Heim UmfjöllunUmfjöllun annað Kobo Aura 2 – umfjöllun

Kobo Aura 2 – umfjöllun

eftir Magnús Viðar Skúlason

Við hérna á Lappari.com teljum okkur ekki vera mikla spámenn um framtíðina en ein af stærstu tæknibyltingunum sem framtíðarsinnar 20. aldarinnar spáðu um var að pappír myndi líða undir lok og hið hefðbundna bókarform sem mannfólkið hefur þekkt frá örófi alda myndi senn hverfa á braut og hljóta verðugan sess í hillu fortíðarþráhyggjunnar líkt og faxtækið, Clairol fótanuddtækið og segulbandstækið.

Í stað bókarinnar og dagblaða þá myndi hver og ein manneskja vera með lófatölvu sem gæti geymt heilu bókasöfnin þar sem notendur gætu dundað sér við lestur á meðan þeir færu fljúgandi í flugbílunum sínum til og frá vinnu á hverjum degi.

Raunveruleikinn er hinsvegar sá að bókin lifir enn góðu lífi. Dagblaðaútgáfa hefur aðlagast nútímanum og er orðin mun aðgengilegri í gegnum smáforrit eða vefsíður og ekkert bólar enn á flugbílum en hey, við erum þó allavega að fá borgarlínu!

Burtséð frá dómsdagsspám bókarinnar þá hafa lesbretti (e-readers) rutt sér til rúms á undanförnum árum og hafa fyrirtæki á borð við Amazon ekki sparað neinu til við að kynna lesbrettið sitt sem nefnist í daglegu tali Kindle. Amazon hefur byggt upp heilt umhverfi sem gerir notendum kleift að hlaða bókum og tímaritum beint niður í lesbrettið. Gallinn við Kindle-umhverfið er hinsvegar að Amazon leyfir einvörðungu sitt eigið snið af rafbókum á meðan flest allir aðrir framleiðendur lesbretta styðja við hinn útbreidda ePub-staðal. Hvað er til ráða þá ef notendur vilja forðast hið hefta og lokaða lestrarumhverfi Amazon?

Sem betur fer eru ýmsir valkostir í boði ef notendur vilja opnari og sveigjanlegri leið við lestur rafbóka og einn af þeim framleiðendum sem hefur sótt hvað mest í sig veðrið á undanförnum árum nefnist Rakuten en þeir hafa, ásamt því að bjóða upp á eina stærstu bókaveitu heims, framleitt og gefið út nokkuð öfluga línu af lesbrettum sem nefnast Kobo.

Í þessari umsögn munum við skoða lesbretti sem nefnist Kobo Aura 2 og munum við reyna að svara spurningunni um hvort að þetta lesbretti geti staðið upp í hárinu á Kindle-lesbrettinu frá Amazon eða hvort það þurfi að sætta sig við það að vera með ævarandi skallablett í samanburði við gríðarlega markaðsstærð Amazon á þessum markaði.

Hönnun og vélbúnaður

Skjárinn í Kobo Aura 2 er 6 tommur að stærð og er að skila af sér 212 PPI upplausn. Líkt og í öðrum lesbrettum þá er Kobo Aura 2 með E-Ink-skjá sem fer því næst þegar það kemur að stafrænni tækni að líkja hvað best eftir hefðbundnum blaðsíðum. Rafhlöðuendingin er uppgefin rétt um það bil 2 mánuðir eða 8 vikur og getur undirritaður staðfest það að rafhlöðuendingin er á pari við það sem er uppgefið. Innbyggt lesljós er í skjánum þannig að auðvelt er að lesa af lesbrettinu í myrkri án þess þó að það sé að þreyta augun. Geymsluminnið er 4GB og ætti því samkvæmt hefðbundnum viðmiðum að geta geymt yfir 3000 rafbækur. Lesbrettið er einnig með Wifi-tengingu þannig að hægt er að versla bækur beint af vefgátt Kobo eða fara beint á netið í gegnum innbyggða vafrann í lesbrettinu og nálgast þá t.d. PDF-skjöl eða önnur skjöl sem hægt er að hlaða beint niður í lesbrettið og lesa þar.

Tengimöguleikar

Það er ekki um marga tengimöguleika að ræða þegar þegar kemur að lesbrettunum frá Kobo enda eru lesbretti, ólíkt spjaldtölvum, tæki sem eru hugsuð til þess að nýta sem bók. Þar af leiðandi er ekki verið að troða í lesbrettin virkni á borð við myndavélar, margtíðna GSM-virkni og ýmsu því sem við þekkjum úr snjalltækjum nútímans. Heldur á móti þá eru lesbrettin gerð einföld og skilvirk sem skilar sér m.a. í léttari tækjum sem eru með rafhlöðuendingu sem jafnast á við gamla Nokia-síma. Kobo lesbrettin eru engir eftirbátar þegar það kemur að þessari virkni enda er Kobo Aura einungis með einu tengi á sér; micro USB-tengi, sem nýtist til hleðslu og til að tengja lesbrettið við tölvu til þess að færa gögn yfir í það og til að endurraða möppuskipulagi og eyða út skrám. Kobo Aura 2 er síðan með Wifi-tengingu sem hægt er að nýta m.a. til þess að tengjast efnisveitu Rakuten en einnig til þess að vafra inn á hefðbundnar vefsíður og hlaða m.a. beint niður PDF-skrám eða öðrum læsilegum textaskrám sem Kobo Aura 2 ræður við. Undirritaður fór inn á ýmsa vefi og náði m.a. að hlaða niður einu áliti af vef Samkeppnisstofnunnar og lesa það í lesbrettinu án vandræða. Það var föstudagskvöld sem verður lengi í minnum haft!

Rafhlaða

Rafhlöðuendingin í Kobo Aura 2 er alveg hreint út sagt mögnuð og er hún á pari við það sem gefið hefur verið upp fyrir lesbrettið eða um 2 mánuðir. Er þessi ending til staðar þrátt fyrir daglegan 15-20 mínútna lestur.

Skjár

Skjárinn í Kobo Aura 2 er 6 tommur að stærð og er að skila af sér 212 PPI-upplausn. Slík upplausn er ásættanleg en er þó erfitt að réttlæta fyrir lesbretti á þessu verðbili þar sem 300 PPI-lesbretti frá öðrum framleiðendum eru í boði á samskonar verði. Við það bætist að viðbragð skjásins er oft lítið þegar verið að er fletta um blaðsíður í rafbókum eða skjölum en er þó alveg innan marka enda snúast flettingar í rafbókum á svipaðan hátt eins og að fletta hefðbundinni bók. Stór kostur við skjárinn í Kobo Aura 2 er innbyggða lesljósið sem er mjög hentugt við lestur í myrkri. Munurinn á baklýsingu í E-Ink-skjá í samanburði við skjá í spjaldtölvu er að skjábirtan af hefðbundnum LED-snertiskjám getur valdið þreytu hjá lesandanum og sýna rannsóknir að of mikil skjábirta fyrir svefn geti komið í veg fyrir framleiðslu heilans á mikilvægum svefnhormónum. Því er ekki að skipta með E-Ink-skjái og því er síðri hætta á þreytu við lestur í myrkri þegar baklýsingin er notuð.

Margmiðlun og leikir

Þeir sem eru að leita eftir margmiðlunarvirkni eða leikjastuðningi í Kobo Aura 2 verða eflaust fyrir vonbrigðum enda er enginn slíkur stuðningur í lesbrettinu. Þetta er líka lesbretti, hugsað sem staðgengill fyrir bók. Ef þú getur spilað YouTube-video og farið í Angry Birds í nýjustu bókinni eftir Arnald Indriðason, þá hefurðu kannski eitthvað til að kvarta yfir við framleiðendur Kobo en þangað til þá munu hefðbundin lesbretti með E-Ink-skjá ekki fara að eltast við framleiðendur á borð við Samsung og Apple þegar það kemur að margmiðlunarvirkni.

Hugbúnaður og samvirkni

Þegar bókaumhverfi Kobo-lesbrettana er skoðað þá vekur það upp nokkrar spurningar. Það skal ekki dregin dula yfir það að Kobo bókalagerinn er umtalsvert stór og að þeirra sögn eru yfir 5 milljónir rafbóka í boði. Hinsvegar er ekki um margar íslenskar bækur að ræða sem eru þar í boði og í langflestum tilfellum eru bækurnar einungis í boði á þýsku. Í samanburði við bókaúrval Amazon fyrir Kindle-lesbrettin þá eru í langflestum tilfellum um enskar útgáfur að ræða og þónokkuð um íslenskar bækur. Kosturinn við að vera með nettengt lesbretti er að hægt er að hlaða niður rafbókum beint í lesbrettið án þess að tengja það við tölvu. Hinsvegar þá er það tiltölulega einfalt að tengja Kobo Aura 2 við tölvu og flytja bækur yfir í hana. Sem dæmi þá er hægt með einföldum hætti að kaupa rafbækur af öðrum framleiðendum og flytja þær yfir í Kobo Aura 2. Slík aðgerð tekur yfirleitt nokkrar mínútur, frá því að rafbókin er keypt og þar til búið er að flytja hana yfir. Stóra spurningin í þessu er þá einfaldlega hvor leiðin sé hentugri fyrir mann. Það veltur allt á því hvernig aðgengi maður hefur til þess að standa í því að flytja efni yfir á lesbrettið sjálft. Einnig þá hefði verið ágætt ef það hefði verið stuðningur við hljóðbókalestur í Kobo Aura 2 en að sama skapi þá er slíkur stuðningur aðgengilegur í gegnum hvaða snjalltæki sem er.

Niðurstaða

Það er ekki laust við að eftir að hafa notað Kobo Aura 2 í dágóðan tíma að það séu blendnar tilfinningar hjá manni gagnvart þessu lesbretti.

Kobo Aura 2 er í senn einstaklega öflugt og þægilegt lesbretti sem hentar vel til aflestrar við hefðbundna dagsbirtu og ekki skemmir að hafa þægilegt bakljós sem lýsir upp skjáinn þegar dagsbirtunni sleppir.

Á móti þá má alveg setja spurningamerki við efnisveitu Kobo og hvort að hún sé í raun og veru að standa undir væntingum fyrir enskumælandi lesendur. Þrátt fyrir fjögurra ára kennslu í þýsku á menntaskólastigi þá myndi undirritaður ekki treysta sér í að kaupa sér bók á þýsku og lesa hana þannig að fullur skilningur sé til staðar. Flestar af þeim bókum sem eru í boði hjá Kobo eru á þýsku og er það í raun hending hvort að það sé hægt að nálgast nýjustu bókatitla sem koma út hjá Kobo á ensku. Sem dæmi þá hefur Kobo hætt að bjóða upp á tímaritaáskriftir í gegnum efnisveituna sína þannig að illmögulegt er að nálgast stafrænar tímaritaáskriftir beint í Kobo lesbrettið sitt.

Hinsvegar þá snýst þetta á endanum um hvort að lesbrettið eigi að vera þungamiðjan í að nálgast efnið sjálft eða hvort beita eigi hefðbundnum aðferðum við að flytja efni í lesbrettið líkt og flestir notendur kannast við þegar verið er að flytja t.d. tónlist yfir í tónlistarspilara. Ef notendur eru tilbúnir að tengja lesbrettið sitt við tölvu og flytja PDF-skrár, rafbækur og fleiri yfir í brettið þá er Kobo Aura 2 virkilega öflugur liðsfélagi sem fer vel í hendi og heldur vel utan um allt lesefnið sem hægt er að hafa í einu lesbretti.

Í samanburði við önnur lesbretti þá er Kobo Aura 2 að keppa við önnur lesbretti sem eru á miðlungsmarkaðnum (mid-tier) og koma þá inn samskonar lesbretti eins og Kindle Paperwhite frá Amazon. Þegar sá samanburður er tekinn þá má alveg velta fyrir sér hvort að verðið á Kobo Aura 2 sé i hærri kantinum. Rökin síðan með Kobo Aura 2 er að hægt er að setja hvaða textaskrá sem er inn á lesbrettið og lesa í þar í toppgæðum. Það hefði auðvitað verið gaman að hafa hljóðbókastuðning en það er og mun ekki vera neinn ‘dealbreaker’ þegar horft er á grunnvirkni Kobo Aura 2 sem öflugt og gott lesbretti.

Það er því alveg óhætt að mæla með Kobo Aura 2 sem öflugu lesbretti sem fer vel með augun í manni og endist talsvert lengi í almennum lestri þegar það kemur að rafhlöðuendingunni. Nú er bara að bíða eftir því að sjálffljúgandi bílarnar komi á markað svo hægt sé að halla sér aftur í bílnum og lesa í rólegheitunum í umferðinni.

*Uppfært*

Við fengum ábendingu frá áhugasömum Kobo-notanda sem benti okkur á að væntanlega er útgáfa 4.10 á stýrikerfinu fyrir Kobo Aura 2 þar sem m.a. er opnað fyrir virkni sem nefnist Overdrive. Í gegnum Overdrive mun m.a. opnast aðgangur að m.a. að Borgarbókasafninu hér á Íslandi sem og öðrum 30.000 bókasöfnum víða um heim. Vegna þessarar ábendingar þá finnst okkur rétt að endurskoða einkunnargjöfina okkar fyrir bókahlutann og hækka stigagjöfina um tvo punkta.

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira