Heim Ýmislegt Nokia 9 formlega kynntur

Nokia 9 formlega kynntur

eftir Magnús Viðar Skúlason

Í liðinni viku fór fram MWC 2019 sem er stærsta snjalltækja- og farsímaráðstefna ársins en hún hefur verið haldin árlega um áratugaskeið.

Líkt og venja er þá nýta flestir af stærstu farsímaframleiðendum heims þennan vettvang til þess að kynna sínar helstu tækninýjungar og þetta árið var ekki vöntun á slíkum tilkynningum.

Eitt af ef til vill verst varðveittu leyndarmálum fjarskiptaiðnaðarins var hið væntanlega símtæki frá HMD sem heitir Nokia 9. Um er að ræða nýjasta flaggskip HMD í Nokia Android-línunni sinni en ánægjulegt var þó að með formlegri tilkynningu á þessu símtæki að þá er PureView-tæknin sem Nokia kynnti til sögunnar í Nokia 808 og síðan seinna meir í Nokia Lumia 1020 kominn aftur á markaðinn.

PureView-myndavélatæknin er í hugum margra sú tækni í farsímaljósmyndum sem hefur valdið hvað mestum straumhvörfum síðan myndavélar voru yfir höfuð gerðar aðgengilegar í símtækjum.

Nokia 9 er líkt og aðrir Nokia Android-símar hluti af Android One-línunni. Það þýðir að Android One-símar eru þeir símar sem fá fyrstir allar nýjustu og helstu uppfærslur á Android-stýrikerfinu þegar Google gerir þær aðgengilegar.

Þegar eiginleikalýsing Nokia 9 er skoðuð þá er margt sem vekur þar athygli en þar ber helst að nefna að skjárinn er 5,99 tommur að stærð með innbyggðum fingrafaralesara og andlitsaflæsingu, vinnsluminnið er 6GB ásamt 128GB geymsluminni, örgjörvinn er frá Snapdragon og ber týpunúmerið SDM845. Þrátt fyrir að SDM855-örgjörvinn sé væntanlegur frá Snapdragon þá ákvað HMD að nota 2018-árgerðina einfaldlega til þess að hægt væri að koma Nokia 9 strax í sölu en ef nýrri árgerðin hefði verið notuð þá eru líkur á því að síminn hefði ekki komið út fyrr en á seinni hluta ársins.

Myndavélin í Nokia 9 er ekki hugsuð fyrir notendur sem finnst þægilegt að grípa í hana til þess að taka hversdagsmyndir af hverju því sem þeir taka eftir svo sem matnum sínum, gæludýrum eða óljósum hugmyndum um hvernig veruleikinn er hjá öðru fólki.. Þessi myndavél er hugsuð fyrir þá sem hafa mikinn áhuga á ljósmyndun og vilja taka sína myndatöku upp á annað stig. Myndavélin er samsett úr fimm mismunandi linsum eins og sést á bakhlið símans.

Allar linsurnar eru að skila af sér 12 megapixlum með f1/8 í ljósop. Myndavélin virkar því þannig að teknar eru fimm myndir af viðfangsefninu og þeim síðan raðað ofan á hvor aðra til þess að fá meiri skerpu og dýpt í myndina. Niðurstaðan eru myndir, sem hægt er að vista í RAW-sniði þ.e. án nokkurar þjöppunar. Það er einnig áhugavert að hægt hefur verið að setja allar þessar linsur í símann án þess að það komi niður á þykkt hans en Nokia 9 er einungis 8mm á þykkt.

Nokia Pro Camera-appið fylgir einnig með Nokia 9 þannig að hægt er að eiga við myndatökuna á allan þann hátt sem notandanum sýnist.

Búast má við því að Nokia 9 rati fljótlega í verslanir hérlendis en ekki hefur verið staðfest hvað síminn mun kosta.

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira