Heim Föstudagsviðtalið Ásberg Jónsson

Ásberg Jónsson

eftir Ritstjórn

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 62 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Já halló, ég heiti Ásberg Jónsson, kallaður Ási af mínum nánustu vinum. Ég er fjölskyldumaður, framkvæmdastjóri, ferðafrömuður og svo margt fleira. Ég hef átt heima á ýmsum stöðum hér heima og erlendis en ég hef flest mín ár dvalið fyrir vestan Snorrabraut.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er stofnandi og framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor. Fyrirtækið er í dag eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins með um 50 starfsmenn og starfsemi hér heima og í Svíþjóð. Við sérhæfum okkur í að selja erlendum ferðamönnum ferðir til allra Norðurlanda. Það verður að viðurkennast að það hefur farið ansi mikill tími í fyrirtækið en svona þess fyrir utan að þá hefur mér tekist að eignast tvær yndislegar dætur, gifst minni heittelskuðu, stofnað KEX hostel ásamt öðrum, opnað gæludýraverslun á Bretlandi og ferðast um allan heim, bara svona til að telja eitthvað upp.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Vá, hinn venjulegi dagur er nú frekar venjulegur.
Vakna þreyttur því yngri dóttir mín vaknar klukkan 06:00. Byrja daginn á því að búa til grænan djús, hendi mér síðan í bað (lærði að gera það á meðan ég bjó á Bretlandi). Djöflast síðan við koma fjölskyldunni út úr húsi. Síðan er það vinnan, þar er byrjað á einum sterkum kaffibolla.

Dagurinn í vinnunni gengur út á fundi, uppfæra verkefnalista, excel skjöl og samveru með fullt af skemmtilegu fólki.

Síðan er farið heim, þar sem ég elda eitthvað hollt og gott ofan í fjölskylduna, horfi síðan á fréttir eftir mat, kem börnunum í svefn og fer síðan aftur í vinnuna í 2-3 tíma og síðan heim í svefn.

 

Lífsmottó?

Skítur skeður og skítur mun ske. Þetta er bara spurning um að halda kúlinu og halda áfram.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Þeir eru svo margir að ég vil ekki gera upp á milli manna og eiga á hættu á að móðga einhvern.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni? (Win-Osx-Linux)

Ég er Windows maður og nota Windows 7 Professional. Gerði tilraun með áttuna, það var ekki alveg að gera sig en er spenntur fyrir tíunni.

 

Hvaða tölva er best í geimi og afhverju?

Mín. Lenovo með i7 og 16GB undir húddinu.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Nokia Lumia 925

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Númer 1,2 og 3 er að hann virkar. En svona fyrir utan það að þá tengist hann vel inn á office365 og er góður vinnusími.

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Mjög fá íslensk öpp, það er ókostur.

 

Í hvað notar þú símann mest?

1. Vafra um netið
2. Skoða netpóst
3. Hringja
4. Skoða og uppfæra dagatalið (ef atburðurinn er ekki skráður í dagatalið, þá hann ekki til)
5. Taka ljósmyndir

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Ég man bara að árið var 1997 og ég var mjög ljósabrúnn, stundaði nám í versló og átti Motorola síma sem maður togaði loftnetið upp. Þetta var allt mjög töff.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Ætli ég mundi ekki kaupa Nokia 930, en væri alveg til í að prófa LG G3

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Elko.is :o)

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Þið þarna íslensku fyrirtæki, þetta i-phone og i-eitthvað er bara bóla. Farið að gera öpp fyrir windows síma.

Takk fyrir mig.

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira