Heim ÝmislegtAndroid Nokia snýr aftur á símamarkaðinn

Nokia snýr aftur á símamarkaðinn

eftir Magnús Viðar Skúlason

Núna í morgunsárið var formlega tilkynnt að Nokia símatæki munu snúa aftur í sölu.

 

Segja má að um stórfrétt sé að ræða því að með þessari tilkynningu frá Nokia er verið að bregðast við gríðarlegri pressu sem verið hefur á fyrirtækinu undanfarin misseri allt frá því að símahluti Nokia var seldur til Microsoft haustið 2013.

 

Samkvæmt fréttatilkynningu sem barst frá Nokia í morgun þá mun framleiðsla á Nokia farsímum, snjallsímum og spjaldtölvum fara af stað og mun það vera finnska fyrirtækið HMD sem mun sjá um framleiðslu, dreifingu, markaðssetningu og sölu á hinum nýju Nokia-tækjum. Nokia og HMD hafa gert með sér samning um að HMD megi nota Nokia-merkið sem og aðra fjarskiptatækni sem Nokia á og hefur nýtt áður í sinni framleiðslu gegn höfundaréttargreiðslum fyrir hvert selt símtæki. Ekki kemur fram hversu langur þessi samningur er en í fréttatilkynningunni er talað um að HMD muni sjá um þetta verkefni fyrir Nokia næsta áratuginn þannig að gera má ráð fyrir að samningurinn sé ekki styttri en 10 ár.

 

Í fréttatilkynningunni kemur fram að FIH Mobile Limited, eitt af dótturfyrirtækjum Foxconn í Kína (sem sér m.a. um framleiðslu á Apple-vörum) hafi keypt framleiðsluréttinn og annað tengt framleiðslu Microsoft á hefðbundnum farsímum og að FIH og HMD muni starfa saman í sameiginlegri kynningu og dreifingu á Nokia-merktum tækjum.

 

HMD mun starfa sem sjálfstætt fyrirtæki og tekið er sérstaklega fram að Nokia er ekki að setja fjármuni í HMD né mun Nokia eiga aðkomu að daglegum rekstri HMD öðruvísi en Nokia mun eiga einn fulltrúa í stjórn HMD til þess að framfylgja vörumerkjastefnu sinni og að unnið sé í samræmi við þá staðla. HMD hefur einnig staðfest að fyrirtækið muni setja 500 milljónir dollara í markaðsstarf og kynningu á hinni nýju Nokia-línunni næstu þrjú ár. Engin staðfesting hefur komið fram um hvaða stýrikerfi HMD mun nota á þessi Nokia-tæki en allar líkur eru á að Android-stýrikerfið verði notað og jafnvel með einhverskonar sérsniðinni valmynd frá HMD líkt og framleiðendur á borð við LG, Samsung, Sony og fleiri eru að gera í dag.

 

Áætlað er að þessi umskipti og flutningur á nauðsynlegum búnaði og deildum frá Microsoft yfir til HMD og FIH muni ljúka á seinni helmingi ársins en að því loknu þá mun Arto Nummela verða forstjóri HMD en hann er nú starfandi sem yfirmaður Microsoft Mobile í Asíu, Miðausturlöndum og Afríku. Ljóst er að fleiri yfirmenn innan Microsoft Mobile muni flytjast yfir HMD í þessum flutningum en þetta þykir styrkja þann orðróm að Microsoft sé að undirbúa innreið sína á símamarkaðinn undir merkjum Surface líkt og fyrirtækið hefur gert með spjaldtölvu og fartölvuframleiðslunni sína. Terry Myerson, yfirmaður tækjadeildar Microsoft, lét hafa eftir sér fyrir nokkru að Microsoft væri ekkert að gefa eftir á tækjamarkaðnum þannig að sú yfirlýsing rennir enn frekari stoðum undir að Microsoft sé með annað símtækjaútspil upp í erminni hjá sér.

 

Engar staðfestingar hafa komið um tækjaúrval né hvenær fyrstu Nokia-tækin verða aðgengileg í sölu en líklegt þykir að um leið og búið er að ganga frá allri pappírsvinnu gagnvart Microsoft á seinni hluta þessa árs þá muni hlutirnir gerast hratt og jafnvel að HMD sé að horfa á hinn vinsæla jólamarkað sem vettvang til að kynna eitt heitasta ‘comeback’ í tækniheiminum á þessari öld.

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira