Heim ÝmislegtAndroid Freefly VR sýndarveruleikagleraugu

Freefly VR sýndarveruleikagleraugu

eftir Haraldur Helgi

Undanfarna daga og vikur hefur undirritaður verið með svokölluð VR gleraugu frá Freefly og valdstýringu í stíl til reynslu og prófunar. Þetta eru í stuttu máli þrívíddargleraugu sem nota forrit á símtæki notenda til að búa til þrívíddar mynd/leik.

 

 

Seint verður sagt um undirritaðan að hann sé mikill leikjaáhugamaður og því er næsta óskiljanlegt hversvegna í óskapnaðinum hann tók að sér að prófa þessi ósköp.

Á heimasíðu Tölvutek má finna flottan stuðning fyrir notendur þar sem rennt er yfir helstu atriði er varða uppsetningu en þar má sjá að hægt er að nota gleraugun með Android, iOS, Windows (símtæki og PC).

Téðu VR gleraugu koma í flottri öskju sem verja gleraugun mjög vel.

 

 

Það tekur stutta stund að stilla gleraugun fyrir símtækið er nota skal en hafa skal í huga að það dugir lítið að smella Nokia 7110 í gripið því hann er einfaldlega of lítill og skjárinn með svipaða upplausn og brauðrist. Við prófuðum 4-5 símtæki með gleraugunum og virkiðu þau öll vel með þeim.

Eftir að gleraugunum hefur verið smellt á smettið með símtækinu er gott að hafa í huga rétt á meðan maður venst veseninu að halda sér í eða sitja í stól sem snýst í 360 gráður. Ekki er ráðlagt af framleiðanda að stunda þetta lengur en 10 mínútur, hvers vegna veit undirritaður ekki en mögulegt er að of löng notkun orsaki ógleði þó við höfum ekki fundið fyrir neinu.

 

original

 

Í örlitlum upplýsingabækling sem fylgir í kassanum er listi yfir forrit sem framleiðandi mælir með. Þau eru eins misjöfn og þau eru mörg og kannski ekki ástæða til að telja þau öll upp hér. Hinsvegar hnaut ég um þá staðreynd að framleiðandi listaði einungis upp forrit fyrir iOS og Android stýrikerfin þrátt fyrir að Tölvutek taki fram tækið styðji Windows líka, en það er önnur saga

Eftir nokkra stund með VR gleraugun undir höndum ákvað ég að prófa Google Cardboard sem er í rauninni ekkert nema samansafn forrita Google og fleiri fyrirtækja sem hafa sérhæft sín forrit fyrir VR eða Google Cardboard gleraugun. Þar má nefna Google Street view og úrval myndbanda á Youtube sem styðja þessi ósköp en nóg er að opna forritaverslun og leita að “VR apps” til að finna eitthvað spennandi.

 

VR_fav

 

Ég prófaði mörg forrit sem ég fann í smá stund og skemmti mér vel á meðan. Verð samt að segja að það eru margir gallar og böggar í mörgum af þessum VR forritum sem ég prófaði. Þetta er svo sem ekki þessum gleraugum að kenna og má reikna með því að forritin sjálf verði bara betri og betri með tímanum.

Börnin prófuðu þetta vitanlega og voru heilluð af þessu, hreinlega skildu ekki hvernig þetta væri hægt heima í stofu.

 

Niðurstaða:

Ég get ekki sagt að þetta sé nauðsynjavara en hvað veit ég, keypti spoiler á bílinn minn frá Japan í sumar og hann virkar þvílíkt!

En hinsvegar er þetta ágætis viðbót í þá flóru af dellu og vitleysu sem hægt er að fá í dag þegar kemur að tækjum og tólum. Það sem fór einna helst í taugarnar á mér við gleraugun var hvað linsurnar urðu fljótt kámugar og hversu mikil áhrif skjárin á símtækinu hefur á gæðin en það segir sig kannski sjálft. Varðandi galla í forritum sem við prófuðum þá eru VR gleraugu enn að slíta barnaskónum og eiga þau bara eftir að batna þegar lengra líður.

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira