IFA 2017-ráðstefnan stendur nú yfir og er það sá vettvangur sem margir margmiðlunarframleiðendur nýta til þess að kynna sínar bestu og flottustu tækninýjungar.
Western Digital, eigandi SanDisk, notaði tækifærið m.a. til þess að kynna nýjustu afurð sína í SDXC-línunni en þetta nýja minniskort er með heil 400GB í geymslu á bakvið sig.
Að sögn Western Digital þá munu snjalltækjanotendur víða um heim setja upp 150 milljarða forrita upp á snjalltækjunum sínum á þessu ári og er þetta viðleitni þeirra til þess að bregðast við þessum mikla forritafjölda með því að bjóða upp á stærri minniskort.
Búast má við því að hið 400GB-minniskort verði fáanlegt víða um heim á næstu vikum en hægt er að kaupa minniskortið nú þegar á heimasíðu SanDisk.
Heimild: GSM Arena