Heim Föstudagsviðtalið Stefán Hrafn Hagalín

Stefán Hrafn Hagalín

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 38 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”,  harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Viðmælandi okkar að þessu sinni heitir Stefán Hrafn Hagalín og er hann líklega flestum “í bransanum” vel kunnugur. Stefán er mikill snillingur og flokkast nær örugglega sem þungaviktarmaður í flest öllu sem hann tekur sér fyrir hendur, sannarlega Benz Íslenzkrar alþýðu. Hann er orðheppinn maður með eindæmum og einn af þeim sem einfalt og ljúft að mæla með á Twitter..

 

Stefán hefur lengi verið viðriðinn IT geirann en þó svo að ég hafi lengi vitað hver hann er þá náði ég ekki að kynnast honum persónulega ekki fyrr enn fyrir 1-2 árum. Þá var hann að vinna hjá Advania sem markaðsstjóri og almúgatengill en ég gef mér að þessi uppákoma á #Vorak hafi verið hápunktur starfsferils hans þar.

Hann er einn af fáum viðmælendum sem ég hef þurft að ganga á eftir í marga mánuði en gaf sig loksins og því kominn tími til að hætta þessu tuði og hleypa honum að..

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Stefán Hrafn Hagalín, viðkunnanlegur villimaður að vestan, en alinn upp í Skarðshlíð, Fjólugötu, Bjarmastíg og Mýrarvegi á Akureyri. Fæddur í Sódómu og búið þar frá unglingsaldri — þar af í Laugardalnum undanfarin 10-15 ár. Fimm barna faðir við Laugarásveg í dag og eiginmaður frú Valgerðar, sem er grafískur hönnuður hjá Pipar/TBWA og hestakona.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Tók í nóvember 2013 við starfi mannauðs- og markaðsstjóra Odda, 300 manna fyrirtækis í prentþjónustu og umbúðaframleiðslu. Fjölbreytt og skemmtilegt djobb. Var þar á undan hjá Skýrr og Advania sem markaðsstjóri og almannatengslagaur í ellefu ár. Kringum aldamótin var ég markaðsstjóri Opinna kerfa um skamma hríð og vann svo erlendis fyrir breska og bandaríska fjárfesta um tveggja ára skeið. Á 20. öldinni var ég blaðamaður og ritstjóri hjá Alþýðublaðinu, Helgarpóstinum og Tölvuheimi í liðlega áratug, ásamt því að þvælast eitthvað í útvarpi og sjónvarpi, þar sem ég stýrði meðal annars Punktur.is-tækniþáttaröðinni. Þar fyrir utan er ég ástríðukokkur, fótboltastrákur og hluti af hinu ódrepandi meistaraflokksráði Þróttar. Brúmmtiss.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Á virkum dögum vakna ég snemma og vinn framundir kvöldmat, fer þá heim, elda ofan í fjölskylduna og fer síðan á fótboltaæfingu og/eða að dæma fram á seinnipart kvölds. Eftir það er bara að hespa sér heim að lesa, vinna, pæla og sinna fjölskyldunni. Horfi yfirleitt alltaf á NBA fyrir háttinn… sem er sirka milli eitt og þrjú. Vinnudagurinn inniheldur einhverja klassíska hluti; milljón tölvupósta, þúsund samtöl, hundrað símtöl og tíu viðburði. Um helgar geri ég eitthvað svipað, nema þar eyk ég neyslu á hágæðabjór, reyni að halda mig frá vinnu að mestu og sef stundum út.

 

Lífsmottó?

Lífið er of mikilvægt til að taka of hátíðlega. Djók, lífsmottó eru hallærisleg. Mest áríðandi í lífinu er að vera góður og helst líka skemmtilegur. Allt annað er hjóm.

 

Wham eða Duran Duran?

Bara-flokkurinn.

 

Sturluð staðreynd um þig sem enginn veit?

Ég fer í fótbolta 5 sinnum í viku og dæmi að auki 50-60 leiki á ári í yngri flokkunum fyrir Þrótt. Það sirka steingleymdist að tilkynna mér að ég er löngu orðinn miðaldra; verð 43 ára í apríl. Annars er ég sífellt að röfla um þetta allt saman á samfélagsmiðlunum, þannig að þetta er varla leyndarmál. Ég er svoddan talbóla að það er eiginlega ekkert við mig á huldu. Allt gott fólk harmar það.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?

Maður notar bara það sem virkar og er mest notað á hverjum vinnustað. Windows undanfarinn áratug. MacOS þar áður. Er með Windows 8 í vinnunni, en Windows 7 og MacOS heima.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Samsung Galaxy S3. Ekki segja neinum.

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Ágætur skjár, þægilegt stýrikerfi, sæmilega öflugur.

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Hinar fyrirlitlegu farsímamyndavélar eiga það sameiginlegt með vasamyndavélum að þær taka allar ömurlegar myndir innandyra og við léleg birtuskilyrði. Þannig að ég er yfirlýstur hatursmaður allra myndavéla í öllum farsímum.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Ég er dæmigerður miðaldra farsímanotandi. Póstur, SMS, símtöl, dagatal og myndavél eru aðalmálið. Mest notuðu öppin eru hins vegar Facebook, Instagram, Twitter, Hangouts, Lumman og NBA Game Time. Merkilega oft hefur þó Google Maps komið að góðum notum — til dæmis þegar við hjónin villtumst í göngutúr um sumarbústaðahverfi um daginn. Börnin ræna símanum svo reglulega og spila Headsoccer og Temple Run.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Einhver af fyrstu Ericsson- eða Nokia-týpunum. Nokia 1011, 1610… eitthvað þess háttar. Ætli maður hafi ekki eignast fyrsta GSM-símann kringum 1995. Minnir að félagi minn á Tölvuheimi og víðar, Pétur Björnsson, hafi verið fyrsti handhafi GSM-síma kringum mig. Fékk hann sennilega frá bróður sínum, skipstjóranum Kristjáni Eldjárn.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Ég yrði nú bara ósköp glaður með einhverja nýja týpu af Samsung… Er ósköp sáttur við Samsung og ekki mjög kröfuharður notandi. Væri samt til í stærri skjá og öflugri örgjörva. Er það ekki bara S4 eða S5? Ég veit ekkert leiðinlegra en að skipta um síma og tölvu. Endalaust fikt í stillingum og uppsetningu. Óðinn blessi samt Google fyrir að gera fólki kleift að setja upp Android-síma á eldsnöggan hátt gegnum skýið.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Var lengi tækniblaðamaður og síðan stjórnandi hjá tæknifyrirtækjum, þannig að maður er dálítið alinn upp á Wired.com og kó. Hin síðari ár hefur maður róast í tæknilostanum og hangir mestmegnis á fréttavefjum, BBC. Held samt að ég noti Twitter mest í tæknifréttirnar í dag. Þar eltir maður hina og þessa snillinga og pikkar upp áhugaverða hluti hjá þeim. Fagfréttir fær maður síðan oftast gegnum LinkedIn.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Ég kláraði aldrei nema hálft ár í menntaskóla, þannig að ég vel eitthvað latneskt og helsnobbað í slúttið. Þetta voru til dæmis frekar svöl andlátsorð: Va bene, va bene, arrivo. Aspettate un momento.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira