Heim ÝmislegtAndroid Hvað var Nokia að kynna á MWC 2018?

Hvað var Nokia að kynna á MWC 2018?

eftir Magnús Viðar Skúlason

HMD, sem hefur undanfarið árið framleitt og dreift Nokia-símum á heimsvísu, vakti talverða athygli á Mobile World Congress 2018 í Barcelona. Hvorki fleiri né færri en fjórir nýir símar voru kynntir og frekari uppfærslur á á núverandi símtækjum boðaðar.

Við hjá Lappari.com fengum smá forskot á sæluna fyrir stuttu þegar við fengum kynningu á þessum nýju símum. Á heildina litið þá er ljóst að Nokia-símarnir frá HMD eru að halda áfram á þeirri sigurbraut þar sem frá var horfið með þau eintök sem kynnt voru árið 2017.

Nokia 8110

Það vakti mikla athygli þegar hin endurbætta útgáfa af Nokia 8110 var kynnt til sögunnar nú fyrir örfáum dögum síðan. Hver man ekki eftir hinum goðsagnakennda Nokia 8110, betur þekktur sem bananasíminn sem var mál málanna á GSM-markaðnum árið 1998. Sá sími var síðan gerður ódauðlegur í kvikmyndinni The Matrix enda var sérstök útgáfa af Nokia 8110 notuð í þeirri mynd.

HMD fylgir því sömu stefnu og mörkuð var í fyrra með endurútgáfu Nokia 3310 sem hefur vægast sagt slegið í gegn hérlendis og mun Nokia 8110 koma í samskonar útliti og hinn upprunalegi Nokia 8110 en með talsvert endurbættri virkni. Nokia 8110 er með 4G-stuðning og einfaldri virkni fyrir einfalda notkun. Hægt er þó að fara inn á Facebook og nota símann fyrir margskonar virkni sem notendur leita eftir á hverjum degi. Áhugasamir geta glaðst yfir því að það er innbyggt FM-útvarp í Nokia 8110 en einnig minniskortastuðningur þannig að hægt er að hlaða símann með tónlist eða taka ógrynni af myndum með honum.

Nokia 6 2018

HMD virðist ætla að halda sig við föst númer á þeim símtækjum sem þeir eru með í framleiðslu en koma með nýjar árgerðir, líkt og þekkist í bílaiðnaðinum. Því er ekki úr vegi að skoða aðeins betur uppfærsluna á einum besta síma ársins 2017; Nokia 6 árgerð 2018.

Segja má að það sem upp á vantaði með 2017-árgerðina sé komið í lag með 2018-árgerðinni. Nokia 6 er áfram með 5,5 tommu skjá en er kominn með betrumbætta myndavél, fingrafaraskanna á bakhlið símans og allir takkar að framanverðu eru nú soft-takkar á skjánum sjálfum. Hægt er því að nýta plássið á símanum sjálfum betur undir skjáinn og minnka hann aðeins. Vinnsluminnið er áfram 3GB og segir sagan að 4GB útgáfa verði fáanleg að auki með allt að 64GB í innbyggt geymsluminni. Áfram er hægt að setja minniskort í símann og sem fyrr er áfram FM-útvarp í símanum. Stærsti munurinn felst þó í örgjörvanum sem er Snapdragon 630.

Nokia 7

Ef til vill er Nokia 7 sem einnig var kynntur úti í Barcelona sá sími sem hefur vakið hvað mesta athygli. Segja má að þarna sé HMD að fylla upp í ákveðið gap sem myndaðist milli Nokia 6 og Nokia 8 í fyrra hvað varðar verðpunktinn á símunum en líklegt þykir að Nokia 7 verði á verði sem hefði passað þar á milli. Ekki síst mun Nokia 7 eflaust verða vinsæll út á þá staðreynd hvað síminn er hlaðinn öflugum vélbúnaði miðað við áætlað verð. Nokia 7 er með 6 tommu skjá sem er í 18:9 hlutfalli og skilar 2190 x 1080 díla upplausn. Vinnsluminnið er 4GB og 64GB eru í geymsluminni ásamt því að styðja allt að 256GB minniskort. Myndavélin er með tvískipta linsu sem skilar 12 megapixlum ásamt því að frammyndavélin er heilir 16 megapixlar ásamt því að styðja við Nokia OZO-hljóðstaðalinn. Örgjörvinn er áttkjarna Snapdragon 660-örgjörvi og þá er innbyggt FM-útvarp í Nokia 7.

Nokia 8 Sirocco

Síðast en ekki síst er það Nokia 8 Sirocco. Þetta mun vera sá sími sem kallaður var Nokia 9 í nokkrum lekum sem áttu sér stað á síðasta ári. Nokia 8 Sirocco á þó lítið sammerkt með Nokia 8 þegar það kemur að útlitinu enda er nokia 8 Sirocco einstaklega glæsilegur sími sem fer vel í hönd. Þetta er fyrsti Nokia-síminn sem er með kúptum skjá á hliðunum og er með IP67-vottun þannig að Nokia 8 Sirocco ætti að henta vel fyrir íslenskar aðstæður. Vinnsluminnið er 6GB og geymsluminnið er 128GB en ekki er í boði að setja minniskort í símann.Örgjörvinn er Snapdragon 835-örgjörvi og myndavélin er 12 megapixlar með tvískiptri linsu. Skjárinn er 5,5 tommur að stærð og er að skila af sér 1440 x 2560 dílum.

Allir þessir símar verða fáanlegir núna með vorinu hérlendis og munu Nokia 8 Sirocco, Nokia 7 og Nokia 6 2018 keyra á Android 8.0 strax uppúr kassanum.

Einnig eru þessir þrír símar, ásamt Nokia 8, það sem Google kallar ‘Android Enterprise Recommended’-símar en þeir uppfylla skilyrði sem Google setur fyrir Android-síma sem styðja nýjan Enterprise-staðal frá Google sem kynntur var til sögunnar með Android 8.0.

Það er því ljóst að Nokia-símarnir sem HMD framleiðir munu áfram vera í fararbroddi hvað varðar vélbúnaðar- og hugbúnaðarstuðning. Áfram má búast við því að Nokia-símarnir muni keppa áfram á verðum og því má búast við því að þessir nýju símar muni verða á hagstæðu verði. Einnig munu með vorinu verða kynntar endurbættar útgáfur af Nokia 3 og Nokia 5.

Lappari.com mun fylgjast betur með þróun mála á framboði Nokia á næstunni og hefur verið gefið í skyn að bráðlega verði í boði Nokia-símar með merkingum frá 1 upp í 10. Ekki hefur þó fengist staðfesting á því hvaða tæki munu verða í boði hérlendis og hverskonar tæki muni verða kynnt til sögunnar til að fylla upp í þau númer sem upp á vantar.

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira