Heim Föstudagsviðtalið Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir

Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 92 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir, eiginkona, móðir, verkfræðingur og lestrarhestur og er 36 ára Reykvíkingur.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ég byrja daginn á að koma mér og fjölskyldunni á fætur, tek neðanjarðarlestina í vinnuna þar sem ég er frá níu til tólf þrettán tíma eftir því hversu mikið er að gera. Það er stutt í að leikurinn komi út svo það er allt á fullu þessa dagana. Ég er mikið á fundum um allt frá smæstu smáatriðum eins og hvernig ákveðnir karakterar í leiknum, t.d. Luke Skywalker lítur út og hreyfir sig, upp í strategíu Star Wars leikja hjá EA næstu 10 árin. Eftir vinnu fer ég heim og borða með fjölskyldunni, kem stelpunum mínum í bað og heimalærdóm hjá þeirri eldri og les svo fyrir þær áður en þær fara að sofa. Þegar þær eru komnar í ró held ég oft áfram að vinna frameftir eða horfi á sjónvarpsseríu með manninum mínum.

 

Hver er uppskriftin að hinum fullkomna degi?

Skemmtileg stórborg, gott veður, gott kaffi og fjölskyldan mín.

 

Lífsmottó?

Afi minn heitinn, merkilegur maður og mikill höfðingi kenndi mér tvennt: „Það verður að gera fleira en gott þykir“ og „Maður á ekki að leggja stein í götu annarra.“ Hvoru tveggja reyni ég að fylgja eftir bestu getu.

 

Sturlið staðreynd um þig sem fáir/enginn veit?

Þegar ég var tíu ára var ég hestaóð. Ég tók bókina Heiðajarlar eftir Jónas Kristjánsson á bókasafninu en í henni eru myndir og ættartala allra íslenskra stóðhesta frá 963 til 1140 og svo lærði ég alla hestana utan að og bað fólk um að segja tölu á þessu bili og þuldi þá upp allar upplýsingarnar í belg og biðu. Uppáhaldshesturinn minn var Otur 1050 frá Sauðárkróki, sonur Hervars 963 og bróðir Kjarvals 1025.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Hmmm… Björk?

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er yfirframleiðandi á Star Wars Battlefront og hef verið að búa til tölvuleiki í níu ár, fyrst hjá CCP en síðan í Svíþjóð síðustu fjögur ár. Ég hef unnið við þrjá tölvuleiki sem eru óútkomnir, The Division hjá Ubisoft Massive í Malmö og svo Mirror‘s Edge Catalyst og nú Star Wars Battlefront hjá DICE. Sem yfirframleiðandi er það mitt hlutverk að reka þróunarteymi tölvuleiksins og hafa yfirákvörðunarvald yfir leiknum, en líka að vinna með stjórn stúdíósins hér hjá DICE, með alls kyns hagsmunaaðilum innan EA sem á DICE og svo með Lucasfilm sem eiga og þróa Star Wars vörumerkið áfram. Þetta er ótrúlega yfirgripsmikið, fjölbreytt og krefjandi starf sem ég sinni með frábæru fólki. Ég þarf ennþá að klípa mig í framhandlegginn þegar ég er á leiðinni í vinnuna og hugsa með mér: „Ég er að búa til Star Wars tölvuleik“

 

Hvað mundir þú gera til að fá fleiri kvennfólk í þennan geira?

Gera konur sem búa til tölvuleiki sýnilegri og búa til fjölbreyttari leiki. Ég er svo heppin að ég er að gera það og ég er mjög stolt af því að vera kona sem stýrir einu stærsta tölvuleikjaverkefni heims og að ungir krakkar, og þá sérstaklega stelpur sjái mig og Söru Jansson, sem stýrir Mirror‘s Edge Catalyst hér hjá DICE og átti sig á að þetta er líka staður fyrir þær.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Við erum á fullu að klára að búa til leikinn sem kemur út 17. nóvember og það er mjög mikill hasar. Í síðustu viku kynntum við leikinn á E3, stærstu bransatölvuleikjasýningu í heimi sem gekk mjög vel og nú erum við að undirbúa okkur fyrir Gamescom, aðra stóra sýningu í Þýskalandi. Ég er mikið að vinna með marketing og PR að undirbúa kynningarmálum og svo er ég að skipuleggja stutt sumarfrí og langt og langþráð jólafrí í hlýjum heimshluta með fjölskyldunni.

 

Hvernig nýtast tölvur/Tækni í þínu starfi?

Tölvuleikjagerð á þessum skala er ótrúlega flókin og byggist algjörlega á tölvum, hvort sem um er að ræða forritun, gerð þrívíddarmódela, hljóðvinnslu eða animation. Meira að segja listmálararnir okkar nota Wacom töflur (stór snertispjöld) til að mála myndirnar sínar.

 

Einhverjar nýjungum í IT sem lesendur ættu að fylgjast með í náinni framtíð?

Ég er spennt fyrir project Hololens frá Microsoft og svo yfirhöfuð virtual reality og sú tækni nái fótfestu.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Windows 8 á lappanum en Windows 7 í vinnuvélinni.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Hann er uppáhalds iPhone síminn minn til þessa (ég hef átt 3, 4 og 5 áður). Mér finnst stærðin fullkomin þó ég hafi fyrst haldið að mér myndi finnast hann of stór og núna er ég með 64 gB síma en ekki 16 sem er mjög þægilegt. Í fyrsta skipti er ég að nota hulstur á símann og það pirrar mig ekki eins mikið og ég hélt að það myndi gera.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Ég lest mikið af tölvupósti í símanum og hann er fyrst og fremst vinnutæki en svo nota ég símann mikið til að taka myndir og nota Kindle appið til að lesa þegar ég er á ferðalögum eða áður en ég fer að sofa. Facebook og Instagram komast líka á listann. Ég nota símann alltof mikið og mér finnst ég eiginlega nakin án hans.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Hér er símasagan mín fram til ársins 2006 (mynd af gömlu bloggi) Ég er svo mikill áhugamaður um síma að ég skrifaði blogg um þá. Fyrsti síminn var Siemens hlunkur árið 1997

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Ég er svo ánægð með iphone 6 að mér finnst hann næstum því vera hann. Mér dettur í það minnsta kosti ekkert í hug sem ég vildi bæta í hann í augnablikinu.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ekki svo mörgum. Ég les tímaritið WIRED mjög mikið og kíki stundum á vefsíðuna.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

May the force be with you!

 

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri varðandi Star Wars : Battlefront til leikjaspilara á Íslandi?

Leikurinn kemur út 17. nóvember og ég hlakka til að sjá hvernig ykkur líst á plánetuna Sullust sem er byggð að miklu leyti á íslensku landslagi.

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira