Heim Föstudagsviðtalið Atli Fannar Bjarkason

Atli Fannar Bjarkason

eftir Ritstjórn

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 56 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”,  harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

Viðmælandi okkar er flottur drengur sem stendur í stórræðum þessa dagana en hann hefur verið að opna nýjan fréttamiðil sem heitir www.nutiminn.is. Þetta er stórskemmtilegur miðill að mínu mati og ferskur blær sem kemur oft með annan vinkill á fréttir sem hafa verið og eru í umræðunni.

Viðmælandi okkar heitir Atli Fannar og þó svo að ég þekki kauða þekki persónulega þá hef ég fylgt honum lengi á Twitter sem verður að segjast eins og er…. stórgóð skemmtun 🙂

 

Við mælum með að þið hittið á hann á Twitter og sérstaklega að skoða Nútímann sem við erum viss um að eigi eftir að vaxa og dafna.

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Atli er landsbyggðar-hybrid. Fæddur á Sauðárkróki, uppalinn frá Selfossi en hef nú sest að í Vesturbæ Reykjavíkur.

 

Hvað ertu að grilla á myndinni?

Góð spurning. Á myndinni er ég að grilla tæp sex kíló af nautalundum sem hurfu ofan í hóp af frábærum mönnum. Þeir, ásamt öðrum öðlingum, gáfu mér einmitt grillið í þrítugsafmælisgjöf. Ég vandaði mig því sérstaklega mikið við að ná kjötinu fullkomlega medium rare. Það tókst og menn velta nú fyrir sér hvort ég sé á rangri hillu í lífinu.

 

Ertu á rangri hillu í lífinu?

Nei. En mér skilst að menn velti því fyrir sér.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa sem ritstjóri fréttavefsins Nútíminn sem opnaði mánudaginn 25. ágúst. Hvet alla til að kíkja á Nútíminn.is. Síðustu ár hef ég fyrst og fremst unnið mikið og skemmt mér vel. Ég var ritstjóri á Monitor þegar þegar það var tímarit, áður en Mogginn keypti það og síðar svæfði. Svo átti ég frábæran tíma á Fréttablaðinu sem blaðamaður og síðar fréttastjóri. Síðan ákvað ég prófa pólitík og var framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar í Alþingiskosningunum 2013. Það var geðveikt gaman en þegar inn á Alþingi var komið, og ég orðinn aðstoðarmaður Gumma Steingríms, sá ég að stjórnsýlsan hentaði mér ekki. Ég kvaddi því stjórnmálin og um leið mötuneytið frábæra á Alþingi, slappaði smá af og stofnaði svo Nútímann.

 

Hvað er Nútíminn?

Nútíminn er fréttavefur fyrir ungt fólk á aldrinum 20 til 40 ára. Vefurinn er í léttari kantinum þó metnaðurinn fyrir að segja fréttir sé mikill. Nútíminn gerir ekki upp á milli tækja og lítur vel út í þeim öllum.

 

Hvernig er venulegur dagur hjá þér?

Ég vakna milli klukkan sjö og hálf átta, sprauta upp í mig kollageni, bursta tennurnar og opna tölvuna. Skoða svo fréttirnar sem ég tímasetti til að birtast um morguninn kvöldið áður og byrja að vinna í öðrum fréttum. Dagurinn fer svo í að tala í símann, skrifa fréttir og hugsa upp nýja og skemmtilega vinkla á fréttum sem eru í gangi. Þetta er drullugaman. Síðdegis fer ég svo í Mjölni og svitna út stressinu. Ég fer í víkingaþrek í Mjölni nánast daglega og í körfubolta hina dagana. Markmiðið er að dedda 200 kílóum og að geta troðið. Þetta er að koma. Gefið mér þrjá mánuði.

 

Hvernig leggst veturinn í þig og hvaða verkefni eru framundan?

Veturinn leggst hrikalega vel í mig. Ég ætla að byggja upp Nútímann og gera hann að einum af mest lesnu fréttasíðum landsins ásamt því að byggja upp trúverðugleika hans og halda rekstrinum í jafnvægi. Stóra verkefnið er að gleyma mér ekki í brjálæðinu og muna að sinna ástinni minni. Hún er svo falleg og góð.

 

Einhverjar fréttir liðina daga eða vikna sem standa uppúr að þínu mati?

Sem fjölmiðlamaður til tíu ára fylgist ég auðvitað með því sem er að gerast á þeim markaði. Stórar og afdrifaríkar breytingar virðast vera orðnar náttúrulögmál á þessum stóru miðlum og það er sárt að þurfa að fylgjast með góðum félögum í mikilli óvissu um framtíð sína.

 

Lífsmottó?

Að kaupa aldrei neitt í oddatölumagni. Slétt tala. Alltaf.

 

Topp 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Elín Helena var best geymda leyndarmálið frá Selfossi en er ekkert leyndarmál lengur. Svo bíður þjóðin auðvitað spennt eftir nýrri plötu frá Benny Crespo’s Gang. Skagafjörðurinn í mér gefur svo s/o á Úlf úlf, Sverri Bergmann og Geira.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?

OsX.

 

Hvaða tölva er best í geimi og afhverju?

Ég á hana því miður ekki en ég á samt fjandi góða 15 tommu MacBook Pro með SSD og svo miklu minni að ég þarf aldrei að loka einum einasta tab í Chrome. Besta tölva í heimi yrði nýrri, þynnri og öflugri útgáfa af minni. Með retina skjá.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

LG G3

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Skjárinn. Svo er hann hraður og með góðri myndavél.

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Ég er skinny jeans maður og kem honum ekki ofan vasa. Mér finnst samt kostirnir við stærðina fleiri en gallarnir (það er það sem hún sagði).

 

Í hvað notar þú símann mest? (top 5 listinn)

  1. Twitter
  2. Dagatal / minnismiðar
  3. Taka myndir
  4. Hunsa Snapchat
  5. Google Analytics

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Ericsson sem ég get ekki einu sinni Gúglað það er svo langt síðan. Keypti hann í Danmörku. Hann var mikið tækniundur með þriggja línu skjá. Þá voru allir með Nokia 5110 en ég vildi ekki vera eins og allir hinir.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Ég er með hann.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég læt Facebook mata mig með frekar yfirborðskenndum tæknifréttum. Nenni ekki að fylgjast með eins og í gamla daga þegar ég gat sagt hvaða móðurborð í PC var best.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Já, ekki missa af lestinni. Farðu inn á Nútíminn.is, finndu Nútímann á Facebook og Twitter og finndu mig líka á Twitter, @atlifannar.

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira