Samsung Galaxy S5

eftir Jón Ólafsson

Það er töluvert síðan ég notaði Android síma frá Samsung sem aðalsíma en síðast var það líklega Samsung Galaxy S4 mini. Ég var ekkert of hrifinn af þeim síma, fannst hann vera of hlaðinn af hugbúnaði sem vélbúnaðurinn réð illa við ásamt því að vera of dýr.

Það hefur oft verið sagt um Samsung Galaxy símana, þeir eru hannaðir út frá magni valkosta (specca stríð) frekar en gæðum og hönnunar. Það er svo sem einfalt að skilja þessa gagnrýni því fljótt á litið eru símtækin hlaðin kostum, skynjurum og hugbúnaði sem fæstir komast yfir að nota og margir virka bara “þokkalega”.

Framleiðendur tækla þessa síma misjafnlega, Apple einbeita sér að hönnun og smáatriðum í stýrikerfinu. HTC hanna í dag gullfalleg og vel hönnuð símtæki meðan Nokia framleiðir einföld og sterk símtæki með frábærri myndavél svo eitthvað sé nefnt.

Þessi “Samsung leið” þarf ekki að vera svo slæm enda hafa Samsung selt Galaxy síma og spjaldtölvur í bílförmum þannig að eitthvað eru þeir að gera rétt. Ég veit allavega að þegar mér bauðst að prófa Samsung Galaxy S5 frá emobi þá hlakkaði strax í mér. Núna bauðst mér gott tækifæri til að sjá hvort Samsung hafi loksins lagað það sem pirraði mig og hafa þeir byrjað á því að einbeita sér að gæðum og fágaðri hönnun í stað þess að bæta við kostum til að skáka samkeppnisaðilum sínum?

 

Hér má sjá Samsung Galaxy S5 afpökkun

 

 

Hönnun og vélbúnaður

Ég prófaði HTC One (m8) fyrir skemmstu og vil ég meina að hann sé einn fallegasti sími sem ég hef haldið á. Ég fékk strax þá tilfinningu að í höndunum hafi ég sterkan og vel smíðaðan síma. Ég fékk alls ekki þessa tilfinningu þegar ég handlék Samsung Galaxy S5 því í stað þess að fá gæða tilfinningu sem maður á von á í flagskipi þá er hann allur í plasti. Það sem verra er, hann virkar ekki sterklegur heldur frekar ódýr og viðkvæmur fyrir rispum og skemdum. Þrátt fyrir þetta þá er Samsung Galaxy S5 myndarlegur sími og verðugur arftaki forvera sinna en ég átti einhvern vegin von á einhverju sérstöku.

Samsung Galaxy S5 sem ég prófaði var gull litaður sem var furðulegt í byrjun en vandist ótrúlega vel en hann kemur einnig í hvítu, svörtu og bláu.

 

Samsung Galaxy S5 er að mörgu leiti keimlíkur Galaxy S4 í útliti og því kannski fátt frumlegt hægt að telju upp í útliti símans. Framhlið símtækisins er öll úr einu heilu glerstykki sem leggst vel inn í plastramma sem umleikur símann. Þessi rammi ver þennan gullfallega og líflega skjá en það eina sem sést á framhlið er örþunn rauf að ofan þar sem hátalarinn er ásamt einum heimtakka sem er með innbyggðum fingrafaralesara. Allur frágangur á framhlið er til fyrirmyndar og greinilega vandað vel til verka.

 

galaxys5_1

 

Síminn er með rúnuðum hornum eins og aðrir Galaxy símar, hann liggur mjög vel og örugglega í hendi. Hliðar eru eins og fyrr segir allar úr plasti sem er frekar ódýrt viðkomu. Galaxy S5 er með einn power takka á hægri hlið og hækka/lækkatakka á vinstri hlið en þeir virðast vera úr plasti en samt nokkuð sterklegir. Staðsetning takka er mjög góð og einfalt að ná til þeirra með annari hendi. Ég sakna þess þó að hafa ekki sér takka fyrir myndavél en þetta er ekki bundið við Galaxy S5 heldur virðist vera orðin lenska hjá mörgum framleiðendum.

Bakhlið símans er gerður úr einu riffluðu plaststykki sem venst mjög vel og virðist vera sterklegt. Á bakhlið er Samsung logo, hátalari, myndavél, auka sensor ásamt LED myndavélaflashi.

 

Helstu stærðir.

  • Hæð 142.4 mm
  • Þykkt 8.1 mm
  • Breidd 72.5 mm
  • Þyngd 145 gr

 

Eins og við er að búast þá tekur Samsung, af alvöru, þátt í vélbúnaðarkapphlaupi annara framleiðanda með Galaxy S5 sem er mjög vel búinn vélbúnaðarlega. Hann skartar nýjasta Snapdragon 801 kubbasettinu og keyrir á fjórkjarna 2.5 GHz Krait 400 örgjafa og Adreno 330 skjástýringu og ætti því að ráða við allt sem notendur vilja keyra á símanum. Hann er einnig með 2GB í vinnsluminni sem er á pari við flest öflugustu símtæki á markaðnum í dag en þó minna en í Xperia Z2 sem er með 3GB. Þessi öflugi örgjörvi og vinnsluminni skilar sér í viðbragðsgóðu viðmóti og hef ég aldrei orðið var við neinu hökti í símann, hvort sem er í stýrikerfinu sjálfu, forritum eða í leikjum enda óeðlilegt á svo dýrum síma.

 

galaxys5_7

 

Eins og oft þegar við prófum flagskip með flottri myndavél þá setjum við spurningarmerki við tæki sem eru með aðeins 16GB geymslurými. Það er reyndar hægt að fá Galaxy S5 með 32GB geymslurými líka ásamt því að það er hægt að bæta við allt að 128 GB microSD korti. Það er kostur enda ódýr og góð leið til að fá meira pláss þannig að þetta ætti alls ekki að vera vandræði á Galaxy S5.

 

Tengimöguleikar

Ég hugsaði það sama þegar ég sá að Galaxy S5 væri vatnsvarin og þegar ég prófaði Sony Xperia Z1,  ég aldrei fundið þörf eða löngun til að taka kaupa mér vatnsvarinn síma. Þegar ég hugsa til bara þá hef ég reyndar “lent í því” að eyðileggja þrjú símtæki í vatni en það er önnur saga.

Samsung Galaxy S5 er sem sagt með IP67 vottun sem þýðir að hann er ryk- og vatnsvarinn fyrir 1 metra dýpt í 30 mínúndur. USB 3.0 tengið er því varið með loki sem þarf að opna til þess að komast í það, þetta er stór ókostur að mínu mati en þetta er málamiðlun sem verður að vera til að gera tækið vatnshelt. USB tengið styður USB 3.0 staðalinn og því mun meiri gagnahraða, venjuleg USB 2.0 snúra virkar líka og því ekki þörf að kaupa sérsnúru með Galaxy S5.

 

Ég tengdi símtækið við tölvuna (Windows 8.1) til að sækja ljósmyndir sem ég hafði tekið og var það nokkuð einfalt. Síminn kom fram My Computer og myndirnar þar inni í möppu sem heitir „DCIM\Camera“.

Efst á síma er einnig 3.5 mm heyrnartólstengi sem er alltaf opið en það þarf ekki lok yfir til að gera tækið vatnshelt. Galaxy S5 er með Bluetooth 4.0, Infrared og með þráðlausu neti eins og við er að búast sem styður 802.11 a/b/g/n/ac og allar helstu dulkóðanir sem skipta máli. Mér finnst frábært að hafa Infrared port á síma þar sem ég get þá notað hann til að stýra sjónvarpinu eða öðru tæki sem notar hefðbundna IR fjarstýringu.

 

galaxys5_3

 

Samsung Galaxy S5 er einnig með NFC kubb sem býður meðal annars uppá borganir, samnýtingu gagna, og notkun NFC merkja ásamt því að hafa fingrafaralesa til að aflæsa síma. Fingrafaralesari virkaði ágætlega en ég þurfti samt að strjúka rólega og nákvæmlega yfir hann til að fá símann til að opnast. Meira gimic í Galaxy S5 eins og staðan er í dag en það mun mögulega breytast með hugbúnaðuppfærslu.

LTE (4G) væðingin er komin vel af stað hjá Íslenskum símfyrirtækjum og verður notast við 800/1800 böndin á Íslandi. Samsung Galaxy S5 styður 4G hérlendis að fullu og vel það en týpan sem þú átt að fá þér heitir SM-G900F og styður hún eftirfarandi tíðnir: 800 / 850 / 900 / 1800 / 1900 / 2100 / 2600

 

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlaðan var uppfærð töluvert og er nú 2800 mAh, ég er mjög ánægður með endinguna á henni en Samsung lofar notendum nú mun betri endingu en áður.

Taltími: 21 tímar
Biðtími: 16 dagar

Rafhlöðuending er frábær og á pari við það sem erlendir miðlar segja. Flestir gefa Galaxy S5 góða einkunn þegar kemur að rafhlöðuendingu og núna eftir tveggja viku notkun erum við sammála því. Við erum alltaf að klára daginn með töluverða hleðslu í lok dags, jafnvel þó svo að við notum símann og myndavél töluvert mikið í prófunum okkar.

 

galaxys5_5

 

Venjulegur dagur hjá mér er að taka nokkuð af ljósmyndum ásamt því að vera ávallt tengdur við WiFi eða 4G ásamt því að samstilla þrjá EAS tölvupóstreikninga. Má hafa í huga að léleg ending á fyrstu 1-2 dögum er oft eðlileg meðan símtækið er að index´a gögn notenda.

Hér má sjá nokkur ráð sem ég tók saman fyrir Windows síma en þau ráð eiga við um önnur símtæki ef þú vilt lengja rafhlöðuendinguna .

Stýrikerfið og lyklaborð er hægt að hafa á íslensku sem er kærkominn viðbót og ætti að einfalda og létta mögum lífið, íslensk þýðing á kerfinu er reyndar í besta falli sæmileg en nokkuð einfalt er þó að rata um kerfið. Lyklaborðið í Galaxy S5 er mjög gott og þæginlegt er að nota það til innsláttar sérstaklega er gott að hafa fullt lyklaborð ásamt því að hafa númeraröð efst en það flýtir mikið fyrir.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Samsung Galaxy S5 er stór og fallegur Super Amoled snertiskjár sem leysir öll verkefni frábærlega. Skjárinn er 5.1″ og varinn með Corning Gorilla Glass 3, hann styður upplausnin uppá 1980×1080 punkta (Full HD).

Punktaþéttleikinn er 432ppi sem er gott á alla mælikvarða og öll snertivirkni er mjög góð en erfitt er að nota símann með blauta fingur eða í vettlingum sem mér þykir sérstakt þar sem síminn er vatnsheldur og því líklega ætlaður til notkunar við erfiðar aðstæður.

 

galaxys5_11

 

Skjárinn er áberandi bjartur og líflegur, litir eru mjög líflegir og litadýpt með því besta sem ég hef séð í snjallsíma. Skjárinn er sannarlega í sérflokki og eitt af aðalsmerkjum þessa símtækis.

Myndir sem ég tók á Samsung Galaxy S5 (default stillingar) voru 4 – 6 MB að stærð og í 5312×2988 upplausn sem er einmitt það mesta sem tækið styður. Samsung segjast hafa lagt mikla áherslu á myndavélina og er hún góð. Hún er alls ekkert einstök en hún er samt mjög góð. Myndavélin er með 1/2.6″ myndflögu (sensor) með IS (Image Stabilization), HDR og Panorama svo að eitthvað sé nefnt.

Samsung segjast geta tekið á hvern sem er þegar kemur að myndavélinni og eru það nokkuð stór orð þegar samkeppnin samanstendur af ljósmyndasímum eins og Nokia Lumia 1020 og Sony Xperia Z1/Z2 svo eitthvað sé nefnt.

 

 

Myndir sem ég tók með vélinni voru yfirleitt mjög góðar, vélin var mjög fljót að focusa og halda focus þótt að viðfangsefnið væri á hreyfingu. Vélin er mun fljótari en hún var í Galaxy S4 og almennt mun betri í notkun að flestu leiti. Eina sem ég get sett út á myndir úr vélinni er að stundum virtust myndirnar vera ofmettar litum sem gáfu myndunum einstaka sinnum gervilegan litakeim. Samanborið við aðra síma sem ég hef prófað þá er þessi vél þó mjög góð og fyrsti síminn sem leysir HDR myndir frábærlega.

Eins vel og myndavélin stendur sig í góðri birtu þá stendur hún sig illa þegar birta er lítil og er gríðarlega lengi að taka myndir. Þetta er oft vandamál þegar pixlar aukast en þá verða myndir oft skarpari og dekkri á sama tíma. Má segja að myndataka í rökkri eða myrkri hafi tekist u.þ.b. í 50% tilfella. Þegar myndað er í rökkri þá verða myndir mjúkar og óskýrar meðan þær verða nær ónothæfar í lélegri birtu þar sem hugbúnaðurinn í símannum fer að lýsa myndir til að reyna gera þær nothæfar.

Segja má að símar séu ekki hannaðir sérstaklega til að nota við léleg birtuskilyrði en langflestar myndir sem ég tek eru innandyra þegar birtan er döpur eða mjög slök. Ég hef samanburð af Lumia 925, Lumia 1020 og Lumia 1520 og standa þeir sig allir mun betur en Galaxy S5 við léleg birtuskilyrði. Þetta skiptir mig máli en þarf vitanlega ekki að skipta aðra neinu máli.

Samsung Galaxy S5 er reyndar með mjög gott LED flash sem virkaði ágætlega í prófunum (allt að 2m) en ég hefði þó viljað fá mun öflugra Xenon flash til að bæta fyrir dapra virkni við léleg birtuskilyrði.

 

galaxys5_13

 

Eins og komið hefur fram tekur Samsung Galaxy S5 mjög góðar ljósmyndir við góð birtuskilyrði og það skilar sér vel í videóupptöku. Hægt er að taka upp myndbönd í eftirfarandi upplausn

  • 2016p @30fps upplausn eða 4K
  • 1080p @60fps eða Full HD
  • 720p @120fps HD

Með því að fara inn í handvirkar stillingar er hægt að stilla vélina enn meira og einnig kveikja myndbandslýsingu ef taka á myndbönd af stuttu færi við lélega lýsingu svo að eitthvað sé nefnt.

Eins og annars staðar í símanum þá er myndavélin hlaðin valmöguleikum og taldi ég 27 valkosti í myndavélinni. Það er gott að hafa valkosti en allir þessir möguleikar eru ruglingslegir fyrir venjulega notendur. Ég þurfti reglulega að halla mér að leiðarvísi símanns til að átta mig á þessum valkostum en samt tel ég mig vera mjög vanan notenda.

 

Hátalarinn í Samsung Galaxy S5 er eins og fyrr segir aftaná símtækinu og varpar því hljóði frá notenda. Hann skilar mjög góðum hljómi hvort sem var við símtöl með hátalara eða við tónlistarafspilun. Vitanlega mæli ég alltaf með heyrnartólum frekar en að nota þessa tóngrönnu hátalara við tónlistarafspilun en hátalarinn er þó með þeim betri sem ég hef prófað.

 

 

Margmiðlun og leikir

Margmiðlunarupplifun í Samsung Galaxy S5 er mjög góð og ræður hann við að spila og gera “allt” það sem ég ætlaði honum. Hvort sem það var leikur sem ég sótti af Google Play, bíómynd af innra-minni, Youtube video eða aðra vefstrauma. Það er lítið sem ekkert hik í vinnslu (lag) símanns enda er hann eins og fyrr segir mjög vel búinn vélbúnaðarlega.

Galaxy S5 er eins og aðrir Android símar með góðum tónlistarspilara en með honum ásamt þjónustu eins og Spotify áskrift eða Google Music þá ertu kominn með öfluga tónlistarkosti. Einfalt er einnig að bæta við tónlist eða bíómyndum beint af tölvu og ætti Galaxy S5 að ráða við allt sem þú gætir vilja notað hann í.

Það er kostur að hafa rauf fyrir auka minniskort þar sem einfalt er að samnýta það fyrir ljósmyndir og annað margmiðlunarefni á stóru SD korti.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Samsung Galaxy S5 sem ég var með kemur með Android Kit Kat, útgáfu 4.4.2 og er því að keyra nýjustu útgáfuna af Android.

Galaxy S5 kemur ágætlega útbúinn hugbúnaðarlega sem gerði það að verkum að mig vantaði ekki mörg forrit til viðbótar. Helsta sem mig vantaði var vegna vinnu og lenti ég enn og aftur í málamiðlunum þegar kemur að vinnslu með Office skjöl en ég þarf eins og margir að geta unnið með þau í símtækinu. Ég þarf einnig að geta unnið með Office skjöl beint af SharePoint en öll vinna á Android er takmörkuð þegar kemur að því en þó einfaldari í dag því með Onedrive appi Microsoft þá get ég allavega samstillt þau og unnið í Onedrive.

Þar sem þetta er Android sími þá fylgir Google svítan með ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka ásamt fullt af krúsidúllum sem Samsung hafa bætt við.

 

galaxys5_4

 

Það eru kostir og gallar við allan þennan hugbúnað sem fylgir með því meðan það er gott að hafa úr miklu að velja þá er það líka galli. Ég reikna með að margir nota ekki nema hluta af þessum Samsung forritum sem taka þá óþarfa pláss og þvælast fyrir. Það er einnig truflandi að vera með á nýju tæki tvö forrit sem gera sama hlutinn eins og t.d. tvö myndaalbúm og tvo tónlistarspilara.

Vitanlega eru margir ósammála mér og það er bara allt í lagi en þessar hugbúnaðarlausnir ásamt plasthönnun eru einn af mestu ókostum við Samsung Galaxy S5 að mínu mati. Það er ekki endilega best fyrir notenda að hafa símann hlaðinn af hugbúnaði, nemum og stillimöguleikum því fæstir kunna eða hafa áhuga á því að finna útúr þeim og stilla.

Ég hef áður fjallað um það hér að of mikið val er ekki endilega besta lausnin en hún hentar vitanlega mörgum.

 

Það er líka ýmis furðuleg virkni sem notendur “lenda í” þegar ýmis forrit eru notuð í fyrsta skipti. Einfalt dæmi þá kom upp gluggi sem þegar ég var búinn að taka fyrstu ljósmyndina sem spurði mig hvernig ég “vildi klára þessa aðgerð”. Þá gat ég valið hvort ég vildi skoða myndir í Samsung Albúm eða Google Photo en bæði þessi forrit eru þarna þó svo að ég noti bara annað þeirra. Það má líka taka fram að þó svo að ég sé nokkuð vanur snjallsímum og þ.m.t. Android þá tók mig töluverðan tíma að finna þessa valkosti í stillingum þegar ég skipti um skoðun og vildi breyta sjálfvali.

Talandi um stillingar þá eru þær yfirþyrmandi margar en Samsung hefur greinilega ekkert gert til að einfalda notendur notkun símanns. Þá leið hafa aðrir framleiðendur farið með einföldu viðmóti. Ég las einhversstaðar að valkostir á Galaxy S5 (undir Settings) séu 61 talsins, ég staðfesti það ekki með talningu en get þó staðfest að þeir eru alltof margir, þreytandi og ruglingslegir. Annað dæmi er tilkynningagluggi (notification pull-down) sem birtist þegar dregið er frá toppi og niður skjáinn en undir honum taldi ég 22 mismunandi valkosti þar sem hægt er að stilla allt frá flugstillingum að birtuskilyrðum.

Alltaf gott að geta sérsniðið tækið eftir eigin höfði en öllu má nú ofgera og nóg að hafa þetta undir stillingum að mínu mati.

Til viðbótar við að vera hlaðinn hugbúnaði og of flóknum stillingum sem ég reikna með að fæstir noti að staðaldri þá er búið að sérsníða stýrikerfið ansi langt frá því sem það er beint frá Google. Viðmótið frá Samsung heitir TouchWiz og þó að það sé mun betur skipulagt og laglegra en það hefur verið þá hefur það ekki verið lagað nóg að mínu mati. Enn í dag stendur notendum til boða meira en 10 leiðir til að gera sama hlutinn sem er bara til að rugla notendur.

Það er ýmislegt að hrjá hugbúnaðinn í símanum, flest allt hnökrar sem verða líklega lagaðir með uppfærslu. Sem dæmi þá lenti ég mjög oft í því að vera að stroka út texta sem ég var að skrifa með því að ýta hratt eða halda inni backspack og þá eyddust heilu línurnar. Þetta er óeðlileg virkni á þarf að laga en er bara einn lítill böggur af mjög mörgum sem ég rak mig á.

galaxys5_9

 

Styrkur Android er sannarlega gott app bakland og sótti ég mér Facebook, Twitter, Vine, Instagram, QuizUp, OneDrive, Snapchat, Dominos app og Snjallsjónvarp Símans til viðbótar við innbyggt forrit sem fyrir voru.

Leiðsöguhugbúnaður sem fylgir ókeypis með Android símum er frá Google og byggir á kortum úr Google Maps. Mín reynsla af Google Navigation er sú að þetta virkar mjög vel í borgum erlendis en er takmarkað í minni löndum eins og Íslandi og þá sérstaklega utan Reykjavíkur. Ég er t.d. óendanlega fúll yfir því að gatan mín sé ekki enn kominn í Google Maps þó svo að hún sé aðeins 4-5 KM fyrir utan Akureyri og er orðin rúmlega 10 ára.

Google Navigation er með ekki með “offline” virkni og kort og leiðsöguupplýsingar því stanslaust sóttar yfir 3G/4G og er nær ónóthæft með íslensku símakorti erlendis vegna kostnaðar. Það er þó búið að benda mér á forrit sem ég hef þvi miður ekki haft tækifæri til að prófa sjálfur en það heitir OsmAnd. Ég renndi reyndar yfir lýsingu og ummæli (reviews) í Play Store og sé að það er hægt að sækja kort og nota án gagnatengingar (offline). Sú virkni, kortin sjálf og almennir kostir sem notendur eiga að vænta í góðu leiðsöguforriti eru þó mun lakari eða einfaldlega ekki til staðar í þessu forriti. Kortin eru frá OpenStreetMap meðan t.d. Nokia Lumia símar nota sömu kortgrunna (og POI) og Garmin leiðsögutækin nota.

Hér má sjá Youtube video sem sýnir offline samanburð á Nokia Here Drive en í því er hægt að sækja kort og nota án gagnatengingar og Google Navigation.

 

Þegar ég ferðast erlendis þá er ég oftast með erlent SIM kort og get því notað Google Navigation og er það mjög gott með gagnatengingu.

 

 

Niðurstaða

Samsung Galaxy S5 er frábær sími og má segja að hann sé með þeim bestu sem þú getur fengið í dag. Samsung gerðu úrbætur frá Galaxy S4 á helstu stöðum eins og myndavél, rafhlöðuendingu og skjánum. Ég get vel mælt með Galaxy S5 og ég veit að hann mun seljast í bílförmum enda mjög öflugt og gott flagskip.

Niðurstaðan er samt örlítið blendin því ég vill einfaldlega meira en þessi sími hefur uppá að bjóða. Hann er ekki jafn fallegur og HTC One, Sony Xperia eða Nokia Lumia 925 eða 1520 svo að dæmi séu tekin. Stýrikerfið er alls ekki jafn einfalt eða fágað og samkeppnisaðilar bjóða uppá, hvort sem það eru aðrir Android símar eða ekki. Samsung er leiðandi aðili á þessum markaði og sökum þess og margra annara valkosta sem til sölu eru þá geri ég miklar kröfur til Samsung og þeir eru ekki að standa undir þeim að mínu mati.

Jú hann er vel búninn vélbúnaðarlega. Gríðarlega hraðvirkur, skjárinn er frábær, myndavélin mjög góð og rafhlöðuendingin er frábær en hvað með það? Ég skil ekki afhverju í ósköpunum það þarf að pakka þessum flotta vélbúnaðarpakka í svona ódýra plastumgjörð sem breytist/þróast lítið milli símtækja.

 

galaxys5_2

 

Samsung Galaxy S5 er ágætis uppfærsla frá S4 en samt ekki það stórvægileg að eigendur Galaxy S4 (eða S3) þurfi að uppfæra. Það eru helst þessi þrjú atriði sem ég hef talið upp sem hafa lagast mikið og gera tækið mun betra eða rafhlaða, skjár og myndavél.

Að þessu sögðu eru lokaorð mín þau að ef þig vantar vantsheldan snjallsíma með öllu þessu nýjasta og besta þá er Samsung Galaxy S5 frábær sími og líklega með þeim bestu sem þú getur mögulega fengið með Android stýrikerfinu.

Mig langar samt að benda þér á að skoða t.d. HTC One (m8 eða jafnvel m7), Sony Xperia Z2, Nokia Lumia 925 eða 1520, iPhone 5 áður en þú ákveður þig.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

1 athugasemd

Thor Valdimarsson 18/05/2014 - 21:50

Frábær umsögn!!

Reply

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira