Nokia Lumia 625

eftir Þórarinn Hjálmarsson

Nýverið gaf Nokia út uppfærða útgáfu af Lumia 620 símanum sínum. Upprunalegi síminn kom á markað í desember 2012 og því kominn tími á uppfærslu.

Hátækni kom að sjálfsögðu eintaki til okkar hjá Lapparanum til að prófa herlegheitin.

Lumia 625 myndi flokkast sem „mid range“ sími verðlega séð og mun ég reyna að fjalla um tækið útfrá þeirri forsendu enda liggur vélbúnaður ekki á pari við flaggskips síma líkt og Lumia 1020 eða Lumia 925 en rétt fyrir ofan forvera sinn 620.

Ef litið er til verðs þá er hann um helmingi ódýrari en ofangreind flaggskip og nokkrum krónum dýrari en forverinn.

Þegar síminn er fyrst tekinn upp þá kemur stærðin manni strax mest á óvart. Skjárinn er 4,7“ á móti 3,8“ frá 620 símanum en við köfum dýpra í það neðar í yfirferðinni.

 

Fyrirvari
Þar sem undirritaður hefur verið með Android símtæki í höndunum síðastliðin 3 ár þá voru nokkur viðbrigði að fá í hendurnar loks síma sem keyrir WP8 stýrikerfið. Þó er undirritaður ekki óvanur símtækjum frá Nokia líkt og glögglega má lesa meðal annars í símasögunni minni en síðasti Nokia sími sem ég átti var E51 tækið þeirra sem keyrði Symbian stýrikerfið.

Án þess að vera fjalla mjög mikið um stýrikerfi símans sérstaklega þá kom það einnig á óvart hversu vel síminn og fartölva undirritaðs (sem keyrir Win8) töluðu vel saman. Allar myndir sem voru teknar voru sjálfkrafa aðgengilega í gegnum Skydrive sem og öll gögn sem vistuð voru á sama stað.

En nóg um WP8 og smellum okkur beint í eins og eitt „unboxing“ myndband.

 

Hönnun og vélbúnaður

Nokia Lumia 625 er veglegt símtæki, líkt og áður var nefnt er skjárinn 4,7“ og þar af leiðandi stórt tæki til að handleika, sérstaklega ef Lumia 620 er skoðaður samhliða.

Tækið sem ég fékk í hendurnar til að prófa var með skemmtilega appelsínugulri plast bakhlið sem ver innviði símans fyrir utanaðkomandi hnjaski. Plastið er sterklegt en hinsvegar gefur símanum óneitanlega þá tilfinningu að ekki er um flaggskips síma að ræða. Í tilfelli símans sem ég fékk í hendurnar virtist plastið ekki falla nægjanlega vel að símanum og því koma stundum lítil smell hljóð þegar siminn var tekinn upp þar sem plastið var að falla inn í símtækið. Möguleg ástæða er að þetta er lánstæki sem hefur verið á flakki áður en ég fékk það í hendurnar.

Síminn tekur aðeins í þyngdarlega séð og plasthliðin á bakinu mætti vera stamari, stundum fékk maður á tilfinninguna að ég væri að missa símann þegar hann var sóttur ofan í vasa eða tekinn upp af borði. Síminn er 159gr en forveri hans vó 127gr, en eins og áður hefur komið fram var líka minni.

Síminn er með þrjá hnappa á hægri hliðinni, myndavélahnapp, „power“ hnapp og svo takka til að hækka/lækka hljóðið. Framan á símanum sjálfum eru svo hinn klassíski Windows hnappur, leitin og tilbaka hnappur.

 

625_8

 

Síminn er fáanlegur með appelsínugula, græna, gula, svarta eða hvíta bakhliða en líkt og með Nokia 5110 forðum daga þá er hægt að kaupa bakhliðar og skipta þeim auðveldlega út. Einnig er samhliða því hægt að breyta litatónunum í stýrikerfinu til að hæfa þeirri bakhlið sem er á símanum hverju sinni. Smekk sími þar á ferð.

 

Lumia 625 auglýsing frá Nokia

http://www.youtube.com/watch?v=bicgWtDPJz0

 

Stærðir

  • Hæð  133,3 mm
  • Þykkt  9,2 mm
  • Breidd  72,3 mm
  • þyngd 159 gr

 

Lumia 625 er með Dual-Core 1.2GHz Snapdragon S4 örgjörva og 512 mb í vinnsluminni. Síminn er viðbragðsfljótur, bregst vel við og virkar „snappy“ þegar maður er að fara á milli forrita og nota símann í sínu daglega vafstri.

 

625_7

 

Síminn kemur með 8gb geymslurými á símanum sem samnýtist með stýrikerfi en hægt er að bæta við allt að 64gb microSD korti við símann til að auka geymslupláss.

Til viðbótar er Windows Phone beintengt við SkyDrive og þar bætist við ókeypis 7GB í skýinu sem nýtist til að taka afrit af símanum sjálfum eða af ljósmyndum og myndböndum.

Einfalt er að kaupa sér meira Skydrive geymslupláss

  • auka 20GB kosta um 1200 krónur á ári
  • auka 50GB kosta um 3200 krónur á ári
  • auka 100GB kosta um 6400 krónur á ári
  • auka 200Gb koast um 12000 krónur á ári

Verð uppgefið á vefsíðu Skydrive

 

Tengimöguleikar

Lumia 625 er með Micro USB tengi (USB 2.0) neðst á símtæki þannig að einfalt er að tengja símann við tölvu til að sækja eða setja á hann efni. Þetta er kostur þar sem notendur geta notað allar Micro USB snúrur sem þeir eiga fyrir, það er ekkert sérstakt tengi eða millistykki sem þarf. Þetta tengi er sameiginlegt með “öllum” snjallsímum…. öðrum en iPhone.

 

625_5

 

Efst á síma er einnig 3.5 mm heyrnartólstengi en sleði fyrir microSD og SIM kort eru undir bakhliðinni. Nokia Lumia 625 er með Bluetooth 4.0+LE en ekki með NFC eins og forveri sinn.

Lumia 625 er með þráðlausu neti eins og við er að búast sem styður 802.11 b/g/n og allar helstu dulkóðanir sem skipta máli eins og: WPA2 (AES/TKIP), WPA, WPA-Personal, WEP, WPA2-Personal, WPA-Enterprise, WPA2-Enterprise, PEAP-MSCHAPv2, EAP-SIM, EAP-AKA

Nokia Lumia 625 styður 4G að fullu og því kærkomin viðbót við núverandi framboð af snjallsímum sem styðja 4G.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Það er best að nefna það strax en Lumia 625 er ekki með íslensku lyklaborði, sem er mikill mínus fyrir annars góðan síma. Hinsvegar eru Íslenskir stafir aðgengilegir og dró það aðeins úr hinum almenna skrifhraða sem undirritaður hafði tileinkað sér á svona snjalltækjum.

 

Hinsvegar það sem kom hressilega á óvart var rafhlöðuendingin í símanum en Lumia 625 er með 2000mAh rafhlöðu sem er gefin upp

  • Tal yfir 2G: 23,9 tímar
  • Tal yfir 3G: 15,2 tímar
  • Biðtími: 23 dagar

 

Ég setti símann upp líkt og ég hafði verið með fyrra símtæki, hann var tengdur við nokkra samfélagsmiðla (fíkill?) ásamt nokkrum tölvupóstum (spes ég veit) og ofan á það voru teknar hellingur af myndum, símtölum og sms-um. Semsagt eðlileg notkun á símanum. Ofan á þetta var svo sífellt verið að tengjast við WiFi eða 3G ásamt því að Navigation með Nokia Here var reynt í þaula.

Við þessa eðlilegu notkun var ég að ná að jafnaði 38 tímum úr hverri hleðslu. Sem er hreint frábær ending á snjallsíma og framar þeim væntingum sem ég gerði til tækisins. Sérstaklega ef litið er til verðs. Þessir 38 tímar fengust með því að vera með lægstu stillingu á skjánum.

 

625_4

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Lumia 625 er fínn, ekkert hægt að segja of mikið um hann þannig séð. Þetta er 4,7“ IPS LCD skjár með Corning Gorilla glass 2 og með 201ppi í punktaþéttleika. Skjárinn styður 800×480 WVGA upplausn og er hann því í 15:9 í skjáhlutfalli.

Öll snertivirkni er fín í símanum, það er einna helst ef smellt er á hnappa fyrir neðan skjá (tilbaka, Windows og leitin) sem maður fær á tilfinninguna að síminn er ekki að nema nægjanlega vel.

Heilt yfir er mjög þægilegt að lesa af skjánum, sama hvort um er að ræða video, myndir eða texta.

Myndavél

Lumia 625 kemur með 5mp myndvél að aftan en myndavélin að framan er 640x480px myndavél.

Myndgæðin sem koma úr vélinni eru á pari við það sem má búast miðað við 5mp myndavél. Ekki kannski bestu myndirnar en nægjanlega til þess að taka myndir fyrir samfélagsmiðlana og til að grípa í.

Með símanum koma Nokia Smart Camera, Cinemagraph, Photobeamer og Nokia Glam me lens og koma þessi smáforrit með skemmtilega vinkla á myndartökur með símanum.

Þótt hægt sé að þusa endalaust um verðið á símanum og að ég mundi telja að myndavélin sé fullnægjandi fyrir flesta sem eru að taka frekar einfaldar myndir. Ef ég væri sjálfur í leit að alvöru myndvélasíma með betri myndavél þá færi ég í beint í Lumia 1020.

Margmiðlun og leikir

Öll margmiðlunar upplifun í símanum er mjög góð. Youtube og Vimeo spilast allt saman mjög vel í símanum og auðvelt er að bæta við efni eins og hljóðbókum (eitthvað sem ég er mikið að nota símann í að hlusta á).

 

625_9

 

Eins og áður hefur komið fram með Lumia símana þá er auðveldlega hægt að tengjast Store og næla sér í leiki til að spila og rauk ég strax í einn af mínum uppáhalds leikjum „Where is my water“ og prófaði. Öll upplifun við að spila leikinn var fín, þó fannst mér á tímum eins og síminn ætti í smávægilegum vandræðum með að spila hann, kom smá hik.

En eins og ég sé þetta símtæki þá er þetta ekki neitt leikfang í þeim skilningi.

Hugbúnaður og samvirkni

Allir Windows Phone 8 símar koma með glæsilegri hugbúnaðarsvítu sem gerir það að verkum að það ætti ekki að vanta mörg forrit til viðbótar. Sem dæmi um forrit sem fylgja ókeypis með má nefna Office Pakkinn með Word, Excel og PowerPoint, One Note, Here svítan ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, pdf lesara, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka o.s.frv.

Office pakkinn gerir notanda kleift að vinna með Word, Excel og PowerPoint skjöl beint af SharePoint, SkyDrive eða af símanum sjálfum. Hægt er að breyta þeim, senda með tölvupósti eða bara vista í skýið án þess að þurfa að kaupa auka hugbúnað. Ég er sammála Lapparanum, ég hef aldrei kynnst svona góðri skjalavinnslu á snjallsíma áður. Vafrinn í Windows Phone 8 er mjög góður og að okkar mati einn sá besti af þeim vöfrum sem fylgja með snjallsímum í dag.

Ef þig vantar fleiri forrit þá býður Microsoft Store í dag upp á gott úrval forrita og fann ég forrit fyrir allt sem mig vantaði. Flestir nota FacebookTwitter og Instagram og ef eitthvað vantar til viðbótar þá er hér ágætis listi yfir forrit sem Íslenskir WP notendur nota.

 

625_3

 

Hér má lesa um Nokia Here leiðsöguforrit sem fylgja ókeypis með öllum Nokia Lumia símtækjum

 

 

Niðurstaða

Eftir að hafa eitt smá tíma með símanum og prófað hann liggur eftir hugsunin fyrir hvern hann er.

Þó að myndavélin sé ágæt þá er hún alls ekki sú besta á markaðinum þannig þetta er ekki fyrir þá sem eru í þeim hugleiðingunum. Þeir sem vilja alvöru myndavélasíma ættu að fara rakleiðis í 1020 símann ef þeir eru á annað borð að skoða sér WP8 síma.

 

 

Ég sé símann steinliggja í höndunum á fólki sem er á ferðinni, þarf síma sem endist allan daginn án þess að þurfa taka sér smá sopa af rafmagni í gegnum daginn. Þú ert með aðgang að Office svítunni og getur því kíkt á skjölin þín á ferðinni, svarað tölvupóstum eða kíkt á Lappari.com milli funda.

Það sem kom mér skemmtilega á óvart hversu auðvelt er að setja símann upp. Eins og ég nefndi áður var ég að færa mig af Android símtæki og því bjóst ég við einhverjum hausverk, hinsvegar fylgdi ég ráðleggingum Lapparans í þaula varðandi að setja upp símann og gekk það eins og í sögu. Eins kom mér á óvart hversu lítil viðbrigðin voru í raun og veru. Má færa rök fyrir því að þar sem ég var vandur Windows 8 stýrikerfinu þá hafi þetta í raun ekki verið svo stórt skref fyrir mig. Upplifun mín af fartölvunni færðist í raun bara í lófann á mér í formi Lumia 625.

Síminn er óneitanlega á góðu verði og hann sem heild hentar mér persónulega sem nemi og á vinnumarkaðinum.

Þessum orðum hefur oft verið fleygt fram en eiga alfarið við núna – Þú ert að fá mikið fyrir peninginn með kaupum á þessum síma. Það er ekkert flóknara en það.

Skrifstofufólki, nemar og aðrir sem eruð að leita ykkur að góðum snjallsíma. Leitið ei meir, Lumia 625 er mættur.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira