Heim ÝmislegtAndroid Stephen Elop hættur hjá Microsoft – áherslubreytingar komnar í fulla virkni?

Stephen Elop hættur hjá Microsoft – áherslubreytingar komnar í fulla virkni?

eftir Magnús Viðar Skúlason

Þær fregnir bárust í vikunni að breytingar hafi átt sér stað á starfsliði Microsoft og m.a. að sjálfur Stephen Elop, fyrrum forstjóri Nokia, sé farinn frá Microsoft.

Eins og kunnugt er þá tók Elop við stjórnartaumunum hjá Nokia haustið 2010 og töldu margir þá strax að Elop væri þar í líki ‘Tróju-hests’ en hann hafði áður starfað sem yfirmaður hjá Microsoft og m.a. borið ábyrgð á framþróun Office-pakkans þar á bæ.

Fljótlega fór að bera á breytingum innan Nokia og virtist sem að Elop væri að taka hressilega til innan stjórn- og boðleiðakerfisins innan Nokia sem hafði það orðspor á sér að vera þunglamalegt og svifaseint. Þrálátur orðrómur var á kreiki í kringum áramótin 2010/2011 þess efnis að MeeGo-stýrikerfið, sem Nokia og Intel höfðu byggt upp á grunni Linux-kjarna, yrði það stýrikerfi sem Nokia myndi veðja á til framtíðar og að Symbian-stýrikerfið yrði notað á millistór tæki og hægt bítandi myndi fjara út þar til MeeGo yrði allsráðandi. Á þessum tímapunkti var Nokia enn stærsti farsímaframleiðandi í heimi og Symbian-stýrikerfið var enn það vinsælasta og mest notaða í snjallsímum á þeim tíma.

Hinsvegar gerðust breytingar hratt og tilkynnt var um samstarf Nokia og Microsoft 11. febrúar 2011 þar sem gefið var út að Nokia myndi fara ‘all in’ með Windows Phone-stýrikerfið sem hafði verið kynnt formlega til sögunnar í október 2010.

Töldu margir að kunningsskapur Elop við þáverandi forstjóra Microsoft, Steve Ballmer, hefði skipt sköpum um að samningar hefðu náðst. Tilkynnt var um að fyrstu Nokia-símanir með Windows Phone-stýrikerfinu myndu koma haustið 2011 og voru Nokia Lumia 800 og Nokia Lumia 710 kynntir formlega á Nokia World 2011 í nóvember. Hinsvegar þá gerðist það í millitíðinni að hratt fjaraði undan sölu Nokia á snjallsímum og má segja að algjört frost hafi þá komið í sölu nýrra tækja frá Nokia hérlendis sem og víða um heim. Á sama tíma setti Samsung í fluggírinn og hafa óstaðfestar heimildir hermt að Samsung hafi varið á bilinu hálfum til heilum milljarði dollara í markaðssetningu á Samsung Galaxy S2 og fleiri Samsung-símum á lykilmörkuðum Nokia á þeim tíma.

Þrátt fyrir mjög hagstæðan samning sem Nokia gerði við Microsoft þá má í stuttu máli segja að í byrjun september 2013 var tilkynnt um kaup Microsoft á farsímahluta Nokia og varð Microsoft á þeim tíma að tækjaframleiðanda, hvort sem að fyrirtækinu líkaði það betur eða verr. Fjárhagsstaða Nokia þá var orðin það erfið að ljóst var þá að eina leiðin fyrir Microsoft til að halda lífi í Lumia-línunni sem var eina línan þá sem var að selja Windows Phone-síma að einhverju ráði var einfaldlega að kaupa framleiðsluna af Nokia.

Þá um haustið var leit Microsoft að nýjum forstjóra í fullum gangi en í ágúst 2013 hafði Ballmer tilkynnt um að hann myndi stíga niður úr forstjórastólnum. Stephen Elop var nefndur einn af hugsanlegum eftirmönnum hans en hann fylgdi með ásamt um 32.000 Nokia-starfsmönnum yfir til Microsoft í kaupunum. Hinsvegar féll starfið í hendur Satya Nadella, sem var þá yfirmaður tölvuþjóna- og skýlausna Microsoft. Skiljanlega voru áherslur Nadella á hugbúnaðarlausnir fremur en að einblína á vélbúnað og nú í vikunni kom sú stefna skýrt fram og Elop sem gerður var yfirmaður tækjaframleiðslu Microsoft er ekki lengur yfir þeim málum hjá Microsoft. Reyndar er orðalag tölvupóstsins sem Nadella sendi til starfsmanna Microsoft ekki ljóst með hvort að Elop hafi verið sagt upp eða hann ákveðið að halda á vit nýrra ævintýra (reyndar segja margir í gríni að Elop sé núna að leita að næsta fyrirtæki sem Microsoft getur tekið yfir).

Samkvæmt hinu nýja skipulagi sem Nadella kynnti starfsmönnum Microsoft þá verða þrjú svið sem munu halda utan um kjarnastarfssemi Microsoft; ský- og fyrirtækjalausnir, einstaklingslausnir, forrit og þjónustuleiðir og Windows-stýrikerfið ásamt tækjum sem keyra á Windows en þar falla undir Xbox, Surface-spjaldtölvur, Lumia-línan og HoloLens-lausnir.

Nadella staðfestir að tækjahlutinn muni verða fyrst og fremst til staðar til að sýna fram á það hversu megnugt Windows-stýrikerfið er á vélbúnaði og því má búast við að þau tæki sem Microsoft sendir frá sér verði viðmiðið sem Microsoft vill sjá á þeim tækjum sem keyra á Windows. Hinsvegar þá er verið að draga saman seglin varðandi tækjaframleiðsluna og má vera að Microsoft sé að setja meiri fókus á að samstarfsaðilar sínir sjái um framleiðsluna á t.d. snjalltækjum líkt og fyrirkomulagið er þegar það kemur að hefðbundnum borðtölvum og fartölvum.

Heimild: Wired

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira