Xiaomi Mi Mix 2

eftir Jón Ólafsson

Undir lok mars mánaðar fengum við hér á Lappari.com lánaðan Xiaomi Mi Mix 2 snjallsíma frá MI Iceland. Ég hlakkaði nokkuð mikið til að fá að prófa í fyrsta skipti Xiaomi síma en þó að þetta merki sé gríðarstórt á heimsvísu þá er það að miklu leiti óþekkt á Íslandi eftir því sem ég best veit.

Mér fannst spes að vera boðið að prófa Mix 2 núna þar sem Mix 2s var við það að koma í sölu þegar ég fékk tækið. Þetta rann hratt af mér þegar ég skoðaði tækið því Mix 2 er vel búinn vélbúnaði og það eru ekki margir mánuðir síðan þetta tæki kom í sölu eða september 2017.

 

 

Við höfum því verið með tækið að láni í tæplega 2 mánuði og því komin góð reynsla á það og því löngu komin tími á að henda saman umfjöllun um tækið.

 

Hér má sjá afpökkun á tækinu.

Hönnun og vélbúnaður

Eftir að hafa handleikið Xiaomi Mi Mix2 í stutta stund þá varð ég strax mjög hrifinn af tækinu, þetta er stórglæsilegt símtæki. Ég fékk strax á tilfinninguna að í höndunum hefði ég vandaðan og vel smíðaðan síma. Eina sem ég setti spurningamerki strax í upphafi var bakhliðin sem er þakin gleri (ceramic) ásamt því að það fylgdi með hörð hlíf fyrir símann. Er það mögulega því þeir vita að hann er viðkvæmur?

 

 

Það samt þarf ekkert að vera, þó svo að þetta sé segull á fingraför þá gefur þetta símanum vandað yfirbragð. Bakhlið er rispuvarin en ég mundi veðja á að þetta brotni ef síminn fellur í gólfið án þess að vera í hlíf.

Xiaomi Mi Mix 2 er samsettur utan um álramma (eitt heilt stykki) sem gerir símtækið mun sterkara og massífara þegar það er handleikið. Álramminn þekur hliðar símans og hjálpar til við að gefa þá tilfinningu að notandinn haldi á sterku og vönduðu tæki. Hliðarnar eru allar rúnaðar sem hjálpa til við að láta hann falla vel og eðlilega í hendi.

Framhliðin er eiginlega bara einn stór skjár, fyrir utan hátalara og sjálfumyndavél og síðan neðst þar sem hljóðneminn er. Allur frágangur á framhlið er til fyrirmyndar og greinilega vandað vel til verka. Skjárin nær svo til alveg út að brún (borderless´ish)

 

 

Mi Mix2 er með tvo takka á hægri hlið, hækka/lækka takka ásamt power takka. Á bakhlið undir myndavél er hraðvirkur og góður fingrafaraskanni til að aflæsa símtækinu. Staðsetning takka og fingrafaraskanna er góð og einfalt að ná til þeirra með annarri hendi.
Helstu stærðir í mm.

  • Hæð: 151,8
  • Breidd: 75,5
  • þykkt: 7.7
  • Þyngd: 185 gr

Þó svo að Xiaomi Mi Mix2 sé verðlagður eins og miðlungssími þá er hann eins og fyrr segir vel búinn vélbúnaði. Síminn skartar Snapdragon 835 kubbasettinu og keyrir á tveimur fjórkjarna örgjörvum. Annar keyrir á 4×2.55 GHz og hinn á 4×1.9 GHz, skjástýringin heitir Adreno 540. Símtækið ætti því að ráða léttilega við flest allt sem notendur vilja keyra á símanum. Síminn er með 64 GB af geymsluplássi sem er á mörkum þess að vera nóg fyrir kröfuharða notendur.

Þessi öflugi örgjörvi, góð skjástýring og 6 GB af vinnsluminni skila sér í viðbragðsgóðu viðmóti og hef ég aldrei orðið var við eitthvað hökt í símann, hvort sem er í stýrikerfinu sjálfu, forritum eða í leikjum sem ég prófaði.

 

Tengimöguleikar

Neðst á Xiaomi Mi Mix 2 er USB-C tengi og á vinstri hlið er hólf fyrir 2 nano SIM kort og hann styður ekki microSD kort. Ég tengdi símtækið við tölvuna (Windows 10) til að sækja ljósmyndir sem ég hafði tekið og var það nokkuð einfalt. Síminn kom fram í My Computer og myndirnar þar inni í möppu sem heitir „innri geymsla\DCIM\“.

 

 

Það er ekki hefðbundin 3.5 mm heyrnartólstengi en það fylgir með USB-C í 3.5mm skott til að tengja í heyrnartólin í.
Xiaomi Mi Mix 2 er með Bluetooth 5.0 (A2DP, LE) og með þráðlausu neti eins og við er að búast sem styður 802.11 a/ac/b/g/n og þar með allar helstu dulkóðanir sem skipta máli eins og er. Mi Mix 2 er einnig með NFC kubb sem býður meðal annars upp á borganir, samnýtingu gagna, og notkun NFC merkja. Eins og við má búast styður símtækið 4G að fullu og var mjög sprækt á 4G neti Símans meðan ég prófaði það.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlöðuending hefur verið ágæt í þeim prófunum sem ég gerði en hún er 4300 mAH. Ég fór léttilega í gegnum fullan vinnudag á einni hleðslu og þar sem tækið styður hraðhleðslu þá er hægt að hlaða úr 0% í 85% á klukkutíma.

Endurance test af GSMarena.com

Stýrikerfið og lyklaborð er hægt að stilla á íslensku í Android sem er kærkomið og ætti að einfalda og létta mörgum lífið. Íslensk þýðing á kerfinu er nokkuð góð og tiltölulega einfalt að rata um kerfið. Lyklaborðið í Mi Mix 2 er gott og þægilegt er að nota það til innsláttar.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Xiaomi Mi Mix2 er 5.99″ IPS LCD skjár sem styður 2160×1080 upplausn eða 403ppi (pixel per inch). Skjárinn lítur ágætlega út á blaði (speccalega) og kom hann vel út á prófunum hjá mér. Öll snertivirkni í skjánum er mjög góð en eins og við er að búast þá er erfitt er að nota símann með blauta fingur eða í vettlingum.

 

Myndavél

Xiaomi Mi Mix 2 er með 12MP (f2.0, 1.25µm) aðalmyndavél og tekur upp myndbönd í 4K upplausn (2160p@30fps, 1080p@30fps, 720p@120fps). Hafa ber í huga að ef tekin eru upp 4K myndbönd þá tekur hver mín um 400MB af geymsluminni símans.

Myndavélin er með 1/2.9″ myndflögu frá Sonu (IMX368) og virðist vera með ágætri linsu þannig að áhugaljósmyndarar ættu ekki að verða sviknir af myndum sem símtækið tekur á sjálfvirkum stillingum.
Xiaomi Mi Mix 2 er einnig með ágæta 5MP f/2.0 myndavél á framhlið sem hentar ágætlega t.d. í sjálfur, Snapchat eða myndsímtöl eins og Skype eða Hangout. Hún getur tekið 1080p myndbönd.

 

 

Myndavélaappið er nokkuð gott og eins og fyrr segir er hægt að fara í handvirkar stillingar og leika sér þar, sjálfvirkar stillingar sem koma á tækinu ættu samt að duga flestum.

Það er í raun og veru bara tvennt sem ég tók eftir við notkun á myndavélinni og það er að myndirnar voru stundum yfirsamplaðar (of unnar), sem veldur því að myndir virðist oft á tíðum vera “of mjúkar” og á stundum smá ýktar. Einnig þá er vélin frekar slöpp þegar kemur að myndatöku í illa upplýstu rými.

Hátalarar

Hátalarar eru tveir og er annar neðst á símtækinu og er hinn þar sem heyrnarhátalari er (earpiece), Þeir skila þokkalegum hljómi, raddir hljóma skýrt og sæmilega hátt en það er því miður alger vöntun á lágtónum í samanburði við t.d. iPhone 8.

Síminn er með stafrænni útilokun á umhverfishljóðum með sér hljóðnema sem ætti að virka vel í íslenska logninu.

 

Margmiðlun og leikir

Margmiðlunarupplifun á Xiaomi Mi Mix 2 er mjög góð eins og við er að búast miðað við vélbúnað og ræður hann við að spila og gera “allt” það sem ég ætlaði honum. Hvort sem það var leikur sem ég sótti af Google Play, bíómynd af innra-minni, Youtube video eða aðra vefstrauma.

 

 

Með innbyggðum tónlistarspilara ásamt þjónustu eins og Spotify áskrift eða Google Music þá ertu kominn með öfluga tónlistarkosti. Einfalt er einnig að bæta við tónlist eða bíómyndum beint af tölvu og ætti Mi Mix 2 að ráða við allt sem þú gætir viljað nota hann í þótt hann sé þjáður af plássleysi og vöntun á rauf fyrir SD kort.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Xiaomi Mi Mix 2 kemur með Android 7.1 Nougat en hægt er að uppfæra hann í 8.0 Oreo sem er nýjasta útgáfun af Android. Eins og með flesta framleiðendur þá bætir Xiaomi ofan á sérstöku viðmóti sem þeir hanna en það var samt ekki mikið að þvælast fyrir okkur. Þetta viðmót er einfalt og hægir ekkert sjáanlega á símtækinu. Kerfið er viðbragðsgott og ekki of mikið af krúsídúllum.

Þar sem þetta er Android sími þá fylgir Google svítan einnig með ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka o.s.frv. og það sem mögulega vantar á að vera fáanlegt í Google Store sem er forritamarkaður Google.

 

Niðurstaða

Xiaomi Mi Mix 2 er mjög gott alhliða símtæki sem ætti að gleðja flesta. Þetta er fallegt símtæki, öflugra og betra en margir Android símar sem ég hef prófað, sérstaklega þegar horft er á verðið.

Þó að ég setji út á nokkur atriði í umfjöllun þessari þá er ég mjög ánægður með Xiaomi Mi Mix 2 og er þetta með betri Android tækjum á markaðnum fyrir þennan pening.

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira