Heim Föstudagsviðtalið Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir

eftir Ritstjórn

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 58 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”,  harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

Viðmælandi okkar þennan fallega föstudag er glæsileg kona sem flestir ættu að þekkja til en þetta er hún Katrín Jakobsdóttir alþingismaður..

 

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Katrín Jakobsdóttir, Reykvíkingur og formaður Vinstri-grænna.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Er sem sagt þingmaður og hef verið það síðan 2007 en er íslenskufræðingur og fékkst við alls konar því tengt hér áður fyrr; kennslu, útgáfu og sitthvað fleira.

 

Hvernig er venulegur dagur hjá þér?

Mæti í vinnuna að morgni dags, ýmist á nefndarfund eða til að undirbúa þingstörf. Svo hefst þingfundur, venjulegast um hádegisbil og maður veit aldrei hvað hann stendur lengi. Ef maður er heppinn nær maður heim í kvöldmat og lestur með börnunum.

 

Lífsmottó?

Ekki eyða tíma í eftirsjá en reyna alltaf að gera betur.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Reykvískir tónlistarmenn eru nú margir! Megas, Retro Stefson, Víkingur Heiðar Ólafsson, Högni Egilsson, Sigríður Thorlacius, Daníel Bjarnason…gæti haldið endalaust áfram enda hlusta ég mikið á tónlist og get eiginlega illa gert upp á milli og svo hlusta ég líka á tónlistarfólk úr öðrum bæjum¨!

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?

Alþingi notar Windows og ég held mig við það!

Hvaða tölva er best í geimi og afhverju?

Ég er með iMac-tölvu heima og finnst hún mjög þægileg .

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Er með svokallaðan I-phone.

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Appelsínugula hulstrið utan um símann – það valdi ég af kostgæfni!

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Rafhlaðan klárast alltaf aðeins of snemma.

 

Í hvað notar þú símann mest? (top 5 listinn)

Hringja.
Svara.
Senda sms.
Stara á símann og bíða eftir að einhver hringi eða sendi sms.
Vekjaraklukkan er svo alltaf í notkun.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 5110… líklega árið 2001.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Ég sakna stundum gömlu góðu daganna með Nokia 5110-símunum þar sem rafhlaðan entist marga daga. Fyrir fólk sem notar aðallega síma til að tala í hann eru þeir ekki síðri en nýju snjallsímarnir!

 

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Eins og lesendur grunar kannski þá er ég ekki neinn tækninörd og get nú ekki sagt að ég fylgist með neinum tæknisíðum. Mér finnst betra að láta koma mér á óvart í búðinni – og taka afgreiðslumenn í þriðju gráðu þegar velja skal græjur.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Þrátt fyrir allar græjur er alltaf best að hitta fólk augliti til auglitis!

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira