Heim ÝmislegtSnjallúr Flest sem þú vildir vita um snjallúr en þorðir ekki að spyrja um

Flest sem þú vildir vita um snjallúr en þorðir ekki að spyrja um

eftir Magnús Viðar Skúlason

Ein af stærri tæknibyltingum snjalltækjavæðingarinnar undanfarin misseri eru snjallúr. Ekki var það samt þannig að snjallúrin hafi slegið strax í gegn og þau komu fyrst á markaðinn og má með sanni segja að enn sé ekki alveg komið á hreint hvaða tilgangi þau muni þjóna þegar fram í sækir.

Ef til vill er hægt að átta sig aðeins betur á því hvernig þróunin mun verða á næstu árum ef rýnt er í upphafið og það sem lagði grunninn að því sem hægt er að kalla snjallúr nútímans.

Eins ótrúlegt og það kann að hljóma þá eru til heimildir um armbandsúr alveg aftur til seinni hluta 16. aldarinnar. Á þeim tíma voru karlmenn með vasaúr en einungis kvenmenn voru með armbandsúr. Þessi úrakynjaskipting var að mestu leyti horfin í upphafi 19. aldar og fljótlega frá þeim tíma fór að aukast notkun armbandsúra og gamla góða vasaúrið var á hröðu undanhaldi.

Hver man ekki eftir Dick Tracy, rannsóknarlögreglunni í samnefndum teiknimyndasögum? Dick Tracy bjó yfir þeirri tækni að vera með talstöð innbyggða í armsbandsúrið sitt þannig að hann gat verið í samskiptum við samstarfsmenn sína á ferðinni. Ef til vill var þetta í fyrsta skiptið sem reynt var að útvíkka notagildi hins hefðbundna armbandsúr sem hafði fram að þeim tíma verið nokkuð einhæft. Svo má ekki gleyma njósnara hennar hátignar, 007, sem oftar en ekki var með áhugaverða virkni í sínu úri sem gat bjargað honum úr ýmsum vanda. Þó má gera ráð fyrir að slík úr geri lítið sem ekkert gagn fyrir hinn almenna borgara.

Hentug úr fyrir óhefðbundnari tíma

Á áttunda áratugnum fóru hinsvegar að koma fram á yfirborðið áhugaverð úr sem gerðu hinum almenna borgara kleift að nota armbandsúrið sitt í daglegri notkun fyrir eitthvað meira en bara að segja til um tímann. Casio setti þá á markað fyrstu tölvuúrin sín með innbyggðri reiknivél, skeiðklukku, vekjaraklukku og annarri áhugaverðri virkni sem ekki hafði sést áður í armbandsúri.

Casio-úr með reiknivél og Casio-úr með reiknivél og sjónvarpsfjarstýringu

Hinsvegar þá er alveg ljóst að snjallúr nútímans eiga lítið sem ekkert skylt við þá virkni sem hér hefur verið nefnd enda gera þau í mörgum tilfellum ráð fyrir því að þurfa að miðla sínum gögnum áfram í annað snjalltæki til frekari vinnslu. Fyrsta úrið sem var með slíka virkni kom fram á sjónarsviðið árið 1994. Timex Datalink-úrið var þeim kostum gætt að það gat tengt sig þráðlaust við hefðbundna PC-tölvu og gat samstillt upplýsingar úr dagatali og tengiliðaskrá við forrit sem hét þá Microsoft Schedule+ sem seinna meir varð að Microsoft Outlook.

Í kjölfarið fór af stað hægfara þróun á snjallúrinu sem náði ákveðnum tímamótum árið 2012 þegar Pebble fór af stað með fjáröflunarherferð á Kickstarter þar sem kynnt var til sögunnar snjallúr sem var með innbyggðum skynjurum sem gátu m.a. numið skref, hreyfingu og miðlað upplýsingum í gegnum Bluetooth-tengingu yfir í snjallsíma.

Pebble-úrið lagði því grunninn að þeirri þróun snjallúra sem við þekkjum hvað best í dag og í framhaldinu fóru mörg af stærstu fyrirtækum tækniiðnaðarins að einbeita sér að þessum markaði.

Hinsvegar var ekki alveg komið á hreint um hvaða markað var að ræða. Fyrstu útgáfur snjallúra voru með tiltölulega takmarkaða rafhlöðunotkun og erfitt var að sannfæra notendur um að skipta út hefðbundnu armbandsúri, sem var með rafhlöðuendingu sem mæld var í mánuðum eða árum eða jafnvel þurfti ekki rafhlöðu þar sem hægt var að trekkja þau upp, fyrir úr sem vissulega gat veitt áhugaverðar upplýsingar en stóð ef til vill illa undir aðalnotkuninni sem fólst í að segja manni hvað klukkan væri.

Þarna má í raun segja að kjarni vandans liggi varðandi snjallúramarkaðinn. Þróunin undanfarin ár var í takt við það sem mátti sjá á öðrum mörkuðum tengdum snjalltækninni; framleiðendur reyndu að toppa hvern annan þegar það kom að hönnun og notagildi á kostnað annarra mikilvægra þátta.

GPS-virkni, púlsmælir, skrefamæling, loftþrýstingsmælingar og margt fleira var hluti af því sem framleiðendur hafa reynt að koma í gagnið í snjallúrum. Jafnvel hafa sum snjallúr gengið það langt að reyna að miðla nánast öllum upplýsingum úr snjalltækinu yfir í snjallúrið.

Vandinn við þessa þróun er, líkt og með önnur snjalltæki, að reynt er að koma eins mikilli virkni fyrir eins og mögulegt er en áfram er byggt á rafhlöðutækni sem hefur lítið breyst síðastliðna tvo áratugi.

Fyrstu skrefin á snjallúramarkaðnum hafa því verið erfið fyrir marga framleiðendur en líkt og með flest á snjalltækjamarkaðnum í dag þá fór þessi markaður ekki á flug fyrr en Apple kynnti til sögunnar sitt snjallúr, Apple Watch, árið 2014. Apple Watch kom síðan í sölu vorið 2015 og fékk það, líkt og önnur snjallúr, gagnrýni á rafhlöðuendingu og var t.d. vandamál með ýmislegt í vélbúnaði úrsins.

Pebble-úrið og Apple Watch

Hinsvegar þá vakti Apple Watch gríðarlega athygli fyrir glæsilega hönnun og er það mat margra að með hönnuninni hafi Apple Watch náð að lifa á meðan unnið er við að bæta rafhlöðuendingu og ná fyrir önnur vandamál sem notendur kvarta yfir.

Sama ár kynnti Google til sögunnar Android Wear, sem var útgáfa af Android-stýrikerfinu sem hönnuð var sérstaklega fyrir minni tæki eins og t.d. snjallúr. Þar með var opnað fyrir möguleika framleiðenda á að geta komið með Android-knúin snjallúr.

Þó er það ekki endilega tekið út með sældinni þó að viðbrögðin séu góð þegar það kemur að snjallúrum.

Microsoft fór inn á þennan markað, öllum að óvörum, haustið 2014 þegar Microsoft Band var formlega kynnt til sögunnar. Hönnun Band var í átt við það sem aðrir höfðu verið með á markaðnum til þessa en það sem Microsoft reyndi að gera var að gera úrið eins sjálfstætt frá snjallsímanum og mögulegt var. Hægt var að stilla Microsoft Band að miklu leyti án aðkomu annarra tækja og var t.a.m. innbyggður GPS-móttakari og síðan seinna meira í Microsoft Band 2 innbyggður sólarmælir sem mældi útfjólubláa geislun og varaði notandann við ef sólin var að skína of sterkt. Einnig vakti Microsoft Band athygli fyrir verðið en það var talsvert ódýrara en önnur sambærileg snjallúr. Microsoft Band sendi síðan flest allar tilkynningar sem komu fram í snjallsímanum yfir í úrið sjálft. Margir notendur upplifðu þetta sem ákveðna byltingu þar sem hægt var að stýra í raun viðbrögðum sínum við áreiti snjallsímans beint úr snjallúrinu.

Microsoft Band sló í gegn og voru fyrstu sendingar uppseldar mjög hratt en þrátt fyrir þessar vinsældir þá voru þrálátar kvartanir undan því að armbandsólin, sem innihélt m.a. rafhlöðuna, ætti það til að fara í sundur. Þrátt fyrir fögur fyrirheit og endurbætta hönnun þegar Microsoft Band 2 kom út þá voru áfram vandamál með Band-úrin og líkt og með flest önnur snjallúr þá kvörtuðu notendur mest undan rafhlöðunotkuninni.

Microsoft Band 1 og 2

Microsoft tók síðan þá ákvörðun, tveimur árum eftir að fyrsta Microsoft Band-ið kom út, að hætta framleiðslu og frekari þróun á snjallúrum. Á þeim tímapunkti hafði einnig fjölgað mikið af ódýrum og einföldum snjallúrum frá Asíu þannig að samkeppnin var orðin enn harðari um athygli notenda og því sá Microsoft sæng sína útbreidda hvað varðar snjallúrin.

Þróunin að undanförnu hefur snúist að miklu leyti um hvaða upplýsingum er verið að safna um notkun og notandann sjálfan og hvernig þær upplýsingar eru notaðar. Hið hefðbundna snjallúr safnar gögnum um skref, jafnvel hjartslátt, hreyfingu almennt sem og um svefnvenjur. Það er því verið að safna á hverjum degi talsvert mikið af gögnum fyrir notendur þannig að hægt er að greina betur þau vandamál sem sumir eiga við að stríða eins og t.d. með erfiðan svefn, skort á hreyfingu o.s.frv.

Ef horft er á þessa grunnþætti þá mætti jafnvel skoða betur hverskonar snjallúr hentar fyrir þá notkun þá eru ýmsir valkostir á markaðnum í dag sem gætu hentað betur heldur en aðrir þegar það kemur að daglegri notkun.

Hægt er að skipta snjallúrum gróflega upp í tvo flokka. Annarsvegar þá eru það snjallúrin sem reyna að gefa eins mikið af upplýsingum frá sér og mögulegt er. Það eru þá snjallúr sem geta unnið nokkuð sjálfstætt ein og sér án beinnar aðkomu snjallsímans. Þetta eru úr sem safna GPS-upplýsingum, hæðamælingum, hjartslætti, skrefafjölda o.s.frv. á meðan t.d. æfing er í gangi eða einhver virkni utandyra. Oftar en ekki þá eru þetta snjallúr sem eru einungis með nokkra daga hleðslu í besta falli og því þurfa notendur að búa sig undir að vera með hleðslutækið klárt ef rafhlaðan fer að klárast um miðjan dag. Hinsvegar eru það síðan hin hefðbundnu snjallúr sem eru ef til vill bara að telja skref og mæla svefninn og gera lítið meira. Þetta eru snjallúr sem eiga meira sammerkt við hefðbundin sportbönd sem hafa verið í boði undanfarin ár þar sem er einungis safnað t.d. skrefafjölda þess sem er að nota úrið. Oftar en ekki þá er rafhlöðuendingin umtalsvert betri í einfaldari snjallúrunum.

Sem dæmi þá bauð franska fyrirtækið Withings, sem Nokia keypti fyrir nokkrum árum síðan og heita nú allar vörur frá Withings Nokia í dag, upp á einfalt snjallúr sem var með E-Ink-skjá, ekki ósvipað og er í einföldum lesbrettum. Úrið sem nefnist einfaldlega Nokia Go telur skref, mælir svefninn, segir hvaða klukkan er og ekkert meir. Gögnunum er síðan miðlað áfram í gegnum Bluetooth-tengingu yfir í snjallsímann og er þar sérstakt smáforrit sem sér síðan um allar stillingar og stýringar fyrir Nokia Go. Með því að nálgast hönnun snjallúrsins úr þessari átt þá er Nokia Go með 8 mánaða rafhlöðuendingu. Rafhlaðan sem er í Nokia Go er þunn CR-1232-rafhlaða, líkt og margir þekkja úr t.d. litlum rafkertum. Þessi nálgun hefur því gefið þeim notendum sem vilja leitast eftir því að fá lágmarksupplýsingar um hreyfingu sína beint í snjallsímann án þess að þurfa stöðugt að vera að hlaða úrið sitt þennan möguleika. Segja má að þessi hugmyndafræði skili sér síðan í öðru snjallúri frá Nokia sem heitir Nokia Steel HR. Þar hefur Nokia reynt að brúa bilið milli hins hefðbundna armsbandsúrs og snjallúrs en úrið er með litlum skjá sem sýnir tilkynningar úr snjallsímanum og er með innbyggðum púlsmæli. Rafhlaðan þar á bæ endist síðan í 3-4 vikur og er endurhlaðanleg.

Nokia Go og Nokia Steel HR

Eins og gefur að skilja þá er auðvelt fyrir þann sem ekki þekkir að gagnrýna snjallúr fyrir það eitt að það þurfi alltaf að setja það í hleðslu og að það sé talsverður óþarfi að troða allri þessari virkni í jafn einfaldan hlut og armbandsúr. Hinsvegar þekkja það flest allir og getur undirritaður vottað það, að um leið og maður fer að nota snjallúr, þá er maður mun meira meðvitaður um kyrrstöðu sína og þá hreyfingu sem maður skilar af sér á hverjum degi. Ef til vill hafa snjallúrin gert margt meira en marga grunar í að hvetja fólk til þess að hreyfa sig meira. Hver kannast ekki við þá sælutilfinningu að sjá snjallúrið tilkynna manni að maður hafi náð skrefamarkmiðum dagsins og sjálfkrafa leitast maður þá við að reyna að bæta þann árangur og gera betur.

Ef til vill er það kjarni málsins varðandi framtíð snjallúranna. Á meðan rafhlöðutæknin skilar ekki betri rafhlöðuendingu en það sem við þekkjum í dag þá væri það skynsamara fyrir framleiðendur að einblína á einfalda þætti sem vekja áhuga notenda varðandi þá virkni sem á að vera í snjallúrum. Síðan er ekkert við það að athuga þó að framleiðendur og notendur sækist eftir því að vera með öflug snjallúr sem ganga langt í því að skipta nánast símanum út fyrir mann en þá verða menn líka að sætta sig við að þurfa að hafa hleðslutækið reglulega við hlið sér.

Garmin GPS-úrin þykja orkufrek en Matrix Power Watch heldur sér gangandi á líkamshitanum

Heimildir: Wikipedia – saga armbandsúrsins

Heimildir: Wikipedia – saga snjallúrsins

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira