7

Google reyndi líka að koma höggi á Microsoft með hluta af einkaleyfunum og mistókst það hrapalega. Microsoft notar 802.11 WiFi staðalinn og H.264 video staðalinn í Windows 7 og XBox 360 leikjatölvunum sínum og höfðaði Motorola (lesist Google) mál á hendur Microsoft vegna þessa.

Fór auglýsingarisinn í nafni Motorola fram á 4 milljarða dollara á ári meðan Microsoft bauð rúmlega 1.2 milljónir dollara og því töluvert sem bar á milli fyrirtækjanna. Að lokum dæmdi dómarinn Microsoft til að greiða tæplega 1.8 milljón dollara á ári en þessi mynd sýnir ágætlega muninn á þessum kröfum og síðan hvað Motorola fékk að lokum.

 

Mynd: TheVerge

 

Hver er niðurstaðan

Ég er vitanlega engin sérfræðingur í einkaleyfum og þetta á líklega eftir að skýrast betur næstu árin en getur verið að Google hafi ofmetið einkaleyfasafn Motorola svo herfilega í upphafi? Þeir gerðu það sannarlega í tilfelli Apple og einnig áttu þeir von á að verðmæti einkaleyfa í Microsoft málinu væri meira, en það var ofmat uppá litla 3.9 milljarða dollara.

Það er líklega allt of snemmt að spá til um hvernig eða hvort Google getur notað þessi einkaleyfi í framtíðinni. Þau bæta allavega stöðu fyrirtækisins og ver Android stýrikerfið og framleiðendur Android síma mun betur en án þeirra.

 

Uppfærsla:  Virðist vera sem kostnaðartölur í þessum pistli séu varlega áætlaðar því samkvæmt The Next Web var bullandi taprekstur á Motorola allan tíman og tap Google því meira en talið var í fyrstu. Tap félagsins 2012 var 1.1 milljarður dollara fyrir rúmlega hálft ár meðan heildartap fyrir árið 2013 var rúmlega 1.2 milljaður dollara. Þeir leiða einnig líkur af því að eitthvað af neikvæðum tölum eigi eftir að læðast inn í uppgjör fyrir 2014.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira