Heim ÝmislegtApple Apple kynnir Apple iPhone 8 og iPhone X

Apple kynnir Apple iPhone 8 og iPhone X

eftir Magnús Viðar Skúlason

Apple hélt sína árlegu iPhone-kynningu 12. september 2017 og eins og við var að búast þá var ýmislegt áhugavert sem Apple svipti loksins hulunni af.

Hæst ber að nefna hinn margumtalaða iPhone X sem þrálátur orðrómur hefur verið um undanfarna mánuði. Eins og marga grunaði þá hefur Apple tekið í burtu valmyndatakkann á iPhone X og er síminn í rauninni einn stór skjár án nokkurra vélbúnaðar- né hugbúnaðartakka að framan, líkt og var á Nokia N9 sem Nokia sendi frá sér árið 2011.

Þar sem iPhone X er ekki með fingrafaraskanna þá hefur Apple hannað og þróað nýstárlega andlitsauðkenningu sem að þeirra sögn er mun framúrstefnulegri en það sem hefur sést á markaðnum til þessa.

Skjárinn er 5,8 tommur að stærð þökk sé því að Apple skilur engan kant eftir framan á iPhone X þannig að skjárinn þekur alla framhliðina. Upplausnin er 1125 x 2436 dílar (458 PPD). Myndavélin að framan er síðan kafli útaf fyrir sig en hún virkar svipað og Kinect-myndavélin frá Microsoft sem er í boði fyrir Xbox-leikjatölvuna. Myndavélin nemur hreyfingar og andlit viðkomandi sem er hugsað til þess að aflæsa símanum og er þar af leiðandi ekki bara að taka mynd af þér heldur líka að greina andlitið niður í þaula.

Apple kynnti einnig til sögunnar iPhone 8 og iPhone 8 Plus sem eru í raun hefðbundnar uppfærslur á iPhone 7 og iPhone 7 Plus. Engar stórkostlegar breytingar eru á ferðinni þegar vélbúnaðurinn er borinn saman við 7-línuna frá Apple en þó ber að nefna að Apple hefur betrumbætt myndflöguna í myndavélinni og er hönnunin á hinum uppfærðu símum nú þannig að nú er gler á bakhlið símanna, líkt og á iPhone X og álrammi í kringum símana. Að sögn Apple er þetta það sterkasta gler sem sést hefur á snjallsíma til þessa.

iPhone 8-línan mun verða fáanlega frá Apple seinna í þessum mánuði en þeir sem eru að bíða eftir iPhone X munu þurfa að bíða fram í nóvember eftir því að fá slíkt tæki. Einungis verður hægt að fá 8-línuna í 64 eða 256GB stærðum en iPhone X verður í boði með 64 eða 256GB geymsluminni. Búast má við því að iPhone X verði fyrsti iPhone-síminn sem kosti meira en 200.000 kr. hérlendis en áhugavert verður að sjá hvernig eftirspurnin verður eftir þessu tæki.

Örgjörvinn í nýju línunni er líka uppfærður og ber heitið A11 Bionic og mun það vera sexkjarna örgjörvi sem er þar í boði. Líkt og fyrr þá gefur Apple lítið upp um hina raunverulegu getu vélbúnaðarins sem er í nýju iPhone-símunum en miðað við prófanir á fyrri tækjum þá ætti þessi útgáfa að vera á pari við það sem sést í betri flaggskipum í dag.

Nýju iPhone-símarnir eru nú í fyrsta sinn í boði með þráðlausa hleðslu sem Apple nefnir AirPower en er í raun byggt á Qi-staðlinum, líkt og Nokia Lumia 920 bauð upp á árið 2012 og virðist sem að Qi-staðallinn verði nú allsráðandi á þráðlausa hleðslumarkaðnum.

Apple tók sérstaklega fram að iPhone X er viðhafnarútgáfa á iPhone-símanum í tilefni af 10 ára afmæli iPhone og er því X-ið borið fram sem tölustafurinn 10. Vekur þetta upp spurningar um hvort að Apple sé þá með þessu að sleppa alfarið iPhone 9 eða hvort hann muni líta dagsins ljós á næsta ári? Minnir þetta óneitanlega á markaðssetningu Microsoft á Windows 10-stýrikerfinu en eins og frægt er þá hoppaði Microsoft frá Windows 8 til Windows 10 og sleppti þar með 9-unni þarna á milli.

Apple kynnti einnig þriðju kynslóð sína af Apple Watch en það sem vekur athygli þar er að nú er hægt að vera með SIM-kort í Apple Watch og getur því úrið verið alveg frístandandi frá iPhone-símanum hvað varðar gagnaflutning eins og t.d. að streyma tónlist o.s.frv. Það vekur því upp áleitnar spurningar um hvernig Apple sér fyrir sér þróunina á snjallúrum sem fram til þessa hafa stólað á samspil úrsins og símans við að miðla gögnum og halda sér í gagnasambandi ef þörf er á.

Að lokum má síðan nefna Apple TV sem hefur slegið í gegn hjá Apple en nýjasta útgáfan er komin með stuðning við 4K-upplausn og mun Apple bjóða í framhaldinu upp á 4K-efni í iTunes-veitunni sinni.

Heimild: GSM Arena

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira