Google Home Max

eftir Jón Ólafsson

Kæru vinir, við kynnum stolti umfjöllun frá Elmari Torfasyni sem hér fjallar um Google Home Max.

——————–

 

Það er sennilega ekki oft sem umfjöllun er skrifuð um rúmlega ársgamla græju, en samt er það svo að þegar þessi orð eru skrifuð er rúmlega ár síðan tækið sem ég var beðinn um að fjalla um var upphaflega kynnt og tíu mánuðir síðan tækið fór í sölu. Tækið sem um ræðir heitir Google Home Max og er snjallhátalari frá búnaðardeild Google og sá stærsti sem sú deild hefur framleitt og sett í almenna sölu.

Kynningarmyndband frá Google

 

Eins og litlu bræður hans tveir, Google Home og Google Home mini kemur Max vopnaður Google Assistant, og öllum þeim gáfum sem Google getur fyllt hann af. Það sem aðgreinir hátalarann frá hinum hátölurum Google er fyrst og frest hljómurinn, Max er ekki ætlað að keppa við Amazon echo eða sambærilega hátalara, Sonos 5 er sennilega sá hátalari sem Max líkist mest. Það er ólíklegt að hann uppfylli kröfur alvöru Audio Philes, en fyrir sófasérfræðing á borð við undirritaðann þá er hann frábær.

 

Hátalarinn vigtar rúm 5kg, rúmlega tvöfalt þyngri en Apple Homepod, inní honum eru 2stk 4,5” keilur og 2 0,7” tvíterar ásamt 6 D-klassa mögnurum. Að auki eru 6 langdrægir míkrafónar (sem hægt er að slökkva á með rofa) til að grípa raddskipanir. USB-C tengi fyrir USB-C/Eth breytu ef eigandinn vill nota vírað net fyrir hátalarann og 3,5mm tengi t.d. fyrir plötuspilara eða annarskonar uppsprettu hljóðs. Allt þetta lokað í húsi úr hertu plasti. Max hefur vissulega ekki sömu nærveru og öflugir hátalarar úr fallegum við, en hann er nógu tilkomumikill til að standa einn og sér á hillu án þess að eigandinn þurfi að skammast sín. Fyrir utan míkrafón rofann eru engir eiginlegir rofar á hátalaranum, en ofan á hátalarnum, eða hægramegin á honum ef hann stendur uppá endann, er rönd með snertiskynjun þar sem hægt er að hækka og lækka, með því að renna fingrinum til vinstri (upp) eða til hægri (niður). Einfalt tapp pásar afspilun.

 

Uppsetning hátalarans er einföld, aðeins þarf að finna honum stað í herbergi og stinga honum í samband við rafmagn. Allar stillingar á hátalaranum, hvort sem um er að ræða frumuppsetningu eða fínstillingu eftir á, eru framkvæmdar í gegnum app sem heitir Google Home, það er til bæði fyrir Android og iOS. Í frumupppsetningu er hátalarinn settur á WiFi, hann skírður og staðsettur í íbúð. Eins er gefinn kostur á sjálfgefnum tónlistarveitum. Raddstýring Google Home styður margar veitur, en það má nefna að Google Play Music, YouTube music og Spotify (premium og ókeypis ákriftarleiðir) eru þær sem ég hef prófað og virka mjög vel, ef manni finnst ekki óþægilegt að tala ensku við tækið sitt. (Hey Google, play my discover weekly, er tildæmis eitthvað sem er mjög þægilegt). Öll öpp með Chromecast stuðningi geta castað á Max, en þá er t.d. ekki hægt að nota RÚV appið til að hlusta á útvarp í línulegri dagskrá. Flestir þættir RÚV eru aðgengilegir sem hlaðvarp, því get ég til að mynda hlustað á Í ljósi sögunnar á Rás1 í hátalarnum með því að láta hlaðvarps appið mitt sækja þáttinn eftir á. Af því að Chromecast virkar aðeins öðruvísi en t.d. AirPlay frá Apple, þá þarf að gera ráð fyrir aðeins annarskonar hegðun, Þegar AirPlay setur símann eða spjaldtölvuna sem einn hlekk í afspiluninni, virkar Chromecast þannig að síminn sendir hátalarnum hlekk á streymið sem hátalarinn sér síðan um að sækja og streyma, þá er tildæmis hægt að setja playlista í gang á hátalaranum og fara útí búð með símann í vasanum án þess að hafa áhrif á streymið. Þetta veldur því að stundum getur tekið smá tíma til að koma símanum aftur í það að hafa áhrif á afspilun, þetta er ekki betra eða verra, aðeins öðruvísi og þarf að venjast því sé fólk að koma úr iOS umhverfi.

 

Þegar kemur að hljómi, þá virkar hátalarinn mjög flatur fyrst þegar byrjað er að hlusta á tónlist í honum, en eftir nokkrar sekúndur er hann búinn að stilla sig af, og fer að fylla vel uppí það rými sem hann er staðsettur í. Þetta er algerlega sjálfvirkt ferli, ekki ósvipað því sem Apple Home pod og Sonos gera. Hljómurinn er mjúkur og þægilegur, og í Home appinu er hægt að hafa aðeins áhrif á bassa eða diskant, en það er mjög takmarkað, það er of mikið að segja að notandinn hafi aðgang að eiginlegri tónjöfnun, meira í þá áttina að það sé hægt að auka eða draga úr bassa og diskant. Hljómurinn hentar vel fyrir bæði fyrir tónlist og talað mál. Hvað hljóðstyrk varðar er Max fyllilega nóg til að fylla meðalstóra stofu en fyrir stórann sal þyrfti að fjölga hátölurunum. Fjölherbergjaspilun (multi room audio) stuðningur er aðgengilegur í Home appinu og mjög einfalt að setja upp og nota, án þess að verða var við einhverja seinkun á hljóði.

Það sem er gott við hátalarann er hljómur og hljóðstyrkur, útlit og hversu notendavænn hann er, það skiptir ekki máli hvaða síma notandinn er með, hann getur alltaf sett hann upp, komið honum á netið og gert hann að cast viðtæki á heimilinu. Að sama skapi er það mikill kostur að hvaða streymisþjónusta sem er getur verið sjálfgefin. Góð fjölherbergjaspilun.

Ókostir eru fyrst og fremst verð, en sé hátalarinn keyptur nýr í bandaríkjnum og sendur til íslands kostar hann um 65.000.- hingað kominn með flutningi, tollum og þessháttar.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira