Heim Föstudagsviðtalið Jóhannes Valgeirsson

Jóhannes Valgeirsson

eftir Ritstjórn

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 63 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

Þá er kominn tími á að henda í föstudagsviðtal og að þessu sinni er viðmælandi okkar Akureyringur, hann er úr tæknigeiranum og þjóðþekktur (allavega í fótboltageiranum). Ég hef kynnst Jóa ágætlega í gegnum vinnuna mína en þetta rjómapiltur, strangheiðarlegur og með eindæmum þjónustulipur félagi sem er sannur heiður er að hafa hér í viðtali.

Það er stórskemmtilegt að fylgjast með Jóa á Twitter og þá sérstaklega um helgar því hann er æði duglegur að segja álit sitt á þeim dómurum sem eru að dæma og þá sérstaklega um vafaatriðin. Ég læri alltaf eitthvað nýtt um þá sem ég tek viðtal vð, ég vissi td. ekki afhverju Jói “hætti” að dæma fótbolta á sínum tíma en hann útskýrir það nokkuð vel hér að néðan.

 

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Jóhannes Valgeirsson heiti ég og er fæddur Grímseyingur en samt Akureyringur í húð og hár frá 6 mánaða aldri, minnir mig.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa sem Viðskiptastjóri hjá Símanum á Akureyri. Hef verið í þessu starfi síðast liðin 4 ár eða svo. Þar á undan starfaði ég í bankageiranum í 15 ár eða svo. Fyrst hjá Búnaðarbanka Íslands og svo hjá Íslandsbanka. Þess utan starfaði ég sem knattspyrnudómari í tæp 20 ár. Svo er ég aðeins að rembast við að verða tónlistarmaður.

 

Hvernig er venulegur dagur hjá þér?

Dagarnir eru oft „sami grautur“ þessi misserin, en samt bara býsna góður grautur. Dagurinn fer í að þjónusta þau fyrirtæki Símans sem eru á minni könnu. Starfið er mjög fjölbreytt og lifandi. Hvort sem er að leysa úr þeim vandamálum sem upp koma eða finna til nýjar lausnir til að leysa þörf hjá Viðskiptavinum Símans. Eftir að heim kemur er það fjölskyldan og hobbýin (knattspyrnan og tónlistin) og svo hefur nýkomið afahlutverk átt hug minn allan á undanförnum misserum.

 

Nú hefur þú verið að bralla við lagagerð, er plata á leiðinni? (eitthvað hægt að hlusta í dag?)

Fyrir að verða 4 árum árum urðu þáttaskil hvað knattspyrnudómgæsluna varðar og mönnum sinnaðist og saga látin ganga út að ég hefði sagt starfi mínu lausu sem dómari, sem var bara ekki satt. Í 4 ár hefur hvorki gengið né rekið að fá forsvarsmenn dómaramála á Íslandi til að setjast niður og sættast. Fyrsta árið fór í það að reyna að leysa málin og laga það sem hafði komið upp á. Á þessum tíma var ég mjög sár og reiður yfir því að svona nokkuð skyldi geta gerst og að menn séu ekki nógu stórir inni í sér til að viðurkenna mistök og takast í hendur og sættast. Það var svo sirka ári eftir að þetta gerðist, og margar andvökunætur og margir óhamingjudagar liðnir, að ég settist niður með sjálfum mér og hugsaði að þetta væri að éta mig lifandi að innan og ég yrði að finna mér eitthvað annað til að gera.

Það var þá sem ég horfði á vin minn, Garrisongítarinn við hliðina á mér og hugsaði með mér hvort ég gæti samið lag. Þrátt fyrir að vera bara slarkfær á gítarinn þá byrjuðu ný lög og textar að verða til í bunkum. Á endanum var komin mappa með um 50 lögum, eflaust mjög misgóðum eins og gengur. Eftir að vera búinn að spila nokkur af þessum lögum á tvennum tónleikum og leyfa fólki að heyra þá hugsaði ég með mér að það væri auðvitað ekki spurning um að einhenda sér í að taka eitthvað af þessu upp. Frúin var á þessum tíma að hvetja mig til að láta slag standa og gera eitthvað með þetta (eflaust orðin leið á dómaravælinu í mér).

Haukur vinur minn Pálmason þúsundþjalasmiður í tónlistinni var nýkominn úr upptökunámi í USA og eftir létt spjall þá ákváðum við bara að kýla á þetta. Nú er þessi vegferð hafin og 3 lög nánast tilbúin og næstu 2 í vinnslu. Þetta er alveg gríðarlega gefandi verkefni og ég er svo heppinn að hafa einstaklega hæft fólk með mér í verkefnið. Ef allt gengur eftir þá kemur þetta út með einhverjum hætti á árinu 2015.

 

Læt hér fylga með 2 lög sem hafa verið sett út á netið.

 

 

Lífsmottó?

Hlutirnir hafa tilhneigingu til að fara vel … mottó sem mágur minn notar svolítið … er að reyna að gera það að mínu mottói.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Fyrstan skal telja vin minn Sumarliða Hvanndal og já eiginlega alla þá Hvanndalsbræður.

Hef gaman að því sem Rúnar Eff hefur verið að gera þó ég sakni þess svolítið að sjá hann spila efnið sitt meira með hljómsveit hér í höfuðstaðnum.

Baraflokkurinn var alltaf í uppáhaldi

Skriðjöklar auðvitað með sinn gleðibrag

Svo hef ég mikið dálæti á meðspilurum mínum í upptökum þessa dagana, Kristján Edelstein, Stefán Gunnarsson, Hauk Pálma og Marínu Ósk Þórólfsdóttur sem syngur með mér í 2-3 lögum. Algjört fagfólk.

 

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni? (Win-Osx-Linux)

Ég er nýbúinn skipta yfir í Windows 8 með nýrri Lenovo tölvu í vinnunni.

 

Hvaða tölva er best í geimi og afhverju?

Þó ég skilji ekkert í því af hverju ég fæ ekki að vera meira tæknimaður í vinnunni þá hef ég ekkert mikið vit á tölvum þannig lagað. Hins vegar er nýja Lenovo Thinkpad tölvan mín í vinnunni að gera helling fyrir mig.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Tiltölulega nýbúinn að skipta úr Samsung yfir í iPhone 5s.

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Ég er býsna hress með skiptin úr Samsung og finnst iPhoninn nokkuð snarpari en Samsunginn sem ég var með. Það myndi þó líklega hjálpa til að gera hann að yfirburðatæki ef hann væri með batterí sem entist. En þar sem ég er að fá iPhone 6 á næstu vikum þá þrauka ég.

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Væri góður með batteríi – en það er aldrei bara dans á rósum í neinu „hjónabandi“ … næsta spurning 

 

Í hvað notar þú símann mest? (top 5 listinn)

  • Tölvupóst
  • Samfélagsmiðlar alls konar …
  • Tónlist
  • Taka á móti símtölum
  • svo hringi ég annað slagið líka

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia auðvitað … gamli týpíski 5110 … hann reyndist vel … bæði hægt að hringja og svara og svo gat maður farið í Snake !

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Ég er spenntur fyrir iPhone 6 og mun kynna mér iPhone 6 plus … þó ég sé ekki spenntur fyrir að vera með ígildi fartövlu í vasanum 

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Æi þar mátaðir þú mig … telst innri vefur símans með ? En fótbolti.net ?

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Þetta var býsna skemmtilegt og ekkert víst að það klikki.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira