Heim Microsoft Fréttatilkynning – Microsoft kynnir Windows 10

Fréttatilkynning – Microsoft kynnir Windows 10

eftir Jón Ólafsson

Ég fæ oft sendar fréttatilkynningar og stundum birti ég þær, ef þær vekja áhuga minn…  Hér er fréttatilkynning frá Microsoft þar sem verið að kynna nýja útgáfu af Windows stýrikerfinu sem við sögðum frá hér áðan en hægt verður að prufu útgáfu á morgun (preview)

 

 

—- Fréttatilkynning er birt óbreytt hér að neðan —-

 

Microsoft kynnir nýtt stýrikerfi

Fyrirtækið gefur innsýn í Windows 10, sem mætir þörfum fyrirtækja betur og opnar fyrir samvinnu Microsoft við notendur um framþróun stýrikerfisins.
Microsoft svipti í dag hulunni af nýjasta stýrikerfi sínu, Windows 10. Í þessu nýja stýrikerfi hefur sérstök áhersla verið lögð á úrbætur fyrir fyrirtækjamarkað s.s. með betra notendaviðmóti, auknu gagnaöryggi og öflugri aðgangsstýringum. Á sama tíma var kynnt til sögunnar nýtt verkefni sem nefnt hefur verið „opinn þróunarhópur Windows“ (e.Windows Insider Program (WIP)) en það er stærsta samstarfsverkefni sem Microsoft hefur ráðist í.
Terry Myerson, framkvæmdastjóri stýrikerfa hjá Microsoft: „Með Windows 10 er fyrsta skrefið stigið í átt að nýrri kynslóð Windows. Notendum bjóðast nýjar leiðir til að vinna, leika sér og tengjast öðrum. Þetta verður umfangsmesta stýrkerfið okkar og allra besta útgáfa af Windows sem fyrirtækjum hefur staðið til boða. Við hlökkum til að vinna með Windows-samfélaginu öllu að því að fullnýta möguleika Windows 10 á komandi mánuðum.“
Windows 10: Sama upplifun með ólíkum tækjum
Windows 10 aðlagast þeim tækjum sem eru í notkun hverju sinni, hvort sem það eru PC-tölvur, símar, Xbox, spjaldtölvur eða annað, og notandinn upplifir eitt og sama kunnuglega viðmótið sem stuðlar að meiri framleiðni. Windows 10 mun keyra á fjölda ólíkra tækja, allt frá nettengdum hlutum í umhverfinu („the Internet of Things“) til stórra gagnavera um allan heim. Samtímis er Microsoft að kynna til sögunnar sameinað hugbúnaðarvistkerfi (e. application platform) fyrir alla þá sem þróa hugbúnað fyrir þessi ólíku tæki. Forritarar munu geta hannað eina útgáfu af hugbúnaði sínum sem virka mun eins á þeim tækjum sem notandinn notar hverju sinni. Viðskiptavinum verður á sama tíma gert auðveldara að finna forritin, kaupa þau og uppfæra, óháð því hver þróunaraðilinn er.

 

Windows 10: Hannað fyrir áskoranir í nútíma fyrirtækjaumhverfi

Windows 10 inniheldur nánast allt sem fyrirtæki þurfa og það er innbyggt í sjálfan kjarna stýrikerfisins. Þar á meðal er fyrsta flokks öryggi, auðkennis- og upplýsingavörn sem einfaldar þá hlið rekstrarins og gerir það betur en sambærilegar lausnir. Sérstaklega hafa orðið framfarir á sviði auðkenninga sem draga úr hættu á innbrotum, þjófnaði og ólöglegri afritun persónuupplýsinga. Windows 10 mun einnig draga úr hættu á því að gögn tapist með því að nota svokallaða gagnaversgáma og með gagna-aðskilnaði bæði í hugbúnaði og skjalageymslu sem þýðir að vörnin fylgir gögnunum hvar sem þau eru notuð.
Uppsetning og stillingar hafa verið einfaldaðar til að lækka umsýslukostnað fyrirtækja auk þess sem uppfærslur verða innbyggðar í Windows 7 og 8 sem gera straujun á tölvum óþarfar. Fyrirtæki munu því hafa sveigjanleika í því hversu hratt þau uppfæra stýrikerfin sín, sem og geta haft áhrif á endurbætur á þeim. Einnig munu þau geta búið til eigin útgáfu af versluninni fyrir hugbúnað sem hentar þörfum starfsemi þeirra og umhverfis. App-verslun Microsoft mun bjóða upp á fjöldakaup á hugbúnaðarleyfum, samnýtingu leyfa og möguleika á því að endurnýta eldri leyfi þegar þörfin vaknar.
WIP opnar fyrir þróunarsamvinnu og hraðari uppfærslur á Windows

Hinn nýi opni þróunarhópur Windows (e. Windows Insider Program (WIP)) er stærsta samstarfsverkefni sem Microsoft hefur ráðist í. Með þátttöku í WIP geta notendur átt í beinum samskiptum við Microsoft og komið með ábendingar um stýrikerfið jafnóðum og það er í þróun. Samskiptin eiga að virka í báðar áttir. Markmiðið er að breyta því hvernig Windows-stýrikerfið er þróað og því dreift til notenda með það fyrir augum að sinna þörfum þeirra betur en áður.

 

Nokkrar helstu breytingar sem verða á virkni Windows

Þeir sem skoða tæknilegu prufu-útgáfuna af Windows 10 munu verða varir við aukinn sveigjanleika og bætta leitarmöguleika auk þess sem Windows-notendur munu koma auga á breytingar á ýmsum lykilvalmyndum, t.d.:

  • Stærri „Start“-valmynd. Hinn kunnuglega „start“-hnapp verður að finna á ný í Windows 10 og veitir hann greiðan aðgang að þeim forritum og skjölum sem fólk notar hvað mest. Í valmyndinni verður aukið pláss sem notendur geta sérsniðið að sínum þörfum, t.d. með því að bæta þar við uppáhaldsforritunum sínum, öppum, fólki og vefsíðum.
  • Öpp eru keyrð í glugga. Öpp sem náð er í úr Windows Store munu nú opnast með sama sniði og þau forrit sem vistuð eru í tölvunni. Hægt er að færa þau til, breyta stærð þeirra, og eru þau með sérstakri stiku efst þar sem notandinn getur valið að fella gluggann niður, láta hann fylla út í skjáinn, eða einfaldlega lokað honum með einum smelli.
  • Betri smellu-möguleikar. Með sérstökum smelli-skipunum er auðveldara en áður að vinna í mörgum öppum í einu. Hægt er að hafa allt að fjögur öpp á sama skjánum með nýrri ferningauppsetningu. Windows mun sýna önnur öpp og forrit sem eru í gangi innan seilingar og leggja til hvaða forrit eða öpp, sem búið er að opna, er hægt að láta fylla í autt pláss á skjánum.
  • Nýr verkefnastöðuhnappur. Nýi verkefnastöðuhnappurinn (e. Task View Button) gerir notandanum kleift að sjá á einum stað hvaða öpp og skjöl eru opin og auðveldar honum jafnfram að skipta á milli með skjótum hætti og að komast á hvaða skjáborð sem er með aðeins einni snertingu.
  • Mörg skjáborð. Í stað þess að vera aðeins með eitt skjáborð með fjölmörgum skjölum og öppum, er með auðveldum hætti hægt að búa til og skipta á milli ólíkra skjáborða. Hvert og eitt getur gegnt ólíkum tilgangi, t.d. eitt skjáborð sérstaklega fyrir vinnu og annað fyrir persónulega notkun, eða bæði.

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira