Heim Föstudagsviðtalið Gunnar Már Gunnarsson

Gunnar Már Gunnarsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 40 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”,  harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

The Big 40….   Núna er komið að viðtali númer 40 og er það stór áfangi hér á Lappari.com, frábært að renna yfir viðtölin og sjá alla þessa snillinga sem hafa tekið þátt í föstudagsviðtalinu….  Gott safn af snillingum og allt landsliðsfólk í sínu fagi

 

Gestur okkar í heita sætinu þessa vikuna alls ekki síðri en þeir sem á undan komu en það er hann Gunnar Már sportbolti og tölvunörd sem nú nýlega hefur vakið á sér athygli (hjá fámennum hópi) sem lífstílfrumkvöðull. Gunnar er einn af mörgum “netvinum” mínum sem ég hef átt töluverð samskipti við síðustu árin. Ef þú ert á Twitter þá mæli ég með að þú fylgist með kappanum þar því hann er skemmtilegur og drífandi einstaklingur sem gaman er að fylgjast með.

 

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég er Gunnar Már Gunnarsson en oftast kallaður gunnare á samfélagsmiðlum. Uppalinn í Hafnarfirði en bý núna í Kópavogi ásamt unnustu og tveimur sonum.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er tölvunarfræðingur og hef síðustu 10 árin eða svo verið á kafi í SAP forritun. Ég byrjaði eftir háskólann hjá Nýherja/Applicon en flutti út til Noregs þar sem ég var fyrst að vinna hjá IBM en færði mig yfir í minna SAP ráðgjafafyrirtæki. Við fjölskyldan fluttum heim fyrir rúmlega ári og ég er nýbyrjaður í hugbúnaðardeild Íslandsbanka. Óvinnutengt þá er ég með mikla hreyfiþörf og hef gaman að hvers konar útivist og fjallgöngum. Í sumar er ég að fara hlaupa Laugaveginn í fimmta skipti og undirbúningur fyrir það hefur verið tímafrekur.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Eftir morgunskutlið mæti ég í vinnuna á Lynghálsinum. Byrja á að fá mér kaffi en ég myndi segja að kaffivélin okkar væri stolt bankans. Fyrsta mál á dagskrá er Kanban töflufundur þar sem við í mínum hóp förum yfir hvað við gerðum í gær og hvað við ætlum að gera í dag. Blessunarlega er ég að mestu laus við fundi það sem eftir er dagsins þannig mesti tíminn fer í forritun og stundum að slökkva elda. Í hádeginu 3x í viku brýt ég upp daginn og fer í Boot Camp í Elliðárdal. Dagana sem ég er ekki í Boot Camp fer ég út að hlaupa. Á kvöldin tekur rútínan við; elda, baða strákana, koma þeim í háttinn, glápa á Netflix og reyna finna svarið við lífsgátunni; hvaðan koma allir þessir stöku sokkar. Á veturna og vorin reyni ég að komast á fjallaskíði en að renna niður brekkur utan skíðasvæða er eitthvað það allra besta sem er til. Það og hlaupa hratt niður Esjuna.

 

Lífsmottó?

Ekkert sem ég lifi eftir en ég segi samt ótrúlega oft að það sé betra að vera seinn og sætur en fljótur og ljótur.

 

Sálin eða Skímó?

Finnst eins og þetta sé trick spurning en ég ætla samt að segja Skímó. Ég hef alltaf verið grjótharður Hanna maður.  Draumurinn væri Skítamórall featuring Jens á saxafón.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?

Windows 7 sem er bara nokkuð solid. Heima er ég bæði með Win8 og OS X og held að ég skipti tímanum bróðurlega þar á milli.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Eftir að hafa verið Android maður í 4 ár skipti ég yfir í iPhone 5s fyrir stuttu

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Í fyrsta lagi er hann agalega fallegur. Hann fer vel í hendi, var með HTC One áður sem mér fannst í það stærsta. Er líka bara frekar ánægður með batteríið og myndavélina. Ég fíla líka að vera early adapter og tilbreyting að vera með þeim fyrstu sem fá öppin. Ég er ekki enn kominn upp á lagið með að feika að mér finnist allt vera úrelt og hallærislegt þegar það kemur út fyrir Android/WP en það er í vinnslu.

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Að koma úr Android yfir í iOS þá finnst manni maður svolítið vera læstur inní kassa og ég sakna fiktsins. Ég væri líka alveg til í að hafa bakk takka og eftir að hafa vanist SwiftKey finnst mér lyklaborðið í iPhone engan veginn nógu gott.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Twitter, Tölvupóstinn, Myndavélin, Símtöl og 8 Ball Pool (sem er á góðri leið með að eyðileggja líf mitt)

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Ég var með einhvern Sony síma árið 1998. Agalegur hlunkur sem enginn annar átti en ég var gríðarlega ánægður hann með þangað til ég sá 5110 í fyrsta sinn. Ég tók ekki gleði mína fyrr en ég keypti 6110. Æðislegur sími og ég held að hápunktur lífs míns hafi verið að klára Snake á erfiðasta leveli.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Ég myndi velja símann hans Sigmundar Davíðs, væri alveg til að lesa sms-in honum en ef það væri off limits myndi ég velja símann með bestu kombó-ið af: Myndavél, batterí endingu og útliti. Lumia 1520 kemur fyrst upp í hugann en ég vil ekki festa mig í einhverju einu stýrikerfi, held þau séu öll mjög góð en hvert auðvitað með sína galla.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Fyrir utan gríðar spennandi vinnutengdar SAP síður skoða ég stundum wired og engadget. Lapparinn er að sjálfsögðu hluti af netrúntinum og svo komst ég upp á lagið þegar ég bjó í Noregi að kíkja reglulega inná dinside.no eins spennandi og það nú hljómar og hef haldið því áfram eftir ég flutti heim.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Ótrúlega margt sem brennur á mér.

Mér finnst pirrandi þegar app er kallað smáforrit.

Ég vildi óska þess að leikskólar gæfu manni gott kaffi í ferðabolla á morgnana.

Ég vil vita hver á sökina á því að hafa þýtt cross country ski sem „gönguskíði“. Þetta veldur því að 90% Íslendinga þykir það ásættanlegt að labba makindalega á skíðunum. Ég legg til ferðaskíði.

Læt þetta duga og ef það er ennþá pláss á síðunni væri gaman að enda þetta á Föstudagslagi.

 

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira