Heim Föstudagsviðtalið Bragi Valdimar Skúlason

Bragi Valdimar Skúlason

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 119 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Síðast þegar ég gáði var ég Bragi Valdimar Skúlason, íslenskufræðingur og eilífðarsveimhugi. Ég hóf lífshlaupið vestur á fjörðum, í Hnífsdal. En aðallega hef ég sankað að mér ferðapunktum úr hinum ýmsu glufum og hornum höfuðborgarinnar.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Alla jafna er ég að smyrja hjól atvinnulífsins með hinum ýmsu huglægu sleipiefnum á auglýsingastofunni Brandenburg, sem ég rek með félögum mínum. Svo er ég búinn að gefa út allt of margar hljómplötur af ýmsum toga, fiktað við sjónvarpsþáttagerð, gert ófá skammarstrik með Baggalúti og reynt að ala dætur mínar sómasamlega upp. En annars er ég aðallega á twitter að dást að sniðuga fólkinu.

 

Hvert er draumastarfið?

Þangað til starf yfirsæðissafnara Kauphallarinnar verður endurvakið held ég að það sé best að vera ég sjálfur — væri þó til í að minnka starfshlutfallið í svona 75%.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Öðruvísi en sá síðasti.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Er á hefðbundnum yfirsnúningi hjá Brandenburg, ásamt því að vinna að þriðja skammti af sjónvarpsþættinum Orðbragði og hræra í tónlist með Memfismafíunni fyrir Djöflaeyjuna í Þjóðleikhúsinu.

 

Ofnotaðasta orð í íslensku?

Frábært! Það má gjarnan flennifimbulfokka sér úr málinu.

 

Á Z-etan afturkvæmt?

Það fer algerlega eftir því hvaða tungumál valtar á endanum yfir íslenskuna.

 

Lífsmottó?

Lífið er allt of stutt fyrir mottó.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég man aldrei hvort á að segja Laugavegur eða Laugarvegur.

 

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Skella honum þráðbeint í fjárstýringu á Bresku–Jómfrúareyjum.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Þú segir nokkuð. Hnífsdalurinn hefur svosem aldrei verið löðrandi í poppstjörnum. En það eru auðvitað við Kristján Freyr. Og svo Venni Jobba, Nonni Hönnu og … var ég búinn að nefna mig?

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

OS X Yosemite. Ég klikkaði á að uppfæra áður en ég fékk spurningarnar.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6s. Við eigum í mjög góðu og gjöfulu trúnaðarsambandi.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Helsti kosturinn er prýðilegt aðgengi að veraldarvefnum, þar sem margt áhugavert er að finna. Ókosturinn er að hann er tengdur við símanúmerið mitt, sem fólk heldur ennþá að sé góð hugmynd að hringja í.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Opna twitter.
  2. Lesa twitter.
  3. Skrifa á twitter.
  4. Bíða milli vonar og ótta eftir viðbrögðum á twitter.
  5. Hlaða símann.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 5110. Við áttum margar góðar stundir saman. Hún var besti vinur minn.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Allt í senn tryggur lífsförunautur, sálufélagi og nærgætinn elskhugi.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Engum. Ég vil láta allar framfarir koma mér notalega á óvart.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Að lokum? Ég er rétt að byrja.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira