Heim ÝmislegtFréttir Blaðamannafundur hjá HMD Global: Nokia snýr aftur til Íslands!

Blaðamannafundur hjá HMD Global: Nokia snýr aftur til Íslands!

eftir Magnús Viðar Skúlason

Okkur hjá Lappari.com var boðið á blaðamannafund miðvikudaginn 26. september, í tilefni af því að Nokia 8 er formlega kominn í sölu á Íslandi. Ossi Korpela, yfirmaður HMD Global á Norðurlöndunum, bauð gesti velkomna og með í för var einvala lið sérfræðinga frá HMD Global sem voru til taks til að útskýra betur vöruframboð Nokia sem HMD hefur sent frá sér að undanförnu.

Blaðamannafundurinn var á óformlegu nótunum og notaði Korpela tækifærið til þess að dásama land og þjóð og að Ísland væri kjörinn vettvangur fyrir Nokia 8 og þá myndavélatækni sem sá sími býður upp á.

Kynningin hófst á því að undirstrikað var samstarf HMD Global við Nokia og hversu öflugt það er í raun og veru. HMD Global hefur aðgang að því sem kallast í daglegu tali ‚Intellectual Property Portfolio‘ hjá Nokia en það þýðir að HMD Global getur nýtt sér alla þá höfundaréttarvörðu tækni sem Nokia fann upp á meðan frægðarsól félagsins skein sem hæst á símtækjamarkaðnum. Hinsvegar þá hefur farið minna fyrir áherslum á samstarfi HMD Global við Foxconn, Google og Qualcomm en Korpela undirstrikaði að það sé ekki síðri þáttur í samstarfi HMD Global með Nokia-vörumerkið á fjarskiptamarkaðnum.


Með samstarfi HMD Global við Google þá er tryggt að þau Nokia-tæki sem eru í umferð hverju sinni fái aðgang að þeim nýjustu uppfærslum sem Android-stýrikerið býður upp á. Að auki þá hefur verið unnið ötullega að því að tryggja reglulegar öryggisuppfærslur á Android-stýrikerfinu og getur undirritaður vottað að tvær slíkar uppfærslur hafa borist í Nokia-símtækin sem hann hefur verið að nota undanfarnar vikur. Þetta samstarf leggur líka grunninn að því að Nokia-símtækin sem eru á markaðnum í dag muni að öllum líkindum verða fyrstu snjalltækin, fyrir utan auðvitað Google Pixel-tækin, sem munu fá Android Oreo eða Android 8-uppfærsluna þegar hún verður fáanleg.

Hvað varðar Foxconn og Qualcomm þá eru þetta þeir aðilar sem sjá HMD Global fyrir vélbúnaðinum sem knýr áfram hin nýju Nokia-snjalltæki. Foxconn hefur um árabil framleitt mikið magn af þeim snjalltækjum sem eru í umferð víða um heim í dag og Qualcomm hefur verið leiðandi á snjallörgjörva-markaðnum með Snapdragon-línuna og mun þetta samstarf tryggja aðgengi HMD Global að nýjustu vélbúnaðarnýjungum á markaðnum hverju sinni.

HMD Global er með höfuðstöðvar sínar í Finnlandi en hjá fyrirtækinu starfa á heimsvísu um 600 manns, þar af um 1/6 hópsins í Finnlandi og margir af þeim sem eru hjá HMD eru með fyrri reynslu sem starfsmenn hjá Nokia. Það er talsvert stökk fyrir farsímaframleiðanda á heimsvísu að fara úr rétt um 40.000 starfsmönnum niður í 600 en á móti þá er það mat Korpela að sveigjanleikinn sem því fylgir að vera með ‚einungis‘ 600 starfsmenn muni hjálpa gríðarlega mikið við að tryggja velgengni Nokia-vörumerkisins á nýjan leik á símamarkaðnum.

Á kynningunni kom það skýrt fram að helstu einkenni HMD Global fyrir Nokia-línuna eru gæði, einfaldleiki, stöðugleiki, einstök hönnun og mannleg einkenni séu þau grunngildi sem hin nýju Nokia-símtæki munu standa fyrir. Það var einkennandi fyrir gömlu Nokia-símtækin hvað oft á tíðum hin skandinavíska hönnun var ríkjandi í hönnun símtækjanna og fór Korpela ekki í felur með það að hann vildi sjá það gerast aftur með hina nýju línu af símtækjum frá Nokia.

Hvað varðar önnur vörumerki sem voru einkennandi við eldri Nokia-tæki eins og t.d. PureView-myndavélatæknin þá sagði Korpela að það væri stöðugt í skoðun hvaða skref HMD gæti tekið til þess að vekja aftur þann gríðarlega áhuga sem Nokia vakti með þeim tækninýjungum sem fyrirtækið stóð fyrir á sínum tíma. Við það tilefni minntist hann á samstarf HMD Global við Carl Zeiss en eins og flestir vita þá áttu Nokia og Carl Zeiss í mjög nánu samstarfi hvað varðar linsuhönnun fyrir þær myndavélar sem Nokia notaði í sína eldri myndavélasíma. Nokia 8 er fyrsti síminn frá HMD Global sem er með Carl Zeiss-linsu og mun það samstarf því halda áfram.

Hvað varðar þá einkennandi tækni sem má finna í Nokia 8 þá er það myndavélin sem vekur mesta athygli. Tvær 13 megapixla myndflögur eru í símanum og er myndavélin í rauninni tvær linsur sem ná að fanga mismunandi þætti í litrófinu. Vegna þess þá er hægt að gera ýmislegt áhugavert með myndavélinni eins og t.d. að taka hreinræktaða svart/hvíta ljósmynd ef slökkt er á annarri linsunni sem fangar flesta liti í litrófinu. Með því að vinna myndatökuna með þessum hætti þá segir HMD að hægt sé að ná mun skýrari og betri myndum með Nokia 8 en hægt hefur verið með sambærilegum símum til þessa.

Í tengslum við myndavélina þá er eitt af því sem Nokia hefur upp á að bjóða er einstök hljóðupptaka og þar kemur til sögunnar Nokia Ozo-hljóðtæknin. Þessi tækni hefur verið notuð í tengslum við 360°myndavél sem Nokia hefur framleitt og verið notuð víða hjá kvikmyndaverum um heim, þá sérstaklega í Hollywood og byggir myndavélin, eins og nafnið gefur til kynna, að ná 360 gráðu myndupptöku. Samhliða því þá þarf að ná hljóðupptöku allan hringinn og þá kemur Ozo til sögunnar. Nokia 8 er með þrjá mismunandi hljóðnema sem allir hjálpa til við að ná þessu 360 gráðu hljóði þegar myndskeið eru tekin upp og eru þessi hljóðhrif þónokkuð skemmtileg þegar skoðuð eru myndskeið sem tekin eru upp með Nokia 8.

Hægt er að stilla hljóðnemavirknina handvirkt þannig að ef t.d. verið er að taka upp ræðu í miklum skarkala þá er hægt að hafa einungis kveikt á þeim hljóðnema sem beinist að ræðumanninum.

Hinsvegar þá er ef til vill eitt það stærsta sem HMD hefur kynnt í kringum Nokia 8, ákveðin útfærsla af selfie-æðinu sem HMD nefnir einfaldlega „Bothie“. Fyrir áhugasama þá er hægt að leita uppi hashtaggið #Bothie á hinum ýmsu samfélagsmiðlum en í stuttu máli þá gengur Bothie út á að þegar viðkomandi er að taka selfie-mynd þá eru báðar myndavélar símans í gangi, þ.e. að framan og að aftan þannig að viðkomandi er að taka myndum af sjálfum sér á sama tíma og hann er að taka mynd af myndefninu. Gengur þessi virkni hvort sem verið er að taka kyrrmynd eða myndskeið. HMD byggir þessa hugmynd á markaðsrannsókn sem fyrirtækið gerði þar sem notendur voru spurðir hvers þeir söknuðu mest í símunum hjá sér og kom þessi hugmynd út úr þeirri vinnu. Hvort að Bothie muni ná sama æðiskasti og Selfie hefur verið að ná að undanförnu skal ósagt látið en fróðlegt verður að sjá hvort að þetta nái almennilegri fótfestu hjá notendum.

Þegar talið berst að vélbúnaðinum sem Nokia 8 býr yfir þá vekur athygli að það er fljótandi kælivirkni í símanum. Með því að nýta slíka tækni þá hitnar síminn síður í mikilli vinnslu og hefur það m.a. áhrif á að rafhlöðuending símans verður betri þar sem vélbúnaðinum er haldið í stöðugri kælingu. Með þessari kælivirkni þá opnar þetta möguleikana á því að hægt verði að nýta öflugri örgjörva í snjalltækjum framtíðarinnar og þar með verði tækin mun öflugri en það sem sést hefur til þessa. Eins þá er skjávirknin í Nokia 8 athyglisverð en upplausnin er svokölluð 2K-upplausn eða 1440 x 2560 dílar. Biðskjárinn minnir einnig á það sem sást í eldri Nokia-snjallsímum en biðskjárinn er þægilegur í notkun þar sem hann er að nota lágmarksnotkun til þess að sýna klukkuna og hvort einhver skilaboð eða ósvöruð símtöl séu í símanum. Með því að nýta biðskjáinn til þess að leita eftir þessum upplýsingum þá minnkar það líkurnar á að notendur þurfi að ræsa upp símann til þess að leita eftir þessum upplýsingum og þar með spara þeir rafhlöðuna.

Að lokum þá undirstrikaði Korpela að árlega muni verða kynntir nýir Nokia-símar þannig að búast má við því að HMD fylgi svipaðri reglu og aðrir snjallsímaframleiðendur sem reyna að uppfæra flaggskipstækin sín árlega. Að auki þá undirstrikaði hann að þau Nokia-snjalltæki sem keyra á Android núna muni að öllum líkindum fá reglulegar Android-uppfærslur í 24 mánuði en að sama skapi þá ræðst það auðvitað að því hvernig uppfærslur Google mun kynna fyrir Android-stýrikerfið. Það er alltaf sá möguleiki með slíkar uppfærslur að þær einfaldlega eru með vélbúnaðarkröfur sem tækin í dag eru ekki með þegar uppfærslan kemur.

Spurður að því hvar helstu markaðstækfærin fyrir hina nýju Nokia-snjallsímalínu eru þá nefnir Korpela að mikil áhersla hafi verið lögð á Kína og Indland, einfaldlega af því þetta eru stór markaðssvæði þar sem Nokia-vörumerkið er vel þekkt. Hinsvegar þá eru áherslur HMD á öll markaðssvæði og hafa markaðskannanir sem gerðar hafa verið á heimsvísu verið að skila 95% árangri þegar kannað er hvort að neytendur séu meðvitaðir um vörumerkið Nokia. Það er því ljóst að velvild markaðarins mun fara langt til þess að tryggja árangur Nokia á snjallsímamarkaðnum og er það markmið HMD að innan 5 ára þá muni Nokia verða meðal þriggja efstu framleiðanda á snjallsímum á heimsvísu.

Fram að því þá stefnir allt í að bjartir tímar séu framundan fyrir aðdáendur Nokia-símtækja, hvort sem það er fyrir snjallsíma eða spjallsímanotendur enda hefur endurkoma Nokia 3310 á markaðinn vakið verðskuldaða athygli.

Hvort að tilkoma Nokia 8 á markaðinn hérlendis muni verða sú vítamínssprauta sem hinn staðnaði snjallsímamarkaður hefur verið að bíða eftir muni duga til þess að endurvekja hinn fornfræga risa á þessum markaði skal ósagt látið en miðað við prófanir, niðurstöður og viðbrögð markaðarins þá er ekkert sem bendir til annars en að Nokia sé sannarlega snúið aftur og það með stæl.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira