Asus ROG GR6

eftir Gunnar Ingi Ómarsson

Við hérna á Lappari.com erum búnir að vera með Asus ROG GR6 leikjavél frá félögum okkar í Tölvulistanum í mjög extensive prófunum, þetta lesist við erum líklegast búnir að leika okkur aðeins of mikið, og núna er komið að því að við förum aðeins yfir okkar upplifun og komum einhverju á blað. Við vorum búnir að skrifa örlítið um vélina í fyrstu kynni pistli sem er hægt að lesa hérna.

 

Það þekkja margir vörumerkið Asus ROG eða Asus – Republic of Garmers en þetta er í sérdeild innan Asus sem einbeitir sér að vélbúnaði sem er sérhannaður eða sérvalinn í leikjavélar. En fyrir þá sem nenna ekki að lesa sér til um hana þá skulum við byrja á grunnatriðum vélarinnar..

 

Vélbúnaður

Miðað við stærð þá er þessi vél skemmtilega búin af vélbúnaði. Búnaðurinn er sérstaklega valinn og hannaður til að hún sé hljóðlát, öflug og nái að vera smá í sniðum. Með því að taka hlið vélarinnar af þá er auðvelt að bæta við auka 2.5″ disk og þannig auka geymslugetu eða til þess að bæta við vinnsluminni. Þetta er frábær vél til að taka með á LAN-ið, hún er létt, meðfærileg og sterkbyggð að sjá og finna.

 

asus_gr6_1

 

Hérna er fullur listi vélbúnaðar.

 • Örgjörvi : Intel Core i5-5200U – Quad core með 6MB flýtiminni
 • Minni : 4GB (1x4GB) DDR3L 1600MHz 204pin – stækkanlegt í 16GB
 • Harðdiskur – 128GB SSD ofurhraður Solid State diskur
 • Skjákort – 2GB GDDR5 nVidia GeForce GTX 960M skjákort
 • Hljóðkort – ROG SupremeFX Audio, HD 5.1 Channel Audtio
 • Netkort – Gigabit 10/100/1000 netkort
 • Þráðlaust – þráðlaust netkort 802.11ac

 

Hönnun og útlit

Asus ROG GR6 er mjög skemmtilega hönnuð vél og það kom okkur skemmtilega á óvart hversu nett þessi vél sannarlega er. Það er alltaf hægt að lesa stærðir á blaði, fikta með tommustokkinn til að átta sig á stærðum en besta leiðin til að átta sig á þessu er alltaf að fá að sjá þetta sjálfur og jafnvel handleika þessi tæki.  Við erum nokkuð heillaðir af vélinni en hún er skemmtilega hönnuð, ótrúlega þunn, létt og meðfærileg en hér má sjá afpökkunarmyndband okkar.

 

Hérna eru helstu stærðir:

 • Hæð : 23.6 cm
 • Breidd : 24.4 cm
 • Þykkt : 5.8 cm
 • Þyngd : 1.284 gr

 

Litavalið á vélinni er samkvæmt Asus staðlinum, eða þessi standard svarti og rauði litur, og fellur vélin vel í ROG (Republic of Gaming) seríuna. Líkt og er á leikjavélum á borð við Playstation og XBox þá er ekki innbyggður aflgjafi heldur er bara straumbreytir sem fylgir vélinni, sambærilegur og á fartölvum.

Framan á vélinni eru tveir takkar, power takki til að ræsa vélina og svo er Steam takki sem hægt er að nota til að ræsa Steam Big Picture Mode sem þá setur vélina í einskonar viðmót sem er keimlíkt öðrum console leikjavélum á borð við XBox og Playstation. Framan á vél eru einnig tvö hljóðtengi, annað fyrir heyrnatól og hitt fyrir hljóðnema, ásamt 2 USB2.0 tengjum.

Tengi aftan á vélinni eru nokkuð snyrtilega sett upp. Efst aftan á vélinni er stöðuljós fyrir harða diskinn. Þvínæst koma 4x hljóðtengi eða 1x fyrir hljóðnema, 1x line in, 1x output og 1x optical out. Þar fyrir neðan eru svo tengi fyrir skjái, en þetta eru HDMI og DisplayPort. Næst er svo RJ45 nettengi, eða það sem við köllum í daglegu tali bara nettengi. 4x USB 3.0 tengi eru þá næst í röðinni og fyrir neðan þau eru þá bara eftir 19V straumtengi og takki til að læsa hliðinni en einmitt í hann er líka hægt að setja Kensington lás.

asus

Eitt mjög stórt atriði í hönnunn á vélinni er kælingin. Vélin er semsagt með sérhannaðari kælingu sem blæs heita loftinu uppúr vélinni, sem er lógískt þar sem heitt loft leitar upp. Kælingin er það öflug að það er ekki nema 8db munur í hávaða frá kælingunni eftir því hvort hún er í engri vinnslu eða fullri vinnslu. Við erum því miður ekki með neina db mæla til að mæla hljóðið en við urðum þó varir við að það er ótrúlega lítill munur á hljóði frá kælingunni þegar vélinn fer að erfiða miðað við þegar hún er bara í rólegheitum. Þessi kostur er eitthvað sem á eftir að vera stór sölupunktur og laða margan smámunasaman leikjaspilarann að. Við erum líka örlítið spenntir fyrir því að sjá hvort þetta bitni á endingartíma vélarinnar þegar viftur fara að safna ryki og ná þ.a.l. ekki sömu kælingargetu við sama snúning.

 

Hugbúnaður

Vélin kom úr kassanum með Windows 8.1, hrúgu af Asus hugbúnaði sem snýr að bestun á leikjaspilun, skýjageymslu, Steam og fleiru. Það fyrsta sem við gerðum var náttúrulega að uppfæra í Windows 10 Home til að ganga úr skugga um að allt virkaði eðlilega með nýjasta stýrikerfinu frá Microsoft. Það tók smástund að sækja uppfærslupakkann frá Microsoft en þegar hann var kominn þá var þetta bara þessi standard uppfærsla og að henni lokinni sáum við að það virkaði allt eðlilega.

 

asus_gr6_3

 

Þar sem vélin kemur með Steam uppsettu þá þurfti bara að skrá sig inn og velja leikina sem við vildum setja upp á vélinni. Við vorum þó ekki mikið að stússast í þessum hugbúnaði og það litla sem við prófuðum var leikjabestun á netkorti sem breytti svosem ekki miklu fyrir okkur, enda vorum við lítið annað að gera á vélinni en að spila leiki og því kannski ekki önnur traffík að trufla.

 

Leikjaupplifun

Við veltum dálítið fyrir okkur hvernig við gætum best prófað leikjaupplifunina og við ákváðum að það þýddi náttúrulega ekkert annað en að prófa besta leik ársins 2015, Witcher 3 : Wild Hunt. Við tengdum vélina við 50″ Samsung 3D LED tæki og spiluðum í 1920 x 1080 upplausn og byrjuðum bara rólega með allt í low. Spilunin var mjög smooth og upplifun góð nema hvað í low stillingum eru gæðin náttúrulega ekkert til að hrópa húrra yfir en það var alveg hægt að spila leikinn svona.

asus_gr6_2Við ákváðum því að vera kjánar og slengja leiknum bara beint í hæstu stillingar en það reyndist ekki mjög vel. Leikurinn varð allur mun hægari og var mun lengur að taka við sér eftir breytinguna miðað við það sem við vorum að gera á stýripinnanum, en kom samt á óvart að leikurinn var ekki að sleppa mikið af römmum.

Næst prófuðum við að prófa leikinn í medium stillingum og var það strax allt annað. Leikurinn var aðeins hægari en maður hefði viljað en hann var samt vel spilanlegur og þegar við tókum og lækkuðum gæðin á hárinu á Geralt þá vorum við komnir með flottann balans. Gæðin eru dálítið frá því að vera á pari við XBox eða Playstation upplifun á sama leik en við bjuggumst svosem ekki við því að það tækist.

Við ákváðum þvínæst að prófa eitthvað léttara sem væri kannski meira svona LAN stemmari yfir og trendið í dag er rosamikið að spila MineCraft og við vorum allan daginn að fara hella okkur í hann líka. Einn okkar var ekki vanur því að spila bara með mús og lyklaborði og varð fyrir barðinu á vel völdu orðagríni fyrir vikið og hann skánaði lítið við það, skrýtið. Upplifurnin var mjög góð sem ýtti undir það sem við héldum að vélin hentaði betur leikjum með LAN hefð og stemningu sem gerir ekki eins háar kröfur til skjákorts.

Síðasti leikurinn var nú meira bara uppá grínið og kannski hafði mikið um vélina að gera en við ákváðum að prófa surgeon simulator. Það var mikið hlegið enda var frammistaða okkar sú að við fengið það vel staðfest að við erum réttilega ekki skurðlæknar í dag.

 

Niðurstaða

Asus ROG GR6 er litla systkini ROG GR8 og mér finnst þessi vél vera meira ætluð svona casual gamer sem er að leita sér að ágætis vél sem er nett og þægilegt að grípa með sér á LAN. Við sáum strax fyrir okkur að í einmitt þeim tilfellum væri þetta alger snilldarvél, þar sem maður er verður bara þreyttari og þreyttari á því að vera dröslast með einhverja skessu á LAN sem er kannski ekki nema 2 kvöld og dagspartur.

Við bjuggumst við að sjá meira FPS lagg á vélinni þar sem hún er að notast við Nvidia GTX 960M kort sem er oftast notað í fartölvum sem nota yfirleitt ekki stærri skjái en 17″. Vinnslugeta skjákortsins kom okkur því dálítið á óvart en það er samt ekki hægt að gera háar kröfur á þetta kort og það gæti vel spilað inn að leikirnir sem við prófuðum voru skrifaðir, að einhverju leyti, til að minnka framedrop og virka þá fregar sluggish.

Okkur fannst vélin þó vera í algeru lágmarki hvað varðar geymslugetu og stærð vinnsluminnis. Þetta er tvennt sem maður myndi byrja strax á því að stækka, ýmist með því að skipta alveg um diskinn eða bæta öðrum við ásamt því að bæta við vinnsluminniskubb í vélina. 4GB af vinnsluminni er að okkar mati algert lágmark fyrir 64Bita Windows 10 kerfi.

En það má segja að þessi græja sé skemmtileg hybrid af venjulegri PC vél sem virkar vel í alla heima- eða skólanotkun og síðan console leikjavél. Þegar vélin er í Steam Big Picture Mode þá er viðmótið jú mjög keimlíkt console leikjavél en gott að geta líka bara skipt úr því og verið með venjulega PC vél sem maður getur notað í alla almenna notkun. Þessi blanda á notkunarmöguleikum og skemmtilegri hönnunnin á vélinni gerir hana að okkar mati eftirsóknarverða, þó við værum til í að eiga GR8 bara til að geta spilað leikina í aðeins meiri gæðum.

 

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira