Heim Föstudagsviðtalið Trausti Sigurður Hilmisson

Trausti Sigurður Hilmisson

eftir Jón Ólafsson

 

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 35 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”,  harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

Viðmælandi okkar að þessu sinni er maður að nafni Trausti Sigurður sem flokkast í mínum huga sem “Twitter Legend” á Íslenskan mælikvarða. Eins og margir sem koma í viðtalið þá hef ég lengi fylgst með Trausta á Twitter en hann vel þekktur fyrir góða spretti þar. Sem dæmi hefur hann tekið að sér að tísta “Live” lýsingu á stórmyndum eins og Jurasic Park sem er sannarlega mun sniðugra en það hljómar svona eftirá.

Gefum Trausta orðið…

 

Hvert ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Trausti Sigurður Hilmisson og er 28/KK/RVK eins og við segjum á IRCinu… ennþá. Ég kem frá litlu þorpi fyrir norðan sem heitir Hauganes sem við innfæddu köllum gjarnan Las Haugas í höfuðið á syndabælinu í Ameríkuhreppi. Ég flutti fyrir rúmlega tveimur árum á flatlendið í von um betra líf í hinni saklausu Reykjavík. Í dag bý ég við hliðina á gistiskýli heimilislausra.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu ár?

Ég vinn sem markaðsráðgjafi á Hálendinu, vefmarkaðsstofa sem verið er að setja á laggirnar. Ég hef síðustu ár aðallega verið að mennta mig í markaðsfræði, bæði í grunnnámi og framhaldsnámi. Hef unnið ýmis konar störf í gegnum lífið eins og í fiski, sem flokkstjóri, safnvörður, í vínbúð, þrifum og sem sölumaður notaðra bíla.

Þessa stundina er ég að reyna að sameina tvö tískufyrirbrigði á Facebook sem er 100happydays og bjóráskorunin. Ég gæti þurft að flytja mig yfir götuna. Síðan er ég búinn að vera reyna að rækta líf mitt á Twitter í nokkur ár. Ég tel mig vera að uppskera erfiði og er í dag að blómstra.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ég vakna flesta daga. Dagurinn fer aðallega í það að aðstoða fyrirtæki við að ná árangri í markaðsstarfi sínu á netinu. Mikið kaffi. Nokkur tíst. Slökun um kvöldið yfir sjónvarpsefni eða jafnvel detta í nokkur símöt eða dyrat ef veður leyfir.

 

Lífsmottó?

Ég þarf að finna mér lífsmottó. Ég þarf líka að finna mér uppáhaldslit. Það er margt í lífinu sem ég þarf að bæta úr.

 

SSSól eða Sálin?

Einu sinni neitaði Helgi Björns mér um selfie með honum á Götubarnum fyrir norðan. Slíkt hugrekki verðskuldar að svarið sé SSSól.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?

OSX

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Sony Ericsson, já það er rétt Sony Ericsson ósnjallsíma.

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Frelsið. Að þurfa ekki að lifa lífinu í gegnum skjáinn.

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Að geta ekki lifað lífinu í gegnum skjáinn. Hann er líka að detta í sundur og það að N1 sendir mér flest SMS en ég er farinn að halda að það sé ekki bara símanum að kenna.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Vekjarklukkan
Snooze
Aftur vekjaraklukkan
Taka við SMS frá N1
Taka við SMS frá Nova um eitthvað tilboð sem ég hef aldrei nýtt mér.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Nokia 1520 var að lenda í OK Búðinni hann er alveg að heilla. iPhone og Samsung eru líka örugglega frábærir.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Fyrsti síminn minn var Nokia 6210. Sem var flottari sími en 5110 og 3210 sem flest allir aðrir áttu á Hauganesi. Mér leið eins og bissnessmanni með hann. Maður gat þó ekki skipt um front eins og aðrir en hins vegar var hægt að spila snake í two-player. Það var þó einungis einn vinur sem átti líka 6210 þannig að það nýttist ekki til fulls. Sjálfsagt tókum við 2-3 leiki.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Af íslenskum síðum er auðvitað lappari.com í fyrsta sæti. Það er gaman og aðdáunarvert þegar fólk sýnir ástríðu í sínum áhugamálum/störfum og miðlar því til almennings.

Eftir það er Tækni og vísindi á mbl.is, Simon.is og einstein.is. Á Flipboard í iPad er ég síðan með The Verge, CNET, Engadget, Mashable, Techcrunch o.sv.frv. Ég les þetta þó ekki daglega.

Ég horfi oftast á tæknina út frá markaðssetningargleraugunum, hvaða valmöguleikar eru í boði og hvaða leiðir er hægt að nýta í dag og í framtíðinni.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Já það er margt sem liggur á mér

Vil biðja vísindamenn að sleppa því að reyna að vekja risaeðlur til lífsins. Við sáum öll hvernig fór fyrir í heimildarmyndinni um Jurassic Park. Einbeitið ykkar að fljúgandi bílum frekar. Berum virðingu fyrir náttúrunni og kaupum beint frá híbýli en tökum þó vel á móti tækninýjungum eins og 4G-mjólkinni. Lifið heil án óheilinda. Reynið að sigra í lífinu því það er vont að kyngja tabi.

Ef ég hefði fengið spurninguna Duran Duran eða Wham þá hefði ég valið Duran Duran.

Já og ekki taka þessu viðtali of alvarlega

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira