Heim ÝmislegtAndroid Nokia 5 umfjöllun

Fyrir nokkrum vikum síðan var Nokia 3 kynntur til leiks hérlendis. Markar þetta endurkomu Nokia-vörumerkisins á farsímamarkaðinn og ef marka má viðbrögðin þá voru greinilega margir að bíða eftir þessu „comeback-i“. Þetta var hinsvegar rétt aðeins byrjunin því nú er Nokia 5 komin til landsins og höfum við á Lappari.com fengið eitt slíkt tæki í hendurnar til þess að spreyta okkur á.

Þeir sem þekkja Nokia-síma og voru með slíka síma á gullaldarárum fyrirtækisins í GSM-framleiðslu ættu að kannast vel við handbragðið þegar Nokia 5 er handleikinn. Minnir ytra byrði símans á Nokia N8 sem olli talsverðum straumhvörfum á snjallsímamarkaðnum þegar hann kom í sölu haustið 2010. Það var fyrsti síminn frá Nokia sem var smíðaður úr heilli álskel og það er því skemmtileg tenging þarna milli þessara tveggja síma hvað varðar hönnunina. Nokia 5 fer vel í hendi og áláferðin á símanum fær mann til að halda að hér sé á ferðinni háklassa sími sem stendur fyrir sínu. Í raun þarf ekkert að halda það því Nokia 5 er að skila talsvert öflugri og góðri upplifun á verði sem varla hefur sést hér á landi í langan tíma.

Nokia 5

Þegar Nokia 5 er handleikinn í fyrsta sinn þá kemur sannarlega upp nostalgíu-tilfinning fyrir gamla Nokia-notendur enda svipar ytra byrði Nokia 5 til margra af frægustu Nokia-snjallasímanna fyrr og síðar.

 

 

Nokia 5 er aðeins stærri en Nokia 3 þar sem hann er með 5,2 tommu skjá. Að auki er rafhlaðan ívið stærri en í Nokia 3, sem kemur sér vel þar sem örgjörvinn í Nokia 5 er talsvert öflugri en í Nokia 3.

Nokia 5 keyrir líkt og meðbræður sínir, Nokia 3 og Nokia 6, á Android 7.1.1, betur þekkt sem Nougat-útgáfan af Android. Upplifunin á Android-stýrikerfinu er talsvert góð í Nokia 5 og greinilegt að Snapdragon-örgjörvinn sem kemur í Nokia 5 er að vinna vinnuna sína.

Hönnun og vélbúnaður

Það fer ekkert á milli mála að Nokia 5 var hannaður með gæði og notagildi í huga. Fögur álskelin utan um símann fer vel í hönd og þrátt fyrir hið hefðbundna ‚snjallsímaútlit‘ sem margir hverjir eru orðnir þreyttir á að þá kemur Nokia 5 vel út.

Eins og með Nokia 3 þá er Nokia 5 með þrjá takka á hliðinni; tveir takkar sem þjóna þeim tilgangi að annaðhvort hækka eða lækka hljóðstyrk símans og svo er þar fyrir neðan á hægri hliðinni fjölnotatakki sem nýtist við að kveikja eða slökkva á símanum, aflæsa skjálæsingu eða með því að tvíýta og ræsa þar með myndavélina.

Nokia 5 er síðan með fingrafaraskanna sem er innbyggður í miðjutakkann neðst á símanum. Þetta er án efa kærkomið fyrir þá sem eru farnir að stóla á þetta sem sína auðkenningu inn í sitt símtæki og í prófunum hefur þessi skanni virkað hnökralaust og án vandræða. Hægt er að nota fingrafaraskannann til þess að opna símtækið þegar það er læst eða til þess að auðkenna sig t.d. inn í Play Store til þess að staðfesta kaup á forriti eða niðurhal.

Nokia 5 er ekki með sérstakan myndavélatakka neðarlega á hægri hliðinni til þess að koma myndavélinni í gang en það er hinsvegar auðvelt með áðurnefndu tvíýti eða með því að virkja myndavélina af biðskjá símans með einföldum hætti. Myndavél er mjög snögg í gang og hægt að smella strax af myndum á augabragði.

Líkt og í Nokia 3 þá er Nokia 5 með minniskortarauf ásamt því að vera með Dual SIM-virkni þannig að hægt er að hafa tvö SIM-kort í símanum án vandræða.

Nokia 5 kemur vel út úr viðmiðunarprófum AnTuTu og er niðurstaðan þar að leikjavinnsla sé í meðallagi og að almenn vinnsla sé í takt við síma sem eru í hærri kantinum sem ráða vel við stór forrit og sem og vinnslu margra forrita í einu.

Helstu eiginleikar:

  • Símkerfisvirkni; GSM / HSPA / LTE. 4G á 700/800/850/900/1800/2100/2300 og 2600 MHz
  • Skjár; 5,2 tommur, IPS LED, 16M litir, 720 x 1280 díla upplausn (282 PPD)
  • Örgjörvi; Qualcomm MSM8937 Snapdragon 430, 1,4 GHZ fjórkjarna Cortex-A53 með Adreno 505-skjástýringu
  • Minni; 2GB vinnsluminni, 16GB geymsluminni ásamt microSD-kortarauf sem styður allt að 256GB
  • Myndavél; 13 MP, DUAL LED-flass með autofocus. Selfie-myndavél; 8MP með autofocus. Myndskeiðsupptaka í 1080P@30FPS.
  • Aðrir þættir; FM-útvarp, Bluetooth 4.0, NFC, GPS og Wifi með 801.11 b/g/n
  • Stærðir; 149,7 x 72,5 x 8 mm. Þyngd; 160 gr.

Tengimöguleikar

Líkt og Nokia 3 þá er Nokia 5 með microUSB-tengi fyrir gagnatengingu og hleðslu og ætti því að vera hentug búbót fyrir þá sem eiga eldri microUSB-hleðslutæki að geta nýtt þau áfram. Einnig styður Nokia 3 Bluetooth 4.0-staðalinn og ætti því að vera brúkfær fyrir flestan handfrjálsan búnað sem og þráðlausa Bluetooth-hátalara. Einnig styður Nokia 3 hefðbundna Wi-Fi-staðla ásamt því að vera með möguleikann á að breyta sér í ‚heitan reit‘ þannig að önnur tæki geti þá tengst við símann í gegnum Wifi.

Í hefðbundinni daglegri notkun heldur Nokia 5 góðu gagnasambandi, hvort sem það er í gegnum símkerfið eða á þráðlausu neti og engir teljanlegir hnökrar voru í slíkri vinnslu á meðan prófanir stóðu yfir.

Einnig er ánægjulegt að sjá innbyggt FM-útvarp og FM-virkni þannig að hægt er að hlusta á hefðbundnar FM-útsendingar víðs vegar um land. FM-útvarpsvirkni var eitt af því helsta sem Nokia státaði af á sínum tíma og voru margir notendur sem nýttu sér þá virkni og gleður því eflaust marga að sjá slíkt aftur í Nokia-síma.

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlaðan er 3000 milliampstundir (mAh) og í daglegri notkun sem felur í sér notkun á Facebook, Snapchat, vafri um nokkrar fréttasíður, tölvupóstsendingar og stöku leikjanotkun þá er um 25% eftir af rafhlöðunni að kvöldi til þegar maður setur símann í hleðslu.

Með takmarkaðri notkun sem myndi einskorðast við hefðbundna símvirkni eins og símtöl og SMS-skeytasendingar þá ætti ekki að vera neitt mál að ná rafhlöðuendingunni upp í tvo daga og ánægjulegt að sjá símtæki sem maður er ekki lentur í rafhlöðuveseni með kortér fyrir drekkutíma.

Munurinn hinsvegar á Nokia 5 og Nokia 3 er að þegar maður ræsir upp Nokia 5 í fyrsta skiptið þá kemur sjálfvalið að hafa stýrikerfið á íslensku. Google hefur verið að betrumbæta íslensku þýðinguna á Android-stýrikerfinu og segja má að hún sé svo gott sem komin á par við það sem þekktist áður í Symbian-stýrikerfinu sem og S40-stýrikerfinu sem Nokia notaði á sínum eldri símum á sínum tíma.

Hljóð og mynd

Nokia 5 er með skýran og góðan skjá þó svo að hann sé ekki í FullHD-upplausn. Hinsvegar ræður Nokia 5 vel við streymivinnslu líkt og hjá Netflix, YouTube og afspilun á myndskeiðum í Facebook-smáforritinu. Þrátt fyrir að Nokia 5 sé ‚einungis með 2GB‘ vinnsluminni þá er minna um hökt og tafir í streymi og augljóst að Snapdragon-örgjörvinn er að sinna sinni vinnu vel þegar maður er að láta Nokia 5 finna vel fyrir álaginu.

Hljóð er skýrt og gott en það er einungis einn hátalari á Nokia 5 sem er staðsettur á botninum hægra megin við hleðslutengið.

Myndavél

Nokia hefur haft það orðspor af sér, allt frá því að fyrstu snjallsímarnir fóru í fjöldaframleiðslu, að bjóða upp á öfluga myndavélavirkni, óháð öðrum íhlutum eða gæðum hvers síma fyrir sig, í hvaða verðflokki sem er. Nokia 5 er með 13 megapixla myndavél og ræður vel við þá upplausn enda eru myndirnar sem koma úr símanum kristaltærar. Einnig er hægt að ræsa myndavélina annaðhvort af biðskjánum eða með því að tvíýta á valmyndartakkann á hliðinni á símanum.

Það tekur myndavélina einungis örfá sekúndubrot að ræsa sig og er myndavélin snögg að ná fókus á myndaefni og smella af myndum. Fjölmargir valmöguleikar eru í myndavélinni eins og möguleiki á að merkja myndir með GPS-staðsetningu, í hvaða átt myndaefnið er, sjálfvirku hallamáli til að tryggja að sjóndeildarhringurinn sé jafn í landslagsmyndatöku og margt fleira. Myndavélaforritið í Nokia 5 er sérstakt app sem Nokia hefur þróað og hannað og er þetta því eina frávikið frá Android-stýrikerfinu sem Nokia 5 keyrir á en síminn er annars með stock-útgáfuna af Android 7.1.1. Þetta eru ánægjulegar fréttir enda kannast margir Nokia-notendur við, sérstkalega þeir sem notuðu Lumia-símana grimmt á sínum tíma, að Nokia hefur í gegnum tíðina boðið upp á virkilega góð forrit fyrir myndavélavirknina í sínum símum.

Hér fyrir neðan má sjá mynd sem tekin var með Nokia 5 af Nokia 3:

Nokia 5 sample

Margmiðlun og leikir

Hin títtnefnda örgjörvauppfærsla á Nokia 5 í samanburði við Nokia 3 skilar sér í allri margmiðlunarvirkni símans. Það er mun betri vinnsla á öllu sem kallast streymi þegar það kemur að Nokia 5 og er t.a.m. mun auðveldara að keyra þyngri og vélbúnaðarfrekari leiki í Nokia 5.

Eins þá er mun auðveldara að skipta á milli virkra forrita í Nokia 5 og því er það ekki eins mikið tiltökumál að passa sig á hversu mörg forrit eru opin í símanum hverju sinni.

Auðvelt er að taka myndir á Nokia 5 og hefur Google gert góða hluti í að uppfæra hið sjálfvalda myndavélaforrit sem fylgir Android 7. Það tekur símann einungis örfá sekúndubrot að koma myndavélinni í gang og hægt er að smella af um leið og það er komið fyrir framan fingurna hjá manni.

Hugbúnaður og samvirkni

Líkt og með flest alla snjallsíma sem keyra á Android-stýrikerfinu þá er aragrúi af smáforritum sem notendur geta sett upp á sínum símum og þannig sérsniðið símtækið að sinni daglegu notkun. Nokia 5 keyrir á ‚stock‘-útgáfu af Android-stýrikerfinu. Í stuttu máli þýðir það einfaldlega að Nokia 5 keyrir á Android-stýrikerfinu eins og það kemur beint frá Google. Það er því enginn viðbótahugbúnaður merktur Nokia í þessum síma og því er ekki verið að íþyngja símanum með einhverjum sérsniðnum hugbúnaði eða valmynd sem í mörgum tilfellum hefur verið þess valdandi að hægja umtalsvert á virkni símans til lengri tíma.

Í þessum prófunum var Nokia 5 uppsettur með Microsoft Outlook-hugbúnaðinum varðandi samstillingu á tölvupósti. Tveir aðgangar voru samtímis í gangi og voru engir hnökrar á vinnslu símans og allur tölvupóstur skilaði sér án vandræða.

Hægt er að tengja Nokia 5 við tölvu með microUSB-snúru og ná þannig að hlaða gögnum beint af símanum eða setja frekari gögn inn á símann.

Líkt og flest önnur hugbúnaðarfyrirtæki sem einblína á snjallsímamarkaðinn þá hefur Google í boði margskonar samstillingarforrit til að flytja gögn til og frá snjallsímum með Android-stýrikerfinu. Nokia 5 er engin undantekning þar og í raun eru skilaboðin einföld; ef þú ert að nýta þér einhverja Google-þjónustu í dag, þá hentar Nokia 3 sem og aðrir Nokia Android-símar mjög vel fyrir slíka vinnslu þar sem þeir eru að keyra á ómengaðri útgáfu af Android-stýrikerfinu.

Niðurstaða

Þegar HMD kynnti nýju Nokia-línuna frá sér fyrr á þessu ári þá var ef til vill álit margra að Nokia 5 væri svona einskonar óþekkt stærð í línu þar sem Nokia 3 er klárlega ódýra týpan, Nokia 6 er öfluga miðju-tækið og svo líklega kæmi Nokia 8 seinna á árinu sem hið sannanlega flaggskip. Eftir þessar prófanir þá er ljóst að Nokia 5 er öflugur valkostur við hlið Nokia 3 fyrir þá sem eru að leita sér að öflugu tæki á góðu verði sem fer langt með að bjóða upp á það sem öll öflug miðlungstæki eru með í boði í dag.

Helsti munurinn á Nokia 5 í samanburði við Nokia 3 er að Nokia 5 með öflugri örgjörva sem og fingrafaraskanna ásamt því að vera með betri myndavél. Miðað við þann mun sem maður finnur í notkun á þessum tækjum þá er Nokia 5 mjög aðlaðandi valkostur fyrir þá sem vilja ekki endilega tæma budduna þegar það kemur að símakaupum en vilja fá öflugt og gott tæki.

Það skal þó ekki dregið úr vægi Nokia 3 sem eins og kom fram í prófunum okkar að þá er þetta krónu fyrir krónu einn besti síminn á markaðnum í dag. Hinsvegar þá setur Nokia 5 ákveðin valkvíða í huga snjallsímanotenda því fyrir örfáa þúsundkalla í viðbót þá er verið að fá talsvert meira fyrir peninginn.

Það hefði verið áhugavert að sjá Nokia 5 með FullHD-skjá en svo má hreinlega velta því fyrir sér hver sé þörfin fyrir slíkan ‚munað‘ í daglegri vinnslu.

Nokia 5 er án efa einn af betri Android-símunum á markaðnum í dag. Hér er ekkert verið að vaða í einhverju veseni; Android-stýrikerfið, hreint og ómengað, með frábærri myndavél, góðum fingrafaraskanna og öflugum örgjörva. Það er því óhætt að mæla með þessum síma fyrir þá sem eru að leita sér að góðu Android-snjalltæki á viðráðanlegu verði.

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira