Heim Microsoft Hvað mun verða um Nokia á Íslandi?

Hvað mun verða um Nokia á Íslandi?

eftir Magnús Viðar Skúlason

Rétt fyrir áramót tók Opin kerfi (OK) yfir innflutning, dreifingu og umsýslu með vörumerkið Nokia á Íslandi. Í tæp 29 ár hafði Hátækni haft veg og vanda að því að stýra þessu vörumerki hérna á landi eða allt frá því Nokia hét Mobira og var að hasla sér völl á NMT-símamarkaðnum. Mobira Talkman var og mun vera eitt harðgerðasta raftæki sem hefur verið gert og lagði það sannarlega grunn að því sem Nokia seinna meir byggði ofan á þegar GSM-væðingin fór af stað í Evrópu og víða um heim.

Því miður þá fór Hátækni á hausinn núna í desember og voru allar eignir seldar út úr fyrirtækinu áður en það var tekið til gjaldþrotaskipti núna í janúar.

Segja má að ófarir Nokia á símamarkaðnum undanfarin ár séu samofnar óförum Hátækni en með minnkandi sölu á Nokia-símum þá var minni velta hjá Hátækni sem endaði með því sem áður hefur verið nefnt.
Eins og gefur að skilja að þá er minna fé á milli handanna eftir því sem að salan er minni og því er minna hægt að leggja í markaðsátök eins og auglýsingar, Facebook-leiki og styrki tengda vörumerkinu. Líkja má þessu við hringavitleysu því með meiri markaðsásókn þá aukast líkurnar á því að salan verði meiri.

Það sem hefur haft einna mest áhrif á minnkandi sölu á Nokia-símum er hina öra breyting á snjallsímamarkaðnum en á örskotsstundu hafa bæði Apple og Google náð nánast einokunarstöðu á þessum markaði líkt og Nokia hafði hér á árum áður með Symbian-stýrikerfinu.

Margir hafa efast um ákvörðun Nokia í febrúar 2011 að fara í þetta nána samstarf með Microsoft en um mitt síðasta ár þá voru blikur á lofti og jákvæðar mælingar sýndu að Windows Phone-stýrikerfið væri farið að ná fótfestu víða um heim. Hér á landi sýndu mælingar strax síðasta vor að fleiri væru farnir að nota Windows Phone-síma frá Nokia og síðasta haust fór ekkert á milli mála að staðan væri að vænkast þó það gerðist hægar en menn vonuðust til.

Þarna komum við ef til vill vandamálinu sem um ræðir en það er staða Nokia hérna á landi. Lengi vel þurfti ekki að hafa mikið fyrir hlutunum enda var Nokia vinsælasti farsímaframleiðandi í heiminum og eins og gefur að skilja þá þarf að hafa lítið fyrir því ef eftirspurnin er alltaf mikil eftir vörunni. Hinsvegar má ekki gleyma því að Coca Cola, eitt verðmætasta vörumerki í heimi, leggur einmitt gríðarlega mikið fjármagn í að viðhalda vörumerkinu sínu og nær að halda því áberandi með þeim hætti. Þannig að ekki er einungis hægt að treysta á velvild tryggra viðskiptavina um að þeir versli áfram Nokia þó svo að þeir hafi gert það áður. Ef eitthvað er þá er að koma upp kynslóð af neytendum á markaði sem aðhyllist ekki það sem kallast ‘brand loyalty’ eða merkjatryggð, líkt og eldri kynslóðar hafa venjulega gert. Þannig að sú ‘áskrift’ sem Nokia á Íslandi hefur haft hér á markaði hjá íslenskum neytendum fer ört minnkandi og jafnvel væri hægt að halda því fram að sú markaðshlutdeild sem Windows Phone hefur hér á landi sé tilkomin vegna tryggðar Nokia-notenda við vörumerkið fremur en vegna mikillar markaðssóknar hérlendis.

Það er því kappsmál fyrir Opin kerfi að gera vel í þessum efnum og koma inn á markaðinn af fullum krafti. Nú er sannarlega tækifæri til þess að ná árangri, sérstaklega með þau tæki sem eru í boði núna frá Nokia en símtæki á borð við Nokia Lumia 925, 1020 og 1520 auk hinna gríðarlega hagkvæmu Nokia Lumia 520 og 625 ættu að duga hverjum sem er til þess að ná góðri fótfestu á markaðnum.

Hluti af starfsfólki Hátækni fór með til Opinna kerfa vegna beinna tengsla þeirra við vörumerkið Nokia. Það er alltaf fagnaðarefni að starfsmenn fyrirtækja sem fara á hausinn fái áfram starf í tengslum við það sem þeir eru að gera en óhjákvæmilega vaknar sú spurning hvort að þeir sem komu að vörumerkinu áður sé til þess búnir að fleyta því áfram? Óneitanlega spilar reynsla, þekking og tenging við vörumerkið miklu máli upp á að koma því á framfæri og vekja áhuga og eftirspurn eftir því. En ekki má gleyma því að Hátækni fór á hausinn einmitt af því það var ekki hægt að örva betur söluna með vörumerkið Nokia og því er hreinlega spurning hvort betra hefði verið ef algjörlega nýir aðilar hefðu komið að Nokia á Íslandi vegna þessara breytinga?

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira