Heim UmfjöllunUmfjöllun Spjaldtölvur Dell XPS 18 All-in-One borð/spjaldtölva

Dell XPS 18 All-in-One borð/spjaldtölva

eftir Jón Ólafsson

Vinir okkar í Advania höfðu samband og sögðust vera með vél sem “við yrðum að prófa” og utanvið mig eins og oft áður sagði ég bara “já vitanlega”. Ég spáði ekki meira í því fyrr en ég sótti vélina en þetta er Dell XPS 18 All-in-One tölva sem Advania flokkar sem borð/spjaldtölva. Ég var örlítið hissa yfir því hversu stór kassinn var en spáði svo sem ekki mikið í það.

Þegar ég opnaði kassann þá kom í ljós 18.4″ All-in-One spjaldtölva, standur fyrir hana og þráðlaust lyklaborð og mús eins og sést í þessari afpökkun.

 

 

Stærðin kom mér óvart en ég hef hingað til prófað spjaldtölvur frá 7″ og uppí 11″ og er þetta því eitthvað allt annað en ég er vanur. Ég verð að játa að ég strögglaði töluvert þegar horfði á hana í fyrstu og prófaði. Ég var að reyna að átta á því hver myndi kaupa svona tölvu, sérstaklega þar sem hún er alls ekki ódýr. Vélin er samt mjög vel búin þegar kemur að búnaði, keyrir á Windows 8 og getur þannig notað öll hefðbundin Windows forrit til viðbótar við Modern forrit úr Windows Store sem eru sérhönnuð fyrir snertivirkni.

Ég get ekki annað sagt en að vélin vekur athygli hjá mér og verður gaman að sjá hvort og hvernig þessi vél stendur sig í prófunum.

 

Hönnun og vélbúnaður.

Þessi vél er í flokki með frekar fáum vélum því það eru alls ekki margar litlar og meðfærilegar All-in-One vélar á boðstólum í dag. Vélin er greinilega vel hönnuð og augljóst að mikið er lagt í sterkt og fallegt tæki.

Framhlið er þakin af einu heilu glerstykki, sem sagt engar brúnir eða raufar. Snertiskjárinn þekur framhliðina og er ekkert á framhlið nema Dell logo efst til vinstri og hefðbundið Windows logo neðst fyrir miðju. Þetta Windows logo er snertitakki sem færir notenda á heimaskjá Windows 8. Bakhlið er kúpt og mjókkar út til hliðana sem gerir það þægilegt að halda á vélinni og hún virðist mun minni en hún er í raun og veru. Bakhliðin er úr áli sem gefur vélinni auka “premium” upplifun en efst á bakhliðinni er plaströnd sem inniheldur loftnet til þess að auka drægni þráðlausa netkortsins.

 

 

Dell XPS 18 er annað hvort mjög stór og því frekar þung spjaldtölva…  eða frekar lítil og lauflétt vinnustöð.

Ef nota á vélina vinnustöð þá fylgir með mjög sterkbyggður hleðslustandur til uppstillingar sem flatskjá ásamt því að það eru tveir fætur á bakhlið sem er hægt að setja út til að láta hana standa á borði eða liggja á borði eins og þessi mynd sýnir.

 

xps-18

 

Ég notaði vélina nær eingöngu í borðstandinum sem virkar sem hleðslustöð líka eða á borði, standandi með bakfótunum en þegar börnin fór í hana þá lá hún yfirleitt á bakinu og á milli þeirra.

 

Hér eru helstu mál á vélinni:

  • Hæð:  28.4 cm
  • Breidd: 46.4 cm
  • Þykkt: 1.8 cm
  • Þyngd: 2.2 kg

 

Vélin er því næstum hálfur metri á breidd og um 2.2 kg að þyngt, það er vel hægt að labba með hana um eins og spjaldtölvu en notendur gera það líklega ekki mikið því hún sígur fljótlega í. Þrátt fyrir stærð er hægt að sitja með hana í fanginu til þess að vafra eða leika sér aðeins en innsláttur á skjályklaborðið er ekki mjög þægilegur vegna þess hversu stórt það er.

Vélin er vitanlega mun léttari en svipað öflugar PC tölvur og á sama tíma töluvert þyngri en hefðbundnar (og minni) spjaldtölvur. Vill samt ítreka að það er erfitt að bera þyngdina saman við spjaldtölvur þar sem þessi vél er svo miklu öflugri, stærri og sveiganlegri í notkun en þær.

Eins og fyrr segir þá er borðstandurinn mjög góður en það er hægt að stilla hallann á vélinni í honum og því einfalt að finna stöðu sem hentar vel, hvort sem verið er að vinna á henni eða bara horfa á bíómynd. Það er hægt að tengja hleðslutæki beint í borðstandinn þannig að hann hlaði vélina þegar hún stendur í honum. Einnig finnst mér þessir tveir fætur á bakhlið skemmtileg viðbót og auka notagildi vélarinnar umtalsvert.

 

xps18_2

 

Framhliðin er nær öll er þakinn af þessum frábæra IPS/Truelife 18,4″ LED skjá sem styður 1920 x 1080 upplausn (Full HD) en utan um skjáinn er svartur rammi sem umlykur hann. Þessi rammi gerir það að verkum að skjámynd nær ekki alveg út að endum tölvunnar þannig að skjápláss er minna en virðist í fyrstu.

Yst á framhlið tekur svartur álrammi við en þessi heilsteypti álskrokkur ver vélina fyrir hnjaski ásamt því að gefa notandanum þessa massívu tilfinningu við að handleika hana.

 

Dell XPS 18 All-in-One kemur í nokkrum vélbúnaðarútfærslum en  vélin sem ég er með er með eftirfarandi “specca”

  • Örgjörvi: Intel Core i5-3337U (allt að 2.7 GHz, 3MB)
  • Vinnsluminni: 8GB (2x4GB) 1600MHz DDR3
  • Skjástýring: Intel HD 4000
  • Harðdiskar: 500GB SATA ásamt 32GB m-SATA SSD
  • Stýrikerfi: Windows 8 (64 Bit)

 

Skjárin er í 16:9 (wide screen) hlutföllum sem gerir það að verkum að eðlilegra er að nota hana liggjandi á hlið (lárétta) en sum forrit voru skemmtileg í lóðréttri stöðu eins og til dæmis tímalínan í Facebook appinu.

 

facebook

 

Almennt myndi ég segja að vélin sjálf sé vel hönnuð, tengi og stjórntakkar séu á eðlilegum stað miðað við það sem notandi má vænta. Vélin sem ég er með kemur með 8GB DDR3 vinnsluminni og tvíkjarna Intel Core i5 örgjörva (3337U, 2.7GHz) sem styður HyperThreading. Örgjörvinn er mjög öflugur og nær að keyra stýrikerfið og öll forrit sem ég prófaði hnökralaust, vélin hoppar milli forrita hratt og vel. Vélin er almennt mjög spræk og ræður við öll hefðbundin PC forrit sem ég hef sett upp á henni, Photoshop virkaði vel ásamt þeim leikjum sem ég prófaði. Þetta er svo sem ekki eiginleg leikjavél eins og ég mundi flokka þær en keyrir ágætlega marga leiki með innbyggðu Intel HD 4000 skjákorti. Það er líka hægt að fá minni vél með i3 örgjörva og 4GB í minni og síðan aðra stærri sem er með i7 örgjörva en allar eru þær með HD 4000 skjákorti.

Það er góð myndavél á Dell XPS 18, þetta er HD vél (720p) og henni til stuðnings eru 2 hljoðnemar og þessi uppsetningu hentar vel í myndsamtöl og einfaldar myndatökur.

 

Tengimöguleikar

Dell XPS 18 er með 8-in-1 minniskortalesari og því mjög einfalt að setja í hana minniskort úr t.d. myndavélinni eða snjallsímanum til þess að skoða eða vinna með. xps18_4Vélin er með tvö USB 3.0 port til að tengja við flakkara, mús, lyklaborð, 3G módem eða minnislykil og eru þau staðsett neðst á vinsti hlið en þar er einnig innstunga fyrir hleðslutæki.

Vélin er með Bluetooth 4.0 ásamt þráðlausu netkorti sem styður 802.11 (a/b/g/n), allt að 300Mbps. Vélin er einnig með lítið 3.5″ tengi fyrir heyrnartól eða hátalara og síðan fyrir hljóðnema.

Dell XPS 18 er með AGPS sem er skemmtileg viðbót á vél með svona stórann skjár. Það hlítur að vera mjög skemmtilegt að nota þessa tölvu með GPS kortum en ég hafði því miður ekki tækifæri til þess að prófa það að þessu sinni. Microsoft býður uppá skemmtilega lausn í Windows 8.1 sem heitir Bing Maps en hér er helstu leiðbeiningar fyrir appið.

Ég hefði viljað hafa vélina með útgang fyrir auka skjá, VGA, HDMI (stærðin hamlar því) eða HDMI (mini) en svo er ekki. XPS 18 er reyndar með aðra lausn sem er þrælsniðug en hún byggir á Intel Wireless Display (WiDi) eða þráðslaus skjáteningu. Þá áttu annað hvort sjónvarp eða skjá sem styður WiDi eða með auka laust HDMI port sem WiDi tengist í. Þannig getur þú varpað myndinni af skjánum þráðlaust og í fullri háskerpu, meira um þetta hér.

 

 

Rafhlaða og lyklaborð

Það er 69 Wh rafhlaða í XPS 18 og samkvæmt Dell þá má reikna með 4-5 klst endingu við eðlilega notkun sem á spjaldtölvu eru vonbrigði en á fartölvu nokkuð gott. Vitanlega verður að hafa í huga að þetta er ekki venjuleg ARM spjaldtölva, hún er með sama vélbúnaði og hefðbundin öflug fartölva ásamt því að vera með 18″ skjá.

Eðlileg notkun er líka sveiganlegt hugtak en þrátt fyrir töluvert mikla notkun þá lifði XPS 18 vel af venjulegt kvöld hjá mér við vinnu og leik. Með því að spila bíómynd (endurtaka aftur og aftur) yfir þráðlausa netið þá lifði vélin í 4:55 sem verðir að teljast mjög ásættanlegt (power: balanced / brightness:25%). Þetta er reyndar nokkuð gott miðað við að þetta er bjartur og fallegur 18″ skjár, þessi vél með Intel Haswell örgjörva mundi líklega skila um 40% betri rafhlöðuendingu.

Þar sem XPS18 keyrir á venjulegu Windows þá er vitanlega hægt að stilla lyklaborð (þráðlausa og á skjá) á íslensku. Einnig er hægt að stilla allt stýrikerfið á íslensku eins og sjá má hér. Með því að stilla á Íslensku sem meginmál þá urðu séríslenskir stafir virkir eins og að um hefðbundina PC tölvu væri að ræða.

Þráðlausa lyklaborðið sem fylgir með er mjög gott en þetta er hefðbundið lyklaborð í fullri stærð og því engar málamiðlanir með það. Borðið er fljótt að tengjast þráðlaust við vélina og almennt ekkert hægt að setja út á það. Það er kærkomið að hafa gott lyklaborð því ég mundi ekki semja lengri pistla á skjályklaborð í neinni spjaldtölvu, þessi umfjöllun er nær öll gerð á þetta lyklaborð og í XPS 18 vélinni.

 

Þetta er lyklaborðið og músin sem fylgja með, lyklaborðið frábært og er músin ágætt.

xps18_7

 

Það er vert að taka fram að það eru einnig tvær gerðir af skjályklaborði innbyggðar í Windows 8 eins og sést hér að néðan.

Hefðbundið lyklaborð

W700_key1

Skipt lyklaborð fyrir hraðritun.

W700_key2

 

Hljóð og mynd

Ég var mjög ánægður með skjárinn í öllum mínum prófunum, alveg sama hvort unnið var í texta, myndvinnslu, teikningum, leikjum eða við að horfa á media efni. Eina sem ég get sagt er að það er óþægilega mikill glampi af allri birtu á bakvið mig á skjánum og þurfti ég oft að snúa skjánum eilítið til að finna mér þæginlegri áhorfshorn en þetta er svo sem ekki einsdæmi með tölvur.

Hef í raun og veru ekkert að segja annað um skjáinn en hann er bjartur, fallegur og einstaklega skýr og skarpur. Það er einfalt að nota Dell XPS 18 sem spjaldtölvu þar sem það þarf ekki að horfa beint á skjáinn til að sjá skarpa og góð mynd. Það er sem sagt mjög gott og vídd “áhorfshorn” (off-axis viewing angle) ásamt því að sjálfvirk birtustilling virkar vel til að gera áhorf þæginlegra í mismunandi birtu.

 

xps18_5

 

Hátalarar eru tveir, þeir eru staðsettir á hliðum vélarinnar og þeir gefa ágætis stereo hljóð við þokkalegan tónstyrk hvort sem hlustað er á tónlist eða horft bíómyndir. Ég alltaf frekar með heyrnartólum við hlustun á tónlist þar sem hátaralar á svo lítilli vél eru aldrei sérstaklega hljómmiklir en þeir leysa þó verkið ágætlega. Dell XPS 18 er einnig með tveimur hljóðnemum sem virkuðu vel í prófunum mínum á Skype.

 

Margmiðlun

Þar sem þetta er venjuleg Windows tölva þá er markmiðlun í frábær á þessari vél. Það er hægt að horfa á eða hlusta á allt sem þú getur hlustað á í venjulegri PC tölvu. Ég próðaði að spila bíómyndir af vélinni sjálfri, flökkurum, minnislyklum eða beint af netdrifi. Við allar prófandir var öll afspilun algerlega hnökralaus og virkaði mjög vel enda vélbúnaður mjög öflugur. Þetta átti við hvort sem prófaði CD (utanáliggjandi USB), MP3 eða bíómyndir (avi og mkv prófað). Það er hægt að sækja VLC spilaran sem spilar allt efni eða setja upp Windows 8 codec sem eru ókeypis hér (muna að lesa allt í uppsetningu og taka hakið úr addware). Flash virkar í öllum Windows 8 tölvum (líka RT) og virkar því allt efni á heimasíðum sem gert er með Flash. Í stuttu máli þá hef ég ekki enn rekist á markmiðlunarefni sem ég get spilað á venjulegri PC tölvu sem ég get ekki gert á þessar vél.

Það eru margir sem þekkja og kunna að meta Snap kost í Windows 8 sem er nú mun betra í Windows 8.1. Með því er mjög einfalt að vera með 2, 3 eða 4 forrit opin á sama skjánum,

Hér prófa ég t.d. að horfa á fótboltaleik í Dell XPS 18 en þar er ég með leikinn, Twitter app og Facebook app í gangi og því erfitt að missa af einhverju sem tengist leiknum.

???

 

Síðan var það Sunnudagsmorgun með Gísla Martein en það myndaðist skemmtileg Twitter umræða meðan þátturinn var í gangi.

???

 

Multitasking er ekki svona einföld í Android eða iOS tækjum en eftir að hafa prófað þetta þá er allt annað afturför eða málamiðlun.

 

Hugbúnaður og samvirkni.

Eins og með allar Windows 8 vélar þá fylgja með öll hefðbundin skipulagsforrit, hefðbundinn vafri til að nota með mús og lyklaborði, snerti vafri, póstforrit, tengiliðir, skipuleggjari o.s.frv. með vélinni en það sem vantar uppá er aðgengilegt í gegnum Windows Store (forritamarkaður Microsoft). Þeir sem gagnrýna lítið úrval forrita í Windows Store virðast oft gleyma því að forritaúrval fyrir Windows er það mesta sem til er á markaðnum í dag. Þetta segi ég vegna þess að notandi hefur aðgang að hátt í tvöhundruðað þúsund forrit í þessum markaði sem er sístækkandi og síðan þessar milljónir hefðbundina PC forrita. Hvorki Android né Apple komast nálægt þessum tölum í forritaúrvali.

 

xps18_1

 

Ég setti upp Office 2013 upp á Dell XPS 18 vélinni og þar sem ég skráði mig inn í vélina með Microsoft notendandum mínum (Live ID) þá samstillti vélin sig við notendann minn sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á SkyDrive).

Þetta þýðir í mjög stuttu máli:

  • Þegar ég breyti um skjámynd á annari Windows 8 tölvu þá breytist skjámyndin á XPS 18.
  • Þegar ég bý til Office skjal á annari tölvu þá verður það strax aðgengilegt á XPS 18 (vice versa)
  • Ég er alltaf með sömu upplýsingar á Dell XPS 18, borðtölvunni og á fartölvunni og þarf því ekki lengur að senda skjöl sem ég útbý á spjaldtölvunni yfir á tölvu með tölvupósti.

 

Ég prófaði að undirbúa stöðufundi á borðtölvunni og síðan stökkva á fund með XPS 18 vélina án þess að taka nokkuð annað með mér. Um leið og XPS vélin fékk netsamband þá samstillist efnið sem ég hafði undirbúið á borðtölvunni við spjaldtölvuna og ég því fær í flestan sjó. Það er ekkert annað stýrikerfi sem bíður uppá svona samþættingu án auka hugbúnaðar.

 

 

Niðurstaða

Ég held að þessi vél sé alls ekki fyrir alla enda líklega ekki margir að leita sér að 18″ spjaldtölvu og frekar lítilli borðtölvu saman í pakka á þessu verði….   Að því sögðu þá verð ég líka segja að mér finnist þessi vél frábær og ég sá eftir henni um leið ég skilaði henni.

Það er líka áhugavert að á þessari viku sem ég var með hana þá fékk ég fjórar fyrirspurnir frá aðilum í kennslu-, verkfræði- og byggingariðnaði sem eru mjög spenntir fyrir henni. Þeir sáu virði í því að vera með svona stóra Windows spjaldtölvu sem hægt er að taka með í skólastofuna, fara með á verkfundi eða á vinnusvæði til að sýna teikningar eða til skráningar.

 

 

Dell XPS 18 All-in-One er stílhrein, falleg og mjög öflug tölva sem að mínu mati er áhugaverður valkostur ef á að kaupa eina alhliðatölvu tölvu á heimilið. Þar sem vélin er mjög meðfærileg þá er létt að taka hana með í eldhúsið, stofuna, barnaherbergið eða í stofuna en svona var notkunin hjá mér, tók hana með mér þangað sem fjölskyldan var stödd og sló hún í gegn hvar sem hún var.

Ef þú ert að leita að sterkri og fjölhæfðri tölvu á vinnustaðinn þá er þessi líka spennandi kostur enda fjölbreytt notagildi ásamt því að vera öflugur vinnuhestur sem ætti að ráða léttilega við flest allt sem þú ert að gera í dag. Dell XPS 18 kemur reyndar með venjulegu Windows 8 (ekki Pro/Enterprise) og því ekki hægt að skrá hana beint á domain.

Dell XPS 18 á fyllilega erindi á vinnuborðið eða í fundarherbergi hjá flestum fyrirtækjum, vel búinn, sterk og öflug vél sem ég mæli hiklaust með.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira