Heim ÝmislegtAndroid Nýr Nokia-sími í lok árs?

Nýr Nokia-sími í lok árs?

eftir Magnús Viðar Skúlason

Það ætti ekki að hafa farið framhjá lesendum Lappari.com að við höfum fylgst náið með því hvenær Nokia mun senda frá sér nýjan síma.

Í aðdraganda Mobile World Congress 2016, sem hefst formlega í dag, þá var haft eftir Rajiv Suri, forstjóra Nokia, að fyrirtækið ætli sér að koma með nýjan síma á markaðinn en að fyrirtækið muni taka sér þann tíma sem það þarf til þess að koma með rétt tæki sem muni virka vel fyrir notendur.

Frá því að Nokia seldi allt sem tengist símaframleiðslu sinni til Microsoft þá hefur fyrirtækið einbeitt sér að símkerfarekstri en Nokia keypti upp allt hlutafé í Alcatel-Lucent í fyrra og hefur nú sameinað rekstur Nokia Siemens Networks og Alcatel-Lucent þannig að Nokia er nú orðið eitt stærsta fyrirtækið í símkerfalausnum fyrir fjarskiptafyrirtæki á heimsvísu.

Hinsvegar þá er ljóst að Nokia sem vörumerki á smásölumarkaði vekur enn sterkar og ljúfar minningar í huga fólks og því sagði Suri nánast orðrétt að fyrirtækið gæti ekki annað en einbeitt sér betur að smásölu í nánustu framtíð og rökréttasta skrefið væri að koma með nýtt símtæki á markaðinn.

Fyrir tveimur árum síðan vakti Nokia N1-spjaldtölvan talsverða athygli þar sem hún fór í sölu í Asíu og náði Nokia varla að anna eftirspurn. Gefið var sterklega í skyn að Nokia N1 kæmi í sölu í Evrópu og Bandaríkjunum en fallið var frá þeim hugmyndum og því voru margir vongóðir Nokia-aðdáaendur svekktir yfir því að fá ekki í nota nýtt Nokia-tæki eftir að Microsoft tók yfir símaframleiðsluna hjá Nokia.

Ljóst var þó að Nokia sem vörumerki á neytendamarkaði var ennþá marktækt og því hafa bollaleggingar um símtæki verið viðloðandi fyrirtækið í talsverðan tíma. Samkvæmt samkomulagi Nokia og Microsoft þá mátti Nokia ekki setja nýjan síma í sölu undir merkjum Nokia fyrr en í upphafi þessa árs og því hefur pressan á Nokia verið umtalsverð undanfarnar vikur.

Þrálátur orðrómur var síðan á kreiki síðastliðið haust þegar myndir af væntanlegum Nokia C1 Android-síma láku út á Netið. Hinsvegar gerðist ekkert með það símtæki þannig að líklegt þykir að hér hafi verið á ferðinni óskhyggja einlægra Nokia-aðdáaenda um að fá loksins nýjan Nokia-síma fremur en að þetta hafi verið símtæki sem Nokia hafi ætlað að setja í sölu. Hinsvegar var eiginleikalýsingin ekki neitt sem hægt væri að hrópa húrra yfir enda var talað um að Nokia C1 væri með 8 megapixla myndavél, keyrði á 2GB vinnsluminni og væri ekki alveg í takt við það sem flestir símanotendur sjá þegar um flaggskipstæki er um að ræða. Seinna meir var staðfest að myndir og annað tengt Nokia C1 hafi verið falsanir.

Suri hefur þó lagt línuna nokkuð skýrt í þessum efnum og sagt að Nokia muni koma með síma en að það sé ekki búið að staðfesta hvenær það verður. Hann hefur sagt að Nokia muni gefa sér þann tíma sem það þarf til þess að hanna tæki sem sé í takt við það sem neytendur voru vanir þegar Nokia var stærsti símaframleiðandi í heimi.

Nokia mun sinna framleiðslunni á nýjum tækjum með sama hætti og Nokia N1-spjaldtölvuna, þ.e. Nokia mun hanna tækið en svo mun fyrirtækið semja við einhvern aðila sem sér um framleiðsluna, dreifinguna og söluna áfram á heimsvísu.

Líklegt þykir þó að eftir ár á Mobile World Congress 2017, muni Nokia kynna til sögunnar nýjan síma eða línu af símum sem munu einkennast af gamla góða Nokia handbragðinu og að slík tæki muni keyra á Android-stýrikerfinu, líkt og Nokia N1-spjaldtölvan gerði.

Heimild: recode.net

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira