Heim Föstudagsviðtalið Kristján Atli Ragnarsson

Kristján Atli Ragnarsson

eftir Ritstjórn

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 85 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Kristján Atli og er úr Hafnarfirði. Ég fæddist í Reykjavík, ólst upp á Flateyri í Önundarfirði en hef búið í Hafnarfirði frá níu ára aldri. Ég telst því Hafnfirðingur en ekki Gaflari, þá nafnbót hljóta aðeins innfæddir.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er stöðvarstjóri FMS í Hafnarfirði og er auk þess stofnandi og ritstjóri Kop.is. Þá er ég menntaður bókmenntafræðingur og rithöfundur.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ég vakna snemma og er yfirleitt kominn á skrifstofuna um kl. 7. Framan af degi sinni ég því sem snýr að daglegum rekstri, svo sem samskiptum við viðskiptavini, tölvupósti, símtölum og skráningu á fiski í sölu á almennum fiskmarkaði. Þegar líður á daginn minnkar verkefnastaflinn og þá sný ég mér meira að Kop.is og öðrum verkefnum. Á kvöldin þegar fjölskyldan er sofnuð sit ég svo iðulega við ritstörfin eða bókalestur, nema ef það er spennandi leikur í sjónvarpinu!

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Ýmislegt. Hrygningarstoppinu við strendur landsins er lokið og strandveiðin fer að hefjast og því er bullandi vertíð hjá fiskmörkuðum. Svo fór ég með stóran hóp fólks til Liverpool um síðustu helgi sem fararstjóri fyrir Úrval-Útsýn og Kop.is, en það var gaman að sjá Liverpool vinna QPR og njóta lífsins í nokkra daga. Flýja helvítis veðrið sem hefur bugað alla íslensku þjóðina í vetur. Þá er ég að leggja lokahönd á mína fyrstu skáldsögu sem ég stefni á að gefa út síðar á þessu ári.

 

Hvernig nýtast tölvur/tækni í þínu starfi?

Ég er háður tengingu, það er bara svoleiðis. Eðli starfsins er slíkt að ég þarf að vera viðskiptavinum mínum aðgengilegur og þarf um leið að hafa aðgang að gögnum og forritum þegar ég er fjarri skrifstofunni. Þar að auki þarf stundum að ritstýra Kop.is og umræðum á síðunni nánast í rauntíma þannig að það er ómetanlegt að geta verið tengdur með snjallsíma, spjaldtölvu eða fartölvu hvar sem er í heiminum.

 

Lífsmottó?

Ef það er auðvelt er það sennilega ekki þess virði.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir/enginn veit?

Ég hef starfað hjá FMS alla mína ævi eða síðan ég byrjaði að mála lyftara hjá þeim fyrir vasapening 14 ára gamall. Það eru 21 ár síðan, geri aðrir betur.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

  1. Botnleðja
  2. Ensími (uppáhalds íslenska sveitin mín, við eigum þá!)
  3. Jet Black Joe (við eigum Palla Rósinkrans, það telst með!)
  4. Bo
  5. Maggi Kjartans
  6. Bræðurnir Johnson, Jón Ragnar og Frikki Dór
  7. Jóhanna Guðrún
  8. Mínus (skítt með Álftanesið og Garðabæinn, við eigum þá líka!)
  9. Haukur Ísfeld bróðir minn sem stal kassagítarnum mínum og gerðist tónlistarmaður
  10. Súrefni

Ég gæti haldið endalaust áfram, það er svo mikið af talent hérna í Firðinum …

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Ég spila með báðum liðum. Í vinnunni er ég með Lenovo ThinkCentre turn og tvo 17″ Lenovo-skjái við. Ég nota nýjasta Windows-stýrikerfið og uppfæri reglulega. Ég fékk ógeð af Windows fyrir áratug eða svo og skipti yfir í Apple-tölvur í kjölfarið en nú höfum við Bill Gates náð sáttum á ný og ég er mjög ánægður með að nota Windows í vinnunni. Þess utan er ég Apple-maður, skipti fyrir áratug og er heima með 21″ iMac, 11″ Macbook Air og iPad Mini. Það fer eftir þörfum hvað ég nota á heimilinu en Macbook Air er besta tölva í heimi og ég fer með hana út um allt.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6+. Ég skipti úr iPhone 5 í haust og þótt fólk varaði við því að 6+ væri of stór hef ég aldrei fundið fyrir því. Ég elska þennan síma af lífi og sál!

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Kostirnir eru augljósir; skjástærð og frábær rafhlöðuending. Svo eru gæðin bara svo mikil í öllu sem Apple gerir. Sumir kvarta yfir því að stýrikerfið sé ekki nógu opið (sem kallast „sandkassi“ á tæknimáli, hvert app má bara vera í sínum sandkassa og þau mega ekki „leika“ sér saman) en það gefur öryggi og ótrúlega stöðuga frammistöðu. Ég hef átt iPhone-síma í 6 ár núna og varla þurft að endurræsa þá nema einu sinni á ári, í mesta lagi. Svo topparðu ekkert úrval snjallforrita á iOS. Þetta bara virkar.

Gallarnir eru fáir en ég gæfi mikið fyrir að sjá sum af uppáhalds forritunum mínum setja upp fyrir örvhenta. Nei svona í alvöru. Á síma með svona stórum skjá get ég ekki spilað Yatzy einhentur, teningarnir eru allir hægra megin á skjánum!

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Twitter.
  2. Skilaboð (aðallega SMS og Facebook Messenger).
  3. Tölvupóstur. Ég nota Mail-forritið í iOs.
  4. Calendar. Ég nota iOS-forritið en er þó alltaf að leita að einhverju betra.
  5. Evernote. Snilld að geta notað sama forritið í síma, á spjaldi, Apple- og Windows-tölvu. Listarnir og glósurnar synca á hvaða tæki sem er. Ómissandi.

 

Ef það kæmi nýr Windows sími í dag… hvernig á hann að vera?

Ég er ekki að fara að skipta úr iPhone í bráð (geri það þó ef þeir misstíga sig e-n tímann, er ekki giftur vörumerki) en ef ég ætlaði að skipta í dag myndi ég velja Windows-síma frá Nokia. Ég hef lengi hrifist af smíði harðbúnaðar hjá Nokia og nýja Windows-farsímakerfið lítur stórvel út, sem var ekki alltaf raunin. Ég myndi velja mér einhvern Nokia Lumia-símann með góðri rafhlöðu, flottum skjá og geðveikri myndavél sem Nokia eru ennþá fremstir í. Ætli Lumia 1520 eða 830 yrðu ekki fyrir valinu?

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 3210 í kringum 1999-2000. Átti hann í svona fimm ár. Það væri óskandi að snjallsímarnir entust svo lengi.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

iPhone 6+. If it ain’t broke don’t fix it.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Hér á Íslandi fylgist ég með lappari.com og símon.is. Erlendis er Daring Fireball langbesta Apple-síðan og fjallar stundum um önnur tæknifyrirtæki líka. Þá fylgist ég með Gizmodo og Laughing Squid, auk þess sem ég mæli með Lifehacker fyrir lífsstílsráð almennt.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Já, leggið frá ykkur símana á tónleikum! Fólk! Hættið þessu!

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira