Heim Microsoft Windows Phone er dáið – lengi lifi Windows Mobile!

Windows Phone er dáið – lengi lifi Windows Mobile!

eftir Magnús Viðar Skúlason

Fregnir bárust í vikunni að Microsoft hefði gefið það formlega út að fyrirtækið væri ekki lengur að bjóða upp á stuðning við Windows Phone 8.1-stýrikerfið. Einhvers misskilnings virðist vera að gæta á markaðnum um að með þessu sé Microsoft þá formlega að gefast upp á símamarkaðnum en það er fjarri öllum veruleika.

Árið 2015 endurnefndi Microsoft snjallsímastýrikerfið sitt Windows Mobile og tók þá upp sömu nafngift og stýrikerfið hafði áður en það var nefnt Windows Phone haustið 2010. Á þessum tímamótum er því ekki úr vegi að rifja aðeins upp sögu Windows Phone og þann öldugang sem því fylgdi undanfarin ár.

Microsoft blés til mikils blaðamannafundar í október 2010 en þrálátur orðrómur hafði verið á kreiki mánuðina áður um hvert næsta skref Microsoft yrði á snjallsímamarkaðnum. Fram að því hafði Microsoft boðið upp á Windows Mobile-stýrikerfið sem var gríðarlega vinsælt á margskonar lófatölvum vestanhafs og voru framleiðendur á borð við Motorola, Palm, Qtek og HTC sem voru áberandi í vélbúnaðarframleiðslu fyrir þetta stýrikerfi. Sú útgáfa fór upp í útgáfu 6.5 og voru því margir sem spáðu algjöri umbyltingu á stýrikerfinu 2010 en um svipað leyti var Android-stýrikerfið að slíta barnskónum og því var mikið kapphlaup í herbúðum Microsoft að koma með eitthvað útspil fyrir snjallsímamarkaðinn. Líkt og með þær áherslur sem komu inn með innreið Apple á snjallsímamarkaðinn þá snérist Windows Phone fyrst og fremst um snertiviðmót og því var fátt um QWERTY-síma í framleiðslu fyrir Windows-tæki en slíkar útgáfur höfðu verið gríðarlega vinsælar meðal fyrirtækjanotenda.

Windows Phone 7 var síðan niðurstaðan eftir miklar óformlegar bollaleggingar í fjölmiðlumræðunni haustið 2010. Það sem mörgum þótti merkilegt var að Windows Phone 7 var í grunninn byggt á sama kjarna og viðmóti og Microsoft hafði notað í Microsoft Zune-tónlistarspilaranum. Ástæðan fyrir þessu var einfaldlega sú að Microsoft þurfti að bregðast við auknum þrýstingi á snjalltækjamarkaðnum og því var þessi „stytttri leið“ farin til þess að koma með eitthvað útspil á þennan markað. Síðan í framhaldinu voru ýmsir eiginleikar prjónaðir við Windows Phone-stýrikerfið. Viðbrögð markaðarins voru á heildina litið nokkuð góðar. Þarna sáu margir merki um að Microsoft væri að reyna að bregðast við ákveðnum breytingum og þótti mörgum hið nýstárlega Metro-viðmót, sem var síðan nefnt Tiles með tilkomu Windows 8, bera vott um minimalíska nálgun á jákvæðan hátt.

Hinsvegar voru almennar viðtökur á markaði við Windows Phone-tækjum ekki sérstakar. Mörgum þótti sem að margt vantaði upp á til þess að Windows Phone-stýrikerfið gæti sannarlega verið á pari við þá eiginleika sem önnur snjallsímastýrikerfi buðu upp á, á þessum tíma. Hinsvegar þá fékk Windows Phone-stýrikerfið sitt fyrsta almennilega tækifæri snemma árs 2011 þegar nokkuð óvænt tilkynning kom úr herbúðum Nokia.

Haustið 2010 tók fyrrum yfirmaður Office-hugbúnaðarpakkans hjá Microsoft, Stephen Elop, við stjónartaumunum hjá Nokia. Mörgum þótti á þeim tímapunkti sem að Nokia, sem var þá langstærsti símaframleiðandi í heimi, hefði ekki brugðist nógu sterkt við innkomu Apple á snjalltækjamarkaðinn sumarið 2007. Í þrjú ár hafði Nokia reynt að endurhanna Symbian-snjallsímastýrikerfið sitt til þess að virka betur í snertiviðmóti en viðbrögð markaðarins við þessari viðleitni þótti ekki bera þess merki að Nokia væri á réttri leið. Sölutölur báru þess þó ekki merki enda setti Nokia hvert flaggskipið á fætur öðru á markað og um þetta leiti var Nokia N8 að gera allt vitlaust á markaðnum. Þrátt fyrir framúrskarandi vélbúnað og óviðjafnanlega myndavél, þá var hin nýja Symbian3-útgáfa ekki að halda í við það sem aðrir voru að bjóða upp á og því var gripið til þessara ráðstafana að skipta um mann í brúnni. Frægt er að Elop skrifaði og ‘lak’ út minnisblaði til starfsmanna Nokia þar sem hann talaði um hinn brennandi olíuborpall sem Nokia væri á og spurningin væri hvort að menn hefðu kjark til þess að taka stökkið og gera gagngerar breytingar. Nokia stóð frammi fyrir tveimur valkostum á þessum tímapunkti; fara í samstarf við Google með Android-stýrikerfið og missa þannig ítök sín á hugbúnaðarhluta snjalltækjamarkaðarins eða fara í samstarf við Microsoft sem var tilbúið að hlusta á kröfur Nokia um hvaða hugbúnaður væri í boði fyrir Nokia-tæki með Windows Phone-stýrikerfinu.

Tilkynnt var um samstarf Nokia og Microsoft í kjölfarið og fyrstu Windows Phone-tækin frá Nokia, Nokia Lumia 800 og Nokia Lumia 710, komu í sölu strax um haustið 2011. Töldu margir á þeim tímapunkti þetta vera mikið heillaspor fyrir Nokia enda gaf Windows Phone-stýrikerfið Nokia mun meiri sveigjanleika varðandi framþróun tækjabúnaðar og hönnun sem skilaði sér í hraðari framleiðslu og útgáfu tækja fyrir markaðinn. Það ferli var á bilinu 18-24 mánuðir með Symbian-stýrikerfinu en var komið niður í allt að 6 mánuði með Windows Phone-stýrikerfinu.

Nokia fékk fyrst um sinn nokkuð góðar viðtökur við Windows Phone-símunum sínum og töldu margir að haustið 2012 myndi koma enn meiri aukning í sölu Windows Phone-síma þar sem tilkynnt var um að Windows 8-stýrikerfið kæmi þá út og að Windows Phone 8-stýrikerfið yrði það líkt borðtölvuútgáfunni að lítið mál væri að láta forrit hönnuð fyrir Windows virka einnig fyrir Windows Phone 8. Nokia Lumia 920 var þá kynntur í september 2012 og þótti mörgum að þarna væri Nokia komið með almennilegt tromp á hendi til þess að endurheimta stöðu sína sem leiðandi framleiðandi á snjalltækjamarkaðnum. Nokia Lumia 920 þótti vera framúrstefnulegt símtæki þá enda bauð síminn upp á þráðlausa hleðslu, innbyggða hristivörn í myndavélinni sem og nýstárlega hönnun en allir símarnir voru smíðaðir úr polycarbonate-plasti og hægt að fá þá í einstaklega áberandi litum.

Hinsvegar þá varð salan á Nokia Lumia 920 og öðrum tækjum sem komu kjölfarið ekki í takti við væntingar og var langstærsta ástæðan fyrir því að mikið skorti á úrval smáforrita fyrir Windows Phone-stýrikerfið. Á þessum tímapunkti voru iOS og Android-stýrikerfin komin með talsvert forskot á önnur snjalltækjastýrikerfi hvað varðaði úrval smáforrita og ef það ætti að tiltaka eina ástæðu fyrir því af hverju Windows Phone-stýrikerfið náði ekki því flugi sem það sannarlega átti skilið þá var þetta ástæðan.

Haustið 2013 var tilkynnt um að Microsoft hefði keypt farsímaframleiðslu Nokia og að allt kapp yrði lagt á að efla snjalltækjaframleiðsluna þannig að Microsoft væri með framleiðsluferlið frá upphafi til enda, bæði á hugbúnaðarhliðinni sem og vélbúnaðarhliðinni, líkt og tíðkast hjá Apple.

Með tilkomu Windows 10 ákvað Microsoft að endurnefna snjalltækjastýrikerfið sitt Windows Mobile og fékk það númeraauðkenninguna 10 líkt og borðtölvuútgáfan. Þar með var Microsoft komið allan hringinn að nýju og tók upp fyrri nafngift sína á snjalltækjastýrikerfinu sínu. Windows Phone-stýrikerfið var því komið með nýtt nafn og síðasta útgáfan var útgáfa 8.1 sem kom út síðla árs 2014.

Fregnir þess efnis að ‘Windows Phone-stýrikerfið sé dáið’ eru því orðum ofauknar og má líkja þessu frekar við þegar Microsoft tilkynnti um að fyrirtækið ætlaði að hætta að styðja við frekari uppfærslur á Windows XP-stýrikerfinu sínu. Það voru ekki endalok Windows-stýrikerfisins og ljóst að Microsoft mun áfram veita þjónustu í kringum Windows Mobile-stýrikerfið um ókomna tíð.

Telja margir að með haustinu verði jafnvel tilkynnt um hinn langþráða Surface-snjallsíma sem margir hafa spáð að Microsoft muni koma með á markað en Surface-línan hefur notið talsvert mikillar velgengni undanfarin ár og því þykir það einungis rökrétt að Microsoft komi með snjallsíma í þeirri línu. Óstaðfestar heimildir herma að slíkt tæki eigi jafnvel að umbylta því hvernig við horfum á og notum snjallsíma í dag en líkt og fyrri daginn þá er betra að bíða og sjá hvað mun koma úr herbúðum Microsoft.

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira