Nokia Lumia 735

eftir Gestapenni

Lumia 735 er nýr sími frá Microsoft. Hann er uppfærsla á Lumia 720 og eins og Lumia merkið er orðið þekkt fyrir er hann vel hannaður. Innvolsið er fínt, örgjörvinn er meðalgóður, myndavélin er bærileg, 6,7 megapixlar en ekkert til að hrópa húrra fyrir. Hann er með 1GB í minni og útlitið minnir um margt á Lumia 920 nema hvað síminn er töluvert léttari. Þessi sími hefur þó ákveðna sérstöðu vegna þess að sjálfu myndavélin (selfie myndavél, sú sem snýr að notenda) er ekkert slor, eða 5 megapixla og með f/1.8 linsu sem tekur upp í 1080P upplausn. Það er því ekki að ósekju að síminn er kallaður sjálfu síminn (selfie phone).

 

Hér má sjá afpökkunarmyndbandið okkar

 

Við á Lappari.com prufukeyrðum símann í nokkrar vikur og niðurstöðurnar eru nokkuð áhugaverðar.

 

 

Hönnun og vélbúnaður

Lumia 735 er stílhreinn eins og Lumia símar eiga að sér að vera. Hann fer vel í hendi og er léttur. Eins og ég sagði að ofan minnir hann þónokkuð á Lumia 920 í hendi nema hann er miklu léttari, eða einungis 134 g. Hann er með 4,7 tommu skjá og með 1280×720 upplausn en skjárinn er AMOLED skjár, sem gefur skjánum góða birtu og flotta liti en þó ekki eins góða og IPS skjáir að mínu mati. Glerið er Corning Gorilla Glass 3 sem margir kannast við og er því með góða rispuvörn og þolir ágætis hnjask. Bakhliðin er úr polycarbonate og er hægt að skipta út. Síminn er einnig með innbyggða þráðlausa hleðslu (Qi) sem er ágætis bónus.

Síminn er ekki með snertitakka að framan heldur notast við innbygðu takkaslánna í Windows Phone stýrikerfinu. Hann er með hefðbundinn hækka/lækka takka ásamt power takka en það sem vakti strax athygli mína var að síminn var ekki með myndavélatakka eins og ég er orðinn vanur af Windows símunum.

 

Lumia735_6

 

Helstu stærðir:

  • Hæð: 134,7 mm
  • Breidd: 68,5 mm
  • Þykkt: 8,9 mm
  • Þyngd: 134,3 g

 

 

Örgjörvinn er 1.2Ghz fjórkjarna Snapdragon 400 sem er alveg sæmilegur. Vinnslan var ágæt og ég nánast aldrei var við hökt í símanum en ég tók eftir því að hann var stundum lengur að hlaða forritum en gamli Lumia 920 síminn minn. Það munaði þá sjaldan meira en örfáum sekúndum.

Hann er með innbyggt 8GB minni sem er frekar lítið en hann er með rauf fyrir microSD kort svo hann er stækkanlegur með allt að 128 GB microSD korti sem er feikinóg.

Þar sem síminn er auðvitað einnig tengdur við OneDrive er lítið mál að hreinsa út af honum reglulega myndir og myndbönd þar sem þau er sjálfkrafa vistuð í “skýinu” um leið og síminn kemst í tæri við WiFi sem hjálpar heilmikið, bæði til afritatöku og til þess að minnka þörfina á meira plássi á tækinu sjálfu.

 

 

Tengimöguleikar

Síminn er með hefðbundið micro USB tengi þannig að auðvelt er að tengja hann við tölvu til að afrita hluti til og frá símanum. Efst er svo 3.5 mm heyrnartólstengi. Síminn er einni með Bluetooth 4.0 ásamt LE stuðningi og einnig NFC.

 

Lumia735_3

 

Lumia 735 er að sjálfsögðu með þráðlausu neti sem styður 802.11 a/b/g/n/ac og allar algengustu öryggisstillingarnar. Hann styður einnig þær 4G (800/1800/2600) bylgjulengdir sem eru í notkun hér á Íslandi.

 

 

Rafhlaða

Síminn er með 2220mAh rafhlöðu og verð ég að lýsa yfir ánægju með hversu lengi hún endist. Ég notaði símann með stanslaust kveikt á 4G loftnetinu, WiFi í gangi ásamt Bluetooth en síminn entist samt hátt í tvo sólarhringa þrátt fyrir meðalnotkun sem innihélt vefráf, tölvupóst og einstaka leikja og tónlistarspilun. Það finnst mér frábært miðað við það sem ég er vanur, þ.e.a.s að snjallsímar dugi kannski max út daginn með svona marga hluti í gangi og miðað við mína notkun. Rafhlöðunni er einnig hægt að skipta út sem er auðvitað kostur.

 

Uppgefnar endingartölur rafhlöðu frá Nokia

  • Tal yfir 2G: 22 tímar
  • Tal yfir 3G: 17 tímar
  • Biðtími: 25 dagar
  • Tónlistarafspilun: 60 tímar
  • Myndbandaafspilun: 9 tímar

 

 

 

Hljóð og mynd

Skjárinn er fínn og mjög skýr. Ég hef verið hrifnari ef IPS skjám á símum en AMOLED því það er eitthvað við uppröðunina á pixlunum sem truflar mig meira við AMOLED síma en IPS. Skjárinn á þessu tæki er samt mjög góður, góðir litir og bjartur.

 

Lumia735_5

 

Hátalarinn er staðsettur á bakhlið símans og gefur alveg sæmilegt hljóð frá sér, og um margt betra en ég hef vanist af mörgum símum, þar sem hátalarinn er oft mjög slappur. Bassinn er sæmilegur en hann er yfirleitt það slappasta við símahátalara, þannig að ég myndi segja að hátalarinn sé svona meðalgóður fyrir síma.

Myndavélin er sæmileg, 6.7 megapixla myndavél með Carl Zeiss linsu og f/1.9 ljósopi sem skilar “allt í lagi” myndum en samt ekkert til að hrópa húrra fyrir miðað við myndavélarnar á stærri símunum.

 

Hér eru nokkrar myndir úr aðalmyndavélinni:
L735_4
L735_3
L735_2
L735_1

Framvísandi myndavélin (sjálfu) er hins-vegar ekkert slor miðað við slíka. Víðlinsa með 1080P upplausn og ljósop upp á f/2.4 sem gerir hana nokkuð nothæfa við minni birtuskilyrði. Þetta er ástæða þess að síminn er kallaður sjálfu síminn en það sem meira er, þetta er fyrst síminn sem ég hef notað til þess að fara á Skype og viðtakandinn sér ekki strax að verið sé að hringja úr síma því gæðin eru á við fína vefmyndavél. Þessi myndavél er án efa stjarnan á þessum síma og verð ég að segja að þó ég sé ekki mikið að taka sjálfu myndir þá notaði ég símann mun meira við að spjalla á Skype og þurfti síður að grípa til spjald/fartölvunnar til þess að gera samtalið gott. Það verður erfitt að venjast lélegri sjálfu myndavélum eftir að hafa prófað þessa.

 

 

Margmiðlun og leikir

Síminn er útbúinn fjórkjarna örgjörva eins og áður sagði sem gerir það að verkum að hann höktir sama og ekki neitt og vinnur vel. Hann hefur þó ekki sama afl og símar eins og Lumia 930 eða Lumia 1520 en það er ekkert út á kraftinn í honum að setja þrátt fyrir það. Ég spilaði nokkra leiki eins og t.d. Age of Empire: Castle Siege og Halo: Spartan Assault þar sem síminn stóð sig með stakri prýði.

 

Lumia735_4

 

Síminn er einnig með innbyggðu Miracast sem virkaði ljómandi vel. Ég lenti stundum í vandræðum með að tengjast en það tókst yfirleitt alltaf í annarri tilraun og ég veit ekki hvort ég get kennt símanum eða móttakaranum um það þar sem ég hafði ekki annað Miracast tæki til þess að bera saman við.

 

 

Hugbúnaður og samvirkni

Stýrikerfið er auðvitað Windows Phone 8.1 Update 1 með Lumia Denim uppfærslunni. Vitanlega er Office því innbyggt í síman ásamt mjög góðri samvirkni við OneDrive t.d. fyrir minnismiða gegnum OneNote og sjálfvirka afritatöku á myndum og myndböndum. Síminn er líka með 4G sem virkaði eins og vera skyldi og ég álít sem algjöra nauðsyn í nýjum símum í dag. Einnig er hann með Bluetooth sem virkaði fumlaust með bæði soundbarinum mínum (til þess að spila hljóð) og einnig nota ég Fitbit Flex sem einnig virkar vel með símanum. Hann hefur líka NCF stuðning ásamt eins og fyrr sagði Miracast.

 

Lumia735_1

 

 

Niðurstaða

Lumia 735 er fínn sími, sérstaklega fyrir þá sem finnst gaman að taka sjálfu (e. selfies) eða spjalla mikið á Skype. Að öðru leyti er síminn frekar venjulegur og lítið annað sem skarar framúr, nema kannski helst rafhlöðuendingin sem er mjög fín. Hann er þægilegur í hendi og fisléttur, allavega fyrir þá sem eru vanir símum af svipaðri stærðargráðu. Hann hefur góða samvirkni með öðrum tækjum eins og flestir Lumia símarnir og það er ekkert sem er lélegt við þennan síma en heldur ekkert sem er framúrskarandi nema sjálfu myndavélin. Ég saknaði þess þó mikið að hafa ekki sérstakan myndavélatakka. Í heildina er þetta fínn sími án þess að vera eithvað flaggskip, sérstaklega fyrir þá sem taka mikið af sjálfum og nota Skype mikið.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira