Heim LappariTV Rogue One – örumfjöllun

Rogue One – örumfjöllun

eftir Magnús Viðar Skúlason

Eins og dyggir og staðfastir lesendur Lappari.com vita þá er Star Wars-áhugi ritstjórnarinnar talsverður og þykir á köflum nokkuð ýktur..

Að sama skapi þá ætti það heldur ekki að hafa farið framhjá neinum að ný Star Wars-mynd var frumsýnd í síðustu viku sem ber heitið Rogue One. Þessi mynd þykir nýstárlega í útgáfusögu Star Wars-kvikmynda fyrir þær sakir að Rogue One telst ekki vera hluti af hinum upprunalega Star Wars-bálk þar sem myndirnar eru tölusettar í röð eftir því hvar þær passa inn í frásögnina af ævintýrum Skywalker-fjölskyldunnar og þeirra sem tengjast þeim með einum eða öðrum hætti.

Það var því nokkuð djörf ákvörðun hjá Disney, eiganda Lucasfilm, að fara í þessa vegferð en á móti þá hefur verið mikill áhugi og pressa frá aðdáaendum Star Wars að fleiri sögur verði kvikmyndaðar og að hægt yrði að skyggnast aðeins inn í Star Wars-heiminn betur og sjá hann með öðrum augum heldur verið hefur fram til þessa.

Það er því hægt með nokkurri öryggi hægt að fullyrða að Rogue One hittir í mark hvað þetta varðar. Þrátt fyrir að ekki hafi verið hefðbundin Star Wars-byrjun á Rogue One með gulum rennandi texta sem líður upp tjaldið þá hefst myndin með stórkostlegum senum sem teknar voru upp hér á landi og óhætt er að segja að hið séríslenska landslag sem og veðrátta fær að njóta sín til hins ýtrasta.

Sagan fjallar um Jyn Erso (Felicity Jones) og hvernig hún tengist með beinum hætti ráðagerð Keisaraveldisins um að klára uppbyggingu á sínu stærsta og ógnvænlegasta vopni til þessa, sjálft Helstirnið (Death Star). Ekki líður á löngu þar til Jyn ásamt fríðu föruneyti er komið á kaf í það verkefni að ráðast gegn stormsveitarmönnum Keisaraveldisins sem hefur náð heljartaki á alheiminum eftir atburðina í Episode III sem er flestum Star Wars-aðdáendum enn í fersku minni.

Rogue One hefst einmitt nokkrum árum eftir lok Episode III en Rogue One er einmitt hugsuð sem einskonar brú yfir í Episode IV en sú mynd fjallar einmitt um hvernig Uppreisnarliðum tekst að nýta sér teikningarnar af Helstirninu til þess að finna veikleika þess. Rogue One fjallar um atburðarrásina fram að því augnabliki sem að Uppreisnarliðar komast yfir þessar teikningar.

Óhætt er að segja að stríðsatriðin í Rogue One séu með því betra sem hefur sést í Star Wars-heiminum til þessa. Lokabardaginn sem gerist bæði á jörðu sem í geimnum er hreint augnayndi sem gleður augað sem og Star Wars-hjartað hjá dyggum aðdáaendum og ætti enginn að vera svikinn af því að fylgjast með X-vængjum Uppreisnarliðsins takast á við vígbúnað Keisaraveldisins.

Eins og þeir sem hafa séð stiklur og sýnishorn úr Rogue One þá ætti það að vera ljóst að sjálfur Svarthöfði mun láta sjá sig í þessari mynd. Án þess að skemma of mikið fyrir þeim sem eru hvað spenntastir fyrir sjálfum myrkrarhöfðingjanaum að þá er óhætt að segja að enginn ætti að verða svikinn af frammistöðu hans í myndinni.

Fleiri kunnugleg andlit koma fram í Rogue One og gefur það myndinni óneitanlega þann blæ að hún tengir vel við Episode IV og það umhverfi sem sú myndin gerist í.

Rogue One er þó ekki gallalaus og líkt og fyrri daginn þá verður seint sagt að samtal aðalleikenda í Star Wars-myndunum risti djúpt í bókmenntasögu samtímans. Eflaust hefði Rogue One notið góðs af aðeins betri vinnu i kringum handritið og án efa hefði verið hægt að sníða af nokkra þætti í myndinni til að tryggja hraðari og betri framgang sögunnar sjálfrar en slíkar athugasemdir falla þó klárlega í skuggann af hreint út sagt mögnuðum árásaratriðum sem og innkomu Svarthöfða í þessa sögu.

Eitt atriði stendur þó klárlega upp sem það sem betur hefði mátt fara og það er þrívíddin í myndinni sjálfri. Best hefði verið að sleppa henni alfarið enda eru fá atriði sem eru að njóta sín í þrívídd í Rogue One. Leikstjóri Rogue One, Gareth Edwards, gerir margt gott í þessari mynd en líkt og í fyrri mynd hans, Godzilla, þá hefði mátt sleppa þrívíddinni algjörlega og bætir hún litlu við bíóupplifunina í þessari mynd.

Rogue One nýtir efniviðinn sinn þó nokkuð vel og þykir þetta fyrsta skref í átt að kvikmynda hliðarsögur Star Wars-heimsins hafa tekist ágætlega. Greinarhöfundur gefur Rogue One vel harða 5 af 7 í einkunn og hvetur alla sem vettlingi valda og hafa áhuga á Star Wars að skella sér á Rogue One við tækifæri.

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira