LG G2

eftir Gunnar Ingi Ómarsson

Lappari fékk í hendurnar eitt stykki LG G2 til prófunar og var mér falið það verkefni að rúlla þessum grip í gegnum allskyns notkun og prófanir. Ég verð að viðurkenna að ég er búinn að vera nota Galaxy S2 í mjög langan tíma en ég var svo lánsamur að fá eitt tæki úr fyrstu sendingunni sem kom til landsins og því hef ég ekki verið að handleika öll nýjustu tækin en er þó vanur að nota Android.

LG G2 síminn var flaggskipið frá LG þegar ég fékk tækið í hendurnar og hafði ég aðeins heyrt góða hluti um þetta tæki sem gerði það að verkum að ég hlakkaði mikið til að fá prófa gripinn. LG er þó ennþá í mínum huga meira svona sjónvarps og heimilistækja merki, en það nú Samsung líka, en þeir eru á góðri uppleið í snjallsíma bransanum.

Eins og ég minntist á áður þá er ég Android notandi og búinn að vera það lengi, sem dæmi má nefna var ég að nota Samsung Galaxy (GT-i7500) sem var fyrsti Android síminn frá Samsung. Það má því segja að ég sé búinn að vera Samsung maður frá upphafi Android notkunar minnar en ég er opinn fyrir nýjungum og alltaf til að prófa nýjar græjur.

En við skulum snúa okkur að umfjölluninni og alltaf gaman að byrja á hinum margfrægu Lappari afpökkunum.

 

 

Hönnun og vélbúnaður

LG G2 fylgir þessum staðli sem er í gangi núna að vera með mjúkar línur, á hornum sem og á bakinu. Tækið er dálítið stórt og það er ekki á hvers manns færi að ná horna á milli á skjánum, en ég er með dálítið stórar hendur þannig að ég fann ekki fyrir því að það angraði mig. Mér fannst símtækið skemmtilegt í meðhöndlun og hann passaði fínt í vasann á buxunum þó að ég þyrfti aðeins að hagræða honum þegar ég settist. LG virðist hafa tekið dálítið úr hönnunarstefnu Samsung með þessu tæki en ef eitthvað virkar þá er ekkert að því að nota það.

Síminn er allur úr plastefni og bakhlutinn er með smá “munstri” til að minnka plast útlitið en það virkar nú aðallega úr fjarlægð. LG tók þá skringilegu ákvörðun að setja hækka/lækka takkann og power takkann aftan á símtækið undir myndavélalinsunni. Þetta er ákvörðun sem ég bara get hreinlega engan veginn skilið því mér finnst þetta vera stærsti gallinn við símtækið og þetta var að pirra mig allan tíman sem ég var að prófa tækið. Eins og ég sagði þá eru þessir takkar fyrir neðan 13MP myndavélalinsuna sem er þá líka aftan á símtækinu ásamt LED flash sem er staðsett við hliðina á linsunni. Neðst á bakhliðini er svo logo LG.

 

lgg2_4

 

Framhlið símans er alveg þakin gleri nema þar sem hljóðið kemur út þegar talað er í síman, einnig er lítil 2.1 MP myndavélalinsa staðsett við hliðina á hljóðútgangi. Það eru engir físískir takkar framan á tækinu heldur eru bara snertitakkar neðst á þessum 5.2″ gullfallega skjá og það má sko með sanni sagt að skjárinn og framhliðin á þessu tæki er alveg einstaklega vel gert. Ólíkt Samsung er LG svo með logoið sitt neðst á framhliðinni eins og á bakhliðinni. Eitt af því sem mér fannst hvað skemmtilegast við þennan síma er að hann reynir ekki að ramma þig inní einhvern staðal sem þeir vilja.

Það er augljóst þegar valmöguleikar eru skoðaðir fyrir “navigation” snertitakkana sem birtast neðst á tækinu en hægt er að velja á símanum nokkra valmöguleika, t.d. hvort “back” takkinn er hægra meginn við “home” takkan eða vinstra meginn. Svona einfaldir hlutir fá mín hrós því ég veit fátt eitt leiðinlegra en að þurfa alltaf að læra upp á nýtt hvort maður fer til baka með því að ýta á vinstri eða hægri takkann. Einnig býður þetta upp á að vera með 3 eða 4 takka.

 

LG G2 “dettipróf”

 

Mér fannst ekki nægilega gott að það væri enginn takki sérstaklega til að taka tækifærismyndir á myndavélina, það hjálpar við myndatöku þar sem ekki er alltaf hentugt að ýta á takkann á skjánum. Einnig fannst mér stórundarlegt að vera með 3.5 mm hljóðtengi neðan á símanum í stað þess að það væri ofaná, en það má hreinlega flokka sem sérvisku í mér. Ég verð líka að viðurkenna að ég þurfti að fletta því upp hvar í ósköpunum SIM kortið átti að fara því bakhliðin er “föst”, og ekki hægt að opna á auðveldan hátt, og þá sá ég að simkortið fer í lítinn bakka sem maður nær út með sérlegu áhaldi sem er G með smá pinna að neðan. Mér fannst þetta pínu skondið frekar en kjánalegt en þetta minnti mann pínu á þegar þurfti að opna straumlaus geisladrif með bréfaklemmu. Þá finnst mér galli að ekki er hægt að stækka geymsluplássið í símanum með einhverskonar SD korti eða álíka lausnum. Miðað við að ég er yfirleitt með Galaxy S2 tæki þá er LG G2 aðeins þyngra en ég er vanur en miðað við stærð á skjá og batterý þá fannst mér aukningin í þyngd ekki svo mikil.

 

LG G2 kemur í tveimur útgáfum 16GB og 32Gb, er með 2GB vinnsluminni og 2.6GHz Quad-core Karit 400 örgjörvi. Símtækið kemur í hvítu, svörtu, rauðu og gylltu. Vélbúnaðurinn í þessu tæki segir ekki alla söguna en gerir engu að síður að verkum að þetta símtæki virkar mjög skemmtilega.

 

LG G2 auglýsing

 

Stærðir

  • Hæð  138.5 mm
  • Þykkt  8.9 mm
  • Breidd  70.9 mm
  • Þyngd 143 gr

Eins og ég minntist á áður þá er ekki hægt að stækka geymslurými símans, sem er galli, og síminn kemur í 16GB og 32GB útgáfum. Þetta gefur ekki mikið rými fyrir myndir eða myndskeið þegar búið er að setja upp þann hugbúnað sem fólk notar dagsdaglega og svo það sem stýrikerfið notar, tala nú ekki um ef fólk ætlar að geyma margmiðlunarefni líka. LG G2 fylgir því sama fari og t.d. Lumia 1020 að vera takmarkað um innra geymslurými símans. Það er þó hægt að sækja og setja upp lausnir eins og SkyDrive, GDrive eða Dropbox til að vista ljósmyndir og gögn

 

 

Tengimöguleikar

LG G2 er með 3.5 mm tengi fyrir heyrnatól neðst á símanum við hliðina á hefðbundnu microUSB. Það þýðir að þú getur notað allar microUSB snúrur sem þú átt fyrir án þess að þurfa einhverskonar millistykki eða sérstök tengi.

Tækið virkar virkar eins og önnur símtæki sem ég séð og prófað þegar þau eru tengd við tölvu og myndirnar sömuleiðis á svipuðum stað og í öðrum símum og myndavélum. Það þarf þó að muna að virkja data transfer ham tækisins þegar það tengt með USB því staðgefinn stilling gerir ráð fyrir að það sé bara verið að hlaða með USB þegar það er tengt við tölvu.

Þráðlaust netkort er eins og í flestum öðrum nýjum símum í dag Wi-Fi 802.11 a/b/g/n/ac. Svo er að sjálfsögðu Bluetooth 4.0, infrared port, NFC (Near Frequency Connector), FM útvarp og GPRS. 4G er líka í símanum á 1800 MHz bandbreiddinni sem virkar hér á landi ásamt gamla góða 3G.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlaðan í þessari flottu græju kom mér á óvart en hún virkaði alveg þrusu vel. Ég notaði símann í vinnu og var með 1 EAS póst tengdan, 3 gmail, twitter og facebook tengt, Wi-Fi var tengt þegar það var hægt og 3G/4G þá þegar ekki var Wi-Fi. Með þessa notkun þá var ég yfirleitt nokkuð öruggur með það að síminn entist í rúman einn og hálfan sólahring, eða 36 tíma, ef ég var ekki þeim mun meira að tala í símann. Það er þó galli við tækið að ekki er hægt að skipta um rafhlöðu. LG gefa semsagt síman með eftirfarandi endingu.

  • Tal yfir 2G: 16:30 tímar
  • Tal yfir 3G: 17:30 tímar
  • Biðtími: 37,5 dagar
  • Tegund: Li-Po 3000 mAh

Lyklaborðið á LG G2 er mjög fínt og mér fannst ekkert varhugavert við það, að undanskyldu að ég sá ekki að hægt væri að fá íslenska stafi á það. Það var einn mjög sérstakur fítus sem stóð uppúr með lyklaborðið en það var að hægt var að skipta því í tvennt þannig að allir takkar væru auðvelt að ná með þumli og það hjálpaði til muna við að skrifa á það. Ég þurfti svo að setja inn íslenskt lyklaborð sem viðbót og missti því þennan fítus.

 

lgg2_5

 

Hægt er að stilla Android á íslensku sem er örugglega fínt fyrir suma en ég er af gamla skólanum með þetta og hef ævinlega símana sem ég nota á Engilsaxnesku.

 

Hljóð og mynd

Ég var nú búinn að minnast á 5.2″ gullfallega skjáinn á þessum síma og það má bara impra betur á því. Þetta er semsagt True HD-IPS + LCD skjár með 16M litum, 1080×1920 punkta upplausn sem gefur okkur ~424ppi pixel þéttileika. Skjárinn var eitt af því sem heillaði mig hvað mest, allir litir komu fallega út á honum og voru mjög líflegir. HD myndbönd á youtube komu sérstaklega vel út í þessum skjá og mér finnst ótrúlegt hvað það er hægt að ná skemmtilegum gæðum á svona “litlum” búnaði.

Myndavélin í símanum er mjög góð að mínu mati, hvort heldur sem er ljósmyndataka eða myndbandsupptaka. Vélin er snögg og þæginleg í notkun, mjög fljótlegt að kveikja á vélinni og byrja að mynda, myndavélaforritið sjálft er eitt það besta í Android símum sem við höfum prófað. Furðulegt að hafa ekki sérstakan takka á símtækinu sjálfu fyrir myndavélina því notendur þurfa alltaf að opna símtækið, leita að myndavéla forritinu áður en hægt er að byrja að mynda. Þetta er kannski ekki stórmál fyrir flesta en tækifærið getur verið farið ef þetta tekur of langan tíma.

 

lgg2_6

 

Myndavélin er 13MP og með Optical Image Stabilization sem gerir mun auðveldara að taka óhreifðar og skýrar myndir. Fram myndavélin (fyrir Selfie) er 2.1MP (1080p@30fps) og ágæt í myndsímtöl ætti að duga í spennandi sjálfmyndatækur.

Einstaka sinnum fannst mér vélin lenda í vandræðum með að focusa þegar aðdráttur er notaður og í myndbandsupptökum. Helst var það í lengri upptökum þar sem mikið var um að vera en þá færði síminn focus af viðfangsefninu yfir á eitthvað annað sem var í jaðrinum sem endaði oftar enn ekki í hálfónýtri upptöku. Litir voru annars afbragðsgóðir og við góð birtuskilyrði var mjög gaman að skoða dýptina á litunum sem myndavélin náði að beisla. Vélin er mjög góð fyrir útimyndatökur ásamt því að standa sig nokkuð vel innanhús.

 

Margmiðlun og leikir

Ég prófaði, eins og fyrr segir, að horfa dálítið á youtube myndbönd á símanum og það kom einstaklega vel út. Þá prófaði ég einnig að sækja alvöru myndbönd í hinum ýmsu gæðum og á gömlum myndböndum fékk sama fílinginn og þegar ég fékk fyrst alvöru sjónvarp, gömul myndbönd urðu bara betri en ef maður horfði í tölvu. Þá prófaði ég líka að opna slatta af forritum og það var voðalega lítið mál að flakka á milli því síminn er mjög vel búinn þegar kemur að vélbúnaði.

 

lgg2_2

 

Eins og aðrir Android símar þá kemur LG G2 með fínum tónlistarspilara og hægt að setja upp viðbótarþjónustu eins og Spotify eða Google Music, sjálfur nota ég Spotify mest. Þá geturu líka alltaf bætt við tónlist beint inn á síman sem þú átt til á tölvunni þinni.

Ég er ekki mikill leikjagaur þegar kemur að smartsímum en ég ákvað að breyta aðeins til og prófa nokkra og það var sama uppá bátinn þar, allt keyrði eins og ekkert væri og þetta leit frábærlega út á þessum flotta skjá.

 

Hugbúnaður og samvirkni

LG G2 tækið sem ég fékk í hendurnar kom með Android útgáfu 4.2.2 (Jelly Bean) en á að vera hægt að uppfæra i 4.4.2 (KitKat). Eins og margir vita þá keyra flestir framleiðendur sitt eigið distro (distribution) af Android, oft á tíðum með einhverskonar breytingum á application launcher, almennum stillingum og svo eiginn hugbúnað. Android distroið frá LG var ótrúlega snarpt og viðbragð við snertiskjáinn með því betra sem ég hef prófað. Ég hef yfirleitt ekki verið mikið að spá í þeim hugbúnaði sem fylgir símunum, reyni oftar en ekki að henda út því sem ekki þarf að vera þarna til að reyna straumlínalaga aðeins og fá betra performance útúr tækinu, en ég gerði það ekki í þetta skipti þar sem ég gefa álit á símanum eins og almennur notandi myndi nota hann.

Það sem hefur oftar en ekki verið kalla Google svítan hérna á Lappari, Google Mail, Docs, Calendar, Drive og fleira, er að sjálfsögðu til staðar í þessu símtæki og virknin á því er eins og á flestum þeim símtækjum sem ég hef prófað, semsagt alveg vandræðalaust. Fyrir þá sem hafa ákveðið að fara Microsoft (MS) lausu leiðina þá er þetta flott leið en fyrir þá sem vilja fara MS leiðina þá er alltaf að bætast í þær lausnir fyrir Android notendur. Sjálfur nota ég mikið Microsoft OneNote og það er komin útgáfa fyrir það á Android sem virkar alveg prýðilega, síðan er líka OnceDrive til að synca skjöl og myndir í skýið en vilja ekki nota Google hugbúnað.

Hvað varðar hugbúnað/öpp þá er það sama og á öðrum símum sem keyra sömu útgáfu af Google Play eða Android. Ég sótti Twitter, facebook, instragram og í raun nánast öll þau sem ég er með á Galaxy S2 símanum mínum þar sem notenda prófíll fylgir þér eftir símtækjum, líkt og þegar þú tengir Windows símann þinn við Live ID.

 

 

lgg2_1

Ég hef aldrei verið mikill GPS maður, yfirleitt notast ég bara við að kynna mér ferðina fyrirfram og/eða notast við kennileiti til að rata. Yfirleitt þegar ég er að kynna mér þessar leiðir notast ég mikið til ja.is eða Google Maps. Svo með tilkomu Google Maps í símann þá var þetta ennþá auðveldara og maður getur gert þetta meira “on the fly” og núna ennþá meira með Navigation. Þetta er að sjálfsögðu ekki gallalaust kerfi því jú ef það er lélegt netsamband, 3G/4G og álíka, þá er þetta varla nothæft.

Hér má sjá Youtube video sem sýnir offline samanburð á Nokia Here Drive og Google Navigation.

 

Niðurstaða

Ég verð að viðurkenna að sem Samsung maður þá bjóst ég ekki við miklu af þessu símtæki en það kom mér skemmtilega á óvart. Vélbúnaðurinn í þessu símtæki sér til þess að hugbúnaður sem keyrir hefur úr nánast öllu sem best er til boða og nýtir það vel.

Hönnunnin er það helsta sem ég set útá í við þetta símtæki. Staðsetning powertakka sem og hækka/lækka takka er þar efst á blaði sem fór hvað mest í taugarnar á mér, aðallega vegna þess hvernig ég held á símanum þegar ég tala í hann, en það er eins og langflestir sem ég talaði við. Það hjálpar líka ekki að ytra byrði er þannig hannað að ekki er hægt eða auðvelt að skipta um batterý þegar þetta batterý gefur sig á endanum. En já hönnun er stærsti gallin við tækið.

 

 

Þegar snýr svo að jákvæðum punktum við þetta tæki þá er það margt sem kemur til geina. Fyrst og fremst er skjárinn, gullfallegir litir og það lítur allt mjög vel út á honum. Tækið er mjög snarpt og skemmtilegt að vinna á því, það er ekkert latency á tækinu sem ég varð var við og það át upp allt sem ég henti í það. Þriðja og síðasta sem ég ætla að taka fram hérna er rafhlöðuendingin en það var eiginlega algerlega nauðsynlegt vegna hönnunargalla.

Ég mæli hiklaust með þessu tæki fyrir þá sem eru að leita sér að “stóru” símtæki sem tæklar nánast allt sem er hægt að fleygja í því í dag eða bara góðu símtæki sem er gott að nota. Það eru ekki allir eins og ég sem komast ekki yfir svona hönnunar “galla” og eru betri að aðlaga sig og því ætti þetta ekkert að angra þá.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

1 athugasemd

Finnur Örn 08/05/2014 - 14:58

Þetta er magnað tæki. Mér fannst staðsetninginn á tökkunum afkáraleg í c.a 5 mínútur. Núna get ég varla hugsað mér að nota önnur tæki !

Hugbúnaðurinn kom mér líka verulega á óvart. Búinn að vera með S2 og svo S4 og fannst Samsung hafa gengið full langt í að troða hugbúnaði inn á símana sem amk ég nota aldrei.

Kv,
FÖG – LG aðdáandi númer eitt !

Reply

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira