Heim ÝmislegtAndroid BlackBerry kynnir Android-síma

BlackBerry kynnir Android-síma

eftir Magnús Viðar Skúlason

Hið óhugsanlega hefur gerst; BlackBerry hefur formlega kynnt til sögunnar nýjasta flaggskipið sitt í símaheiminum og keyrir símtækið á Android-stýrikerfinu.

Forstjóri BlackBerry, John Chen, kynnti nýjasta flaggskip BlackBerry á blaðamannafundi í dag. Síminn, sem nefnist BlackBerry Priv, er sleðasími og keyrir síminn á Android-stýrikerfinu ásamt því að vera með allt það besta frá BlackBerry þegar það kemur að öryggi og tryggum tölvupóstsamskiptum. Chen lét eftir sér hafa að BlackBerry Priv væri öruggasti Android-síminn á markaðnum í dag en lengi vel ríghélt BlackBerry í sitt eigið stýrikerfi einmitt með einum af sínum helstu rökum að þá væri öryggi notenda gulltryggt.

Android-stýrikerfið hefur ekki farið varhluta að gagnrýni undanfarin ár vegna öryggisleysis en þetta stærsta stýrikerfi á snjalltækjamarkaðnum í dag hefur einmitt náð þeirri yfirburðarstöðu af því stýrikerfið er opið og aðgengilegt öllum sem hafa annaðhvort áhuga á því að nota það í símtækjunum sínum eða þróa og hanna hugbúnað fyrir það.

Það er því nokkuð djörf yfirlýsing frá forstjóra BlackBerry að halda því fram að þetta sé öruggasti Android-síminn á markaðnum í dag en þar sem BlackBerry hefur verið þekkt fyrir gagnaöryggi um árabil þá má jafnvel segja að ákveðin vatnaskil séu þá að eiga sér stað varðandi Android-stýrikerfið og öryggisumræðuna í kringum það.

Chen sagði jafnframt að hann væri sannfærður um að BlackBerry ætti bjarta framtíð fyrir sér, þrátt fyrir 47% tekjutap milli ára. Hinsvegar þá er áfram aukning fjórða ársfjórðunginn í röð í nýskráningu notenda hjá BlackBerry og því verður áhugavert að sjá hvernig þeim muni ganga nú þegar þeir eru komnir um borð í Android-lestina.

Þrátt fyrir þessi vatnaskil þá hefur BlackBerry gefið það út að fyrirtækið muni áfram styðja við og styrkja BlackBerry 10-stýrikerfið sem hefur verið í notkun á snjalltækjum þeirra undanfarin ár og undirstrika jafnframt að til að tryggja hámarksöryggi þá er BlackBerry 10 enn sem komið er besta leiðin til þess.

Ekki fylgir sögunni hver eiginleikalýsingin er á BlackBerry Priv en staðfest hefur þó verið að símtækið muni koma í sölu fyrir lok þessa árs.

Heimild: Mobile World Live

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira