Heim Föstudagsviðtalið Helga Dögg Björgvinsdóttir

Helga Dögg Björgvinsdóttir

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 40 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”,  harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

Í viðleittni okkar til að rétta af kynjakvótan hér á lappari.com þá fórum við á stúfana í leit að konu til að koma í föstudagsviðtalið enda hallar verulega á þær eins og staðan er í dag. Við byrjuðum og enduðum leitina hjá Microsoft á Íslandi enda fullkominn þáttakandi sem beð okkar það. Helga Dögg er nýlega byrjuð hjá Microsoft sem skrifstofu- og markaðsstjóri og því um að gera að leyfa lesendum okkar að kynnast henni aðeins.

 

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Helga Dögg Björgvinsdóttir, alveg að detta í fertugt, feministi, móðir þriggja barna, bollywood-dansari, bókmenntafræðingur og viðskiptafræðingur. Er fædd og uppalin í Reykjavík en á ættir að rekja vestur á firði og hef sterkar taugar þangað.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég vinn fyrir Microsoft á Íslandi og sinni þar fjölbreyttu starfi skrifstofu- og markaðsstjóra. Ég er tiltölulega nýkomin til Microsoft, búin að vera hér í rúma 4 mánuði en hef verið að sýsla við rekstur lítilla fyrirtækja undanfarin ár í allt öðrum bransa, var m.a. framkvæmdastjóri lítillar bókaútgáfu. Þar áður vann ég að markaðsmálum fyrir Opin kerfi þannig að það má segja að ég sé komin aftur heim hvað bransann varðar.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Það verður að segjast eins og er að fæstir tveir dagar eru eins í vinnunni, og það er auðvitað það sem gerir starfið skemmtilegt. Flestir dagar byrja þó á því að vakna, tékka á tölvupóstinum í Nokia Luma 1020 símanum, koma börnunum í skóla og leikskóla og koma sjálfri mér út í bíl og á skrifstofuna. Þar bíða mín fjölbreytt verkefni auk þess sem ég fer talsvert út úr húsi til að hitta samstarfsaðila Microsoft Íslandi og markaðsfólkið þeirra. Við erum í miklum samskiptum við aðra starfsmenn Microsoft um allan heim og oftar en ekki eru teknir nokkrir fjarfundir og þá kemur Lync hugbúnaðurinn mjög sterkur inn. Þessi frábæra lausn sparar fyrirtækinu gríðarlegar fjárhæðir í símakostnað svo ég tali nú ekki um ferðakostnað því það er varla ástæða lengur til að flakka um heiminn til að funda með fólki. Skrifstofustjórinn í mér er mjög ánægður með allt sem sparar fyrirtækinu peninga.
Að vinnudegi loknum sæki ég yfirleitt minnsta strákinn í leikskólann og hitti stóru börnin heima. Suma daga þarf að koma þeim á æfingar en aðra daga erum við heima. Ég er frekar háð því að fylgjast með tölvupóstinum og því er mjög gott að vera sítengd annaðhvort í gegnum símann eða Microsoft Surface spjaldtölvuna sem er oftast opin á eldhúsborðinu og gott að stökkva í hana á milli þess sem maður stússar eitthvað heima.

 

Lífsmottó?

Nota kristalsglösin hversdags! Lífið er of stutt og skemmtilegt til að vera að bíða alltaf eftir rétta tækifærinu til að njóta þess.

 

Hver er besti CEO sem Microsoft hefur haft (Gates, Balmer eða Nadella)?

Þeir eru auðvitað allir bestir! Hver á sinn hátt…  En ég er mjög hrifin af áherslubreytingunum sem eru að koma með Nadella og ég hlakka mikið til að vera þátttakandi í þeim breytingum sem verða hjá Microsoft næstu misserin. Ef lesendur eru forvitnir um Nadella mæli ég með að þeir kíkji á þessa upptöku af kappanum frá því í síðustu viku þar sem hann var að kynna áherslur Microsoft varðandi skýjalausnir og tæki.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?

Windows 8.1 – og get ekki beðið eftir uppfærslunni sem kemur 8. apríl. Fullt af allskonar skemmtilegu sem bætist við og gerir þetta frábæra stýrikerfi ennþá betra. Áhugasamir geta lesið um uppfærsluna hér.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Nokia Lumia 1020 fagurgulan

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Myndavélin er auðvitað alger snilld! En svo finnst mér líka frábært að vinna í sama umhverfi á símanum, fartölvunni og spjaldinu. Ég get náð í allt í gegnum símann sem er algerlega frábært. Guli liturinn er líka mikill kostur því ég finn hann alltaf í veskinu, alveg sama hversu mikið drasl er í því.

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Nei… sama hvað ég reyni að hugsa þá dettur mér ekkert í hug. Hann er bara ferlega góður.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Tölvupóstinn nota ég sennilega mest. Er bæði með vinnupóstinn og persónulega póstinn settann upp á símanum og nota hann gríðarlega mikið.
Facebook er sennilega mest notaða appið en ég nota líka Twitter og Instagram mikið á símanum – maður verður nú að fylgjast með!
Myndavélin er mikið notuð. Bæði til að skrásetja nánast hverja hreyfingu barnanna (algerlega nauðsynlegt að taka upp allar skólaskemmtanir og svoleiðis) og svo líka fyrir vinnuna. Það þarf að taka myndir á viðburðum og svo þegar ég er í skrifstofustjórahlutverkinu þá kemur myndavélin mjög oft að góðum notum.
Dagatalið í símanum er lífsnauðsynlegt. Síminn pípir korteri áður en ég á að mæta á fund og ef hann gerði það ekki þá myndi ég sennilega aldrei mæta neitt. Ef það er ekki í dagatalinu þá er það ekki að fara að gerast!
Símann! Ótrúlegt en satt þá nota ég símann til að hringja og geri bara talsvert af því.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Það var forláta Nokia 8110. Svona eins og var notaður í fyrstu Matrix myndinni. Útlitslega flottasti síminn sem ég hef átt enda geymi ég hann vel og vandlega á góðum stað.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Ég er ótrúlega ánægð með Nokia Lumia 1020 símann og myndi bara velja hann ef ég ætti hann ekki fyrir.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Elti frekar uppi efnið en sérstakar síður, en fer auðvitað alltaf reglulega inn á lappari.com

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Er ótrúlega glöð með Yammer grúppuna „Feminists at Microsoft“ sem ég er nýgengin í. Ef þið vitið ekki hvað Yammer er þá hvet ég ykkur til að skoða málið. Hægt að gera fullt skemmtilegt á Yammer – og líka gagnlegt.

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira