Heim Föstudagsviðtalið Föstudagsviðtalið – Þorbjörn Þórðarson

Föstudagsviðtalið – Þorbjörn Þórðarson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 29 í röðinni. Venjulega er viðtalið tekið við harða nörda sem sviðsljósið skín sjaldan á sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum en núna bregðum við lítillega út af vananum með því að taka viðtal við einstakling sem tengist þessu fagi lítið sem ekkert.

Við höfum svo sem breytt útaf vananum áður með því að fá stór nöfn í viðtal hjá okkur, eins og þegar Gummi Ben, Þossi, Doddi litli, Alda Sigmunds og Margrét Gústavsdóttir komu í viðtal. Viðmælandi okkar að þessu sinni lögfræðingur að mennt og er vel þekktur flestum þeim sem horfa á fréttir og fréttaskýringar en þetta er enginn annar enn Þórbjörn Þórðarson fréttamaður hjá 365 miðlum.

Það má vel segja að Þorbjörn sé umdeildur fréttamaður enda ófeiminn við að ganga á viðmælendur sína og kryfja mál sem til umfjöllunar eru vel til mergjar. Þorbjörn er meðal annars umsjónamaður á þættinum Klinkið sem sýndur er á Stöð 2 og er aðgengilegur á Visir.is ásamt því að vera fastur penni og fréttamaður á Visir.is.

Ég þekkti Þorbjörn ekki persónulega áður en ég hafði samband við hann útaf þessu viðtali en hafði lengi fylgst með honum á Twitter og á Stöð 2. Þetta er sannarlega skemmtilegur, ákveðinn og beinskeittur fréttamaður sem gaman er að fylgjast með.

 

En jæja þá ætla ég að hætta þessu rausi og hleypa Þorbirni að.

 

Hver ert þú, við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er þrítugur lögfræðingur úr Reykjavík en starfa sem fréttamaður á Stöð 2 og hef verið í blaða- og fréttamensku í tæp sex ár. Tvö ár á Morgunblaðinu og sl. fjögur ár á Stöð 2.

 

Hvernig er venulegur dagur hjá þér?

Ég mæti kl. 8:50 í vinnuna á fréttastofuna í Skaftahlíð. Morgunfundur á fréttastofu Stöðvar 2 hefst kl. 9:10. Hann tekur 20-30 mínútur. Eftir það hefst dagurinn á símtölum og yfirferð yfir það helsta í öðrum fjölmiðlum ef því var ekki lokið fyrr um morguninn. Típískur dagur felur í sér lestur á mikið af skjölum og mikið af símtölum, oft blindum símtölum í heimildarmenn, fólk í atvinnulífinu og stjórnmálum og fleira. Ef ég kemst frá vinnu fer ég í ræktina í hádeginu. Ef ég kemst ekki frá í hádeginu fer ég eftir vinnu. Ég passa mig alltaf að vera kominn aftur í vinnu ekki seinna en kl. 13 og gríp mér bara eitthvað létt snarl á hlaupum. Vinnudegi lýkur oftast í kringum 19. Á kvöldin reyni ég að slaka á. Mér finnst gaman að elda og það er nýtilkomið áhugamál. Á sumrin spila ég golf alltaf þegar veður leyfir.

 

Lífsmottó?

Aldrei hafa áhyggjur af einhverju sem skiptir litlu máli, alltaf sjá skóginn fyrir trjánum, setja sér markmið og ná þeim. Alltaf.

 

Wham eða Duran Duran?

Duran Duran. Ég sá þá í Egilshöll sumarið 2005 og sé ekki eftir peningunum sem fóru í miðana. Ordinary World hefur alltaf verið í nettu uppáhaldi þó ég sé ekki mikill glyspoppari. Er meira svona Arcade Fire og Radiohead.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?

Windows. Held þetta sé nýjasta útgáfan, en er ekki viss.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 4S

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Gæði mynda, einfaldleiki og samhæfing við iCloud með öllum minnisskjölum, tölvupósti og tengiliðum.

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Já, rafhlaðan mætti vera betri. Hún er alls ekki góð.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Hringja, senda e-mail, senda iMessage og SMS, Twitter og vafr á netinu í Safari. Í seinni tíð hef ég reynt að hafa slökkt á Facebook í símanum til að forðast áreiti en kíki þess í stað á Facebook í tölvunni.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 3120 með frelsispakka frá Tali haustið 1999. Ég man að afi minn var nokkuð hneykslaður. Taldi að 16 ára ungmenni hefði enga þörf fyrir slíkt tæki á þeim tíma.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Það gengur gegn sannfæringu minni að nokkur risastór fyrirtæki eins og Apple og Google stjórni tæknimarkaðnum, stjórni því hvernig tæknin þróast og stjórni því að hluta til hvernig við í reynd lifum lífum okkar. Þessi fyrirtæki eru gríðarlega valdamikil í ljósi þess hversu stóra rullu tæknin spilar í lífi nútímamannsins. Ég myndi samt kaupa iPhone 5S frá Apple ef ég þyrfti að kaupa síma núna. Ástæðan er sú að ekkert annað heillar. Ég vona samt að ég þurfi ekki að endurnýja á næstu 12-24 mánuðum.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Tæknihlutann á vefsíðu New York Times svo rata ég stundum inn á Gizmodo og CNET. Svo erum við með úrvals tækni- og vísindafréttamann hjá 365, Kjartan Hrein Njálsson. Ég les allt sem hann skrifar og birtir á Vísi og Stöð 2.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Berum virðingu fyrir skoðunum og lífi annarra, hættum að velta okkur upp úr hlutum sem skipta litlu máli, enbeitum okkur að heildarmyndinni. Flækjum ekki líf okkar að óþörfu og ræktum vináttuna og samskiptin við fjölskyldu og vini. Það er það sem skiptir mestu máli.

Mynd með viðtali:  © 365 / Valgarður Gíslason

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira