Heim ÝmislegtAndroid Nokia X – innrás Nokia á Android-markaðinn?

Nokia X – innrás Nokia á Android-markaðinn?

eftir Magnús Viðar Skúlason

Mobile World Congress 2014 hefst í næstu viku og er taldar sterkar líkur fyrir því að þar muni Nokia jafnvel kynna sinn fyrsta Android-síma.

Fregnir þess efnis hafa verið að koma reglulega upp á yfirborðið síðan í ágúst á síðasta ári en þá bárust óljósar fréttir af því að Nokia væri að vinna að því sem kallað var ‘Plan B’ sem hugsað var sem varaáætlun ef Windows Phone-ævintýrið sem Nokia hóf með Microsoft í febrúar 2011 gengi ekki eftir.

Svo gerðist það í upphafi september að tilkynnt var um kaup Microsoft á farsímahluta Nokia og töldu margir að fregnir af væntanlegum Android-síma hafi verið lekið út af hálfu Nokia-liða til þess að hafa áhrif á samningaviðræður og þau verð sem verið var að ræða um gagnvart Nokia.

Hinsvegar þá fjölgaði með haustinu og fram að áramótum fréttum og frásögnum aðila um að það væri enn verið að vinna að framþróun á þessu Android-tæki innan herbúða Nokia og að tækið hefði vinnuheitið Nokia Normandy.

Myndir af tækinu í notkun sem og eiginleikalýsingar á því birtust einnig en talið er öruggt að um talsvert ódýrt Android-tæki sé að ræða; 4 tommu skjár, 512MB vinnsluminni, 1 GHz örgjörvi og 4GB geymsluminni ásamt 5 megapixla myndavél.

Í desember láku út að því virðist vera opinberar myndir af Nokia Normandy, sem hafði þá fengið heitið Nokia X. Greinilegt var á myndunum sem þá birtust að búið væri að eiga talsvert við Android-stýrikerfið í símanum og benti það til þess að Nokia væri búið að taka Android-stýrikerfið og taka út úr því það helsta sem Google vill að sé hluti af Android-umhverfinu eins og Play Store, Google Maps og fleira. Svipar þetta mjög til þess sem Amazon hefur gert með Kindle Fire-spjaldtölvurnar sínar en þær keyra á eigin útgáfu af Android-stýrikerfinu og er því ekki háð því sem Google vill að sé gert með Android-stýrikerfið. Þó í grunninn mun þetta vera KitKat-útgáfan af Android-stýrikerfin sem m.a. var hönnuð með minni vélbúnaðarkröfur í huga. Ekki þótti heldur verra fyrir Windows Phone-aðdáaendur að sjá hvernig viðmótið í stýrikerifnu leit út en það minnir óneitanlega á Start-skjáinn í Windows Phone.

Núna í janúar hafa borist fregnir af því að Nokia X muni bera heitið A110 sem gæti bent til þess að þessi sími verði hluti af Asha-línunni og þá líklegast verða hugsaður sem innspil inn á markaði í Asíu, Afríku, Indlandi og fleiri löndum í Mið-Asíu þar sem Asha-línan hefur verið hvað mest í sölu. Óstaðfestar heimildir herma að ýmiskonar prófanir og vottanir hafi átt sér stað í löndum eins og Indlandi, Malasíu og Thailandi.

Ýmiskonar markaðsefni liggur nú fyrir í tengslum við blaðamannafund Nokia sem haldin verður á Mobile World Congress sem verður 24. febrúar sem bendir til þess að hugsanlega sé eitthvað nýtt útspil á leiðinni frá Nokia.
Það að Nokia sé að koma út með Android-tæki núna, einungis nokkrum vikum áður en lokasalan til Microsoft mun eiga sér stað minnir um margt á Nokia N9-ævintýrið 2011 þegar Nokia setti þann síma í sölu og sagði að þetta yrði eini MeeGo-síminn sem kæmi frá fyrirtækinu en frægt orðið þegar Stephen Elop, forstjóri Nokia, fékk kynningu á því stýrikerfi í janúar 2011 og í ljós kom að stýrikerfið myndi ekki fyrr en árið 2013-2014 ná að keyra á ódýrari tækjum. Mánuði síðar var gert samkomulag við Microsoft um að Nokia færi ‘all in’ með Windows Phone-stýrikerfið.

Þrátt fyrir það setti Nokia N9 í sölu og seldist síminn ágætlega víða um heim og var komin talsverð pressa á Nokia að koma með fleiri slík tæki á markaðinn en ekkert varð úr því.

Leiða má því líkur að því að Nokia sé einungis að klára út af teikniborðinu sínu það sem fyrirtækið var komið langleiðina með og verið er að kanna hvort Android-tæki sem minnir meira á Windows Phone heldur en nokkuð annað geti verið leið til þess að ryðjast inn á hinn ódýra snjallsímamarkað á Asíu-svæðinu.
Margir telja að einmitt af því að Nokia-útgáfan af Android-stýrikerfinu líkist Windows Phone það mikið að það geti jafnvel verið til hagsbóta fyrir Microsoft að þetta tæki nái góðri fótfestu og í kjölfarið muni fleiri horfa í átt að Windows Phone-umhverfinu.

Þetta eru þó allt bollaleggingar sem munu fá skýrari mynd eftir helgi þegar Nokia boðar til blaðamannafundarins og þá kemur í ljós hvort að Nokia Normandy, sem er skemmtileg vísun í örnefni sem spilaði stóra rullu í því að snúa við gangi seinni heimstyrjaldarinnar, verði til þess að Nokia nái fyrri stöðu sinni á snjallsímamarkaðnum sem fyrirtækið naut með Symbian-stýrikerfið í broddi fylkingar.

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira